Hildur Jörundsdóttir fæddist á Litlalandi í Mosfellssveit 26. maí 1949. Hún lést á Herlev Hospital í Danmörku 31. mars 2025.

Foreldrar Hildar voru Margrét Einarsdóttir og Jörundur Sveinsson.

Hildur var elst af fimm systkinum, hin eru Helga, Halla, Sveinn og Einar.

Hildur lætur eftir sig eiginmann, Stefán Þór Þórsson, dæturnar Elsu Idu Götterup Stefánsdóttur og Margréti Helgu Stefánsdóttur og þrjú barnabörn, Charles Martin, Emmu Hildi Götterup Jensen og Ölvu Margréti Götterup Jensen.

Hildur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1969 og giftist Stefáni sama ár. Hildur og Stefán fluttu til Danmerkur 1973, þar sem hún starfaði meðal annars sem bókhaldari hjá skólayfirvöldum. Þau fluttu síðan aftur til Íslands, þar sem hún var meðal annars í dönsku í Háskóla Íslands en varð að hætta vegna veikinda. Fluttu þau síðan aftur til Danmerkur 1996 og hafa verið búsett þar í Kongens Lyngby síðan.

Hildur var mjög listræn og mikil hannyrðakona. Hún skrifaði um æsku sína á Litlalandi í Mosfellssveit og gaf bókina sjálf út til þess að gefa fjölskyldunni, ótrúlega skemmtilega skrifuð og dýrmæt fyrir fjölskylduna að eiga. Hún vann mikið í ættfræði og lætur eftir sig mikið magn af upplýsingum um ættir bæði hennar og Stefáns.

Útför Hildar fer fram frá Christianskirken í Kongens Lyngby í dag, 9. apríl 2025, klukkan 11 (að dönskum tíma).

Elsku Hildur, stóra systir okkar, kvaddi snögglega mánudaginn 31. mars. Hún var sannkölluð stóra systir – með stóru essi. Hún bar hag okkar yngri krakkanna alltaf mikið fyrir brjósti, hvað þá sína eigin fjölskyldu.

Sem betur fer kallaði hún okkur systkinin öll til sín fyrir rúmum mánuði. Hún vildi hitta okkur meðan hún hefði heilsu til, og við fórum öll.

Eitthvað hefur hún fundið á sér, því lífsgæði hennar minnkuðu dag frá degi eftir þá heimsókn. Nú er hún farin á betri stað, í sumarlandið.

Ingólfur minn hélt mikið upp á frænku sína og sagði að hún væri langskemmtilegust af okkur systrum. Hildur var afskaplega ánægð að heyra það. Hildur var frekar alvörugefið barn, vinmörg og eldklár, og gekk henni alltaf vel í skóla. Ég vildi helst alltaf vera með henni, og yfirleitt lét hún sig hafa það. Þó að hún hafi einu sinni lokað mig inni í dúkkuhúsi! Hún sá svo mikið eftir því að hún bað mig eiginlega afsökunar á því alla ævi.

Þegar Hildur var unglingur fór hún á Laugarvatn í skóla, og saknaði ég hennar ógurlega. Þar kynntist hún Stefáni sínum. Þau voru náin og studdu hvort annað í einu og öllu.

Ég, Kiddi, Stefán og Hildur ólumst eiginlega upp saman, eyddum miklum tíma saman og vorum ótrúlega samrýnd.

Við Hildur áttum okkar vikulegu samtöl, og ég á eftir að sakna þeirra óskaplega mikið. Þegar þetta gerist svona snöggt þá meðtekur maður þetta ekki strax, þannig er það allavega með mig.

Hildur og fjölskylda bjuggu stærstan hluta af ævi sinni í Kaupmannahöfn og heimsóttum við þau oft. Móttökurnar voru alltaf eins og að kóngafólk væri á ferð.

Halla sendir kveðju hér að neðan og minnist þar meðal annars á hvað hún var mikill völundur í höndunum, eigum við öll margt fallegt eftir hana.

Við og börnin okkar eigum marga fallega muni sem Hildur bjó til af mikilli nákvæmni. Smágerð listaverk, prjónaða jólasveina, dýr og fígúrur úr garni og steinum. Ekki síst fínu dúkkurnar sem við systkinin fengum þegar við áttum stórafmæli. Þetta voru hrein listaverk og ekki tala ég nú um allar fallegu útsaumsmyndirnar hennar. Þökk sé Hildi þá eigum við Litlalandssystkinin sögu okkar skráða. Meðan hún hafði heilsu til var hún mikill grúskari.

Það var alltaf gaman að spjalla við Hildi hvort sem var um heimsmálin eða hversdagslega hluti.

Elsku Stebbi, Ída, Margrét og fjölskyldur, þetta verður tómlegt hjá ykkur. Okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra og þúsund kossar yfir hafið.

Helga, Halla og fjölskyldur.

Það er margs að minnast þegar horft er yfir farinn veg. Auður og Þóra muna eftir hlýjum faðmi frænku sinnar og Andri fjörinu þegar Hildur, Stefán og stelpurnar komu frá Danmörku. Þá var glatt á hjalla í Leirutanganum og keyptar kókosbollur og fleira íslenskt nammi og setið löngum stundum við að ræða heimsmálin og segja sögur. Ég hugsa til hinna ótal samtala við Hildi í gegnum tíðina. Hún gat talað um allt og þegar við höfðum leyst lífsgátuna sagði hún „voðalega erum við gáfaðar Guðríður mín“.

Ég verð ævinlega þakklát fyrir væntumþykju Hildar í garð barnanna minna og hennar ósviknu einlægni að þau skiptu öll jafnmiklu máli. Í hverju samtali spurði hún hvað þau væru að brasa og hvernig þeim liði. Ávallt bað hún fyrir kærar kveðjur og gleymdi engum. Það er dýrmætt að finna að maður skiptir máli og vera hluti af fjölskyldu, þá tilfinningu gaf Hildur okkur.

Elsku Stefán, Ida, Carsten, Margrét, Erik, Emma og Alva. Hugur minn er hjá ykkur í sorginni. Minningarnar um yndislega Hildi munu varðveitast og lifa áfram í hjörtum okkar.

Guðríður.