Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur verið vanfjármögnuð til fjölda ára en á sama tíma hefur málum sem berast nefndinni fjölgað verulega.
Fram kemur í umsögn um stefnu í neytendamálum til ársins 2030, sem Hildur Ýr Viðarsdóttir formaður nefndarinnar hefur sent til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, að á síðasta ári „þurfti nefndin að hætta störfum í byrjun nóvember þar sem það fjármagn, sem nefndinni var skammtað á því fjárlagaári, var uppurið, þ.e. ekki var til fjármagn til að greiða nefndarmönnum“.
Hildur Ýr sagði í frétt í Morgunblaðinu í byrjun desember sl. að peningarnir væru búnir fyrir árið 2024 og eins og staðan var þá var ekki gert ráð fyrir auknu framlagi þannig að nefndin sá fram á að þurfa að hætta upp úr miðju yfirstandandi ári. Samkvæmt upplýsingum frá henni í gær var samþykkt í lok síðasta árs að greiða 4,8 milljónir króna úr varasjóði til kærunefndarinnar til að bregðast við stöðunni sem uppi er hjá nefndinni.
177 ný mál á síðasta ári
Nefndin úrskurðar í ágreiningsmálum milli kaupenda og seljenda vöru og þjónustu. Í umsögninni til þingsins bendir Hildur Ýr á að þeim neytendum sem leita til kærunefndarinnar hafi fjölgað og voru ný mál á árinu 2024 alls 177. Auk þess barst nefndinni fjöldi fyrirspurna og endurupptökubeiðna auk fleiri verkefna. Til samanburðar var fjöldi nýrra mála á árinu 2023 alls 139.
Auk þessa hafa verkefni verið færð undir nefndina, t.a.m. frá Samgöngustofu og kærunefnd fasteignasala, án samsvarandi aukningar á fjárveitingum til nefndarinnar. „Samhliða fjölgun verkefna er alveg ljóst að það þarf aukið fjármagn svo að nefndin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og starfað allan ársins hring,“ segir í umsögninni.
Spurð um fjölda nýrra mála sem berast nefndinni segir Hildur að staðan virðist vera svipuð í byrjun þessa árs og á árinu 2024.