Kristrún Frostadóttir
Kristrún Frostadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur stofnað frumkvæðismál vegna meints leka úr forsætisráðuneytinu varðandi erindi Ólafar Björnsdóttur, fyrrverandi tengdamóður barnsföður Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra, til forsætisráðherra

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur stofnað frumkvæðismál vegna meints leka úr forsætisráðuneytinu varðandi erindi Ólafar Björnsdóttur, fyrrverandi tengdamóður barnsföður Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra, til forsætisráðherra. Mun Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra af þeim sökum sitja fyrir svörum á opnum fundi nefndarinnar í lok þessa mánaðar.

Þetta staðfestir Vilhjálmur Árnason, alþingismaður og formaður nefndarinnar, í samtali við Morgunblaðið. Að sögn Vilhjálms skýrist þessi töf af því að Kristrún verður í Brussel í þessari viku, en síðan setur páskafrí strik í reikninginn. Næsti fundur nefndarinnar eftir páska verður ekki fyrr en undir lok apríl.

„Nefndin mun ekki fjalla um mál Ásthildar Lóu sem slíkt, heldur um meðferð þess í forsætisráðuneytinu,“ segir Vilhjálmur og segist búast við að fleiri verði kallaðir á fund nefndarinnar vegna þessa, þótt ekki liggi fyrir eins og sakir standa hverjir það verða.

„Nefndin hefur nú þegar kallað eftir öllum gögnum málsins, varðandi meðferð á persónulegum málefnum ásamt lögum og reglum sem um slíkt gilda,“ segir Vilhjálmur.

Ekki er samhljómur í orðum Ólafar Björnsdóttur og Kristrúnar Frostadóttur um hvort erindi Ólafar hafi verið bundið trúnaði eður ei. Hefur Kristrún fullyrt að svo hafi ekki verið og stangast það á við frásögn Ólafar. Ætlun stjórnsýslu- og eftirlitsnefndar með frumkvæðisrannsókn sinni er m.a. að komast að hinu sanna í málinu.

Í Morgunblaðinu í gær krafði Ólöf Kristrúnu um afsökunarbeiðni, enda hefði sér verið misboðið þegar Kristrún sakaði hana um ósannindi úr ræðustól Alþingis og rengdi orð hennar um að hún hefði óskað eftir trúnaði um erindi sitt við ráðherrann.

„Mér er mjög misboðið, að hún skuli standa í pontu Alþingis og eiginlega segja mig ljúga,“ sagði Ólöf í gær.

Leitað var eftir viðbrögðum Kristrúnar Frostadóttur vegna þessa í gær, en hún gaf ekki kost á viðtali við Morgunblaðið vegna málsins. Þess í stað sendi hún blaðamanni svofelld smáskilaboð:

„Forsætisráðuneytið hefur birt ítarlega tímalínu um málið og ég hef svarað ítrekað fyrir það. Ég hef ekki í hyggju að tjá mig frekar um málið á þessum tímapunkti.“

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson