Hið ljúfa líf
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Aldrei þessu vant var rólegheitaborgin Genf með lífsmarki í síðustu viku en tilefnið var stórsýningin Watches & Wonders sem þar er haldin ár hvert. Um er að ræða aðalsamkomu svissneskra úraframleiðenda og leggja þeir undir sig stóra sýningarhöll til að bera á borð allt það fullkomnasta og fallegasta sem þeir hafa smíðað. Áhugamenn um armbandsúr fylgjast spenntir með enda hefur skapast hefð fyrir því að greinin noti viðburðinn til að frumsýna áhugaverðustu nýju úrin sem rata munu í verslanir á þessu ári.
Lúxus- og lífsnautnasérfræðingur ViðskiptaMoggans var svo heppinn að fá boð á sýninguna, og gat því skoðað allar gersemarnar í návígi. Í samanburði við fyrri ár var ekki mikið um meiri háttar tímamótaúr á sýningunni í þetta skiptið, en þó mátti finna nokkur áhugaverð og eiguleg ný stykki sem óhætt er að benda lesendum á. Upptalninguna hér að neðan þarf vitaskuld að lesa með þeim fyrirvara að smekkur fólks og áherslur eru misjöfn þegar kemur að úrum:
Jarðtenging hjá Rolex
Það nýja úr sem hlaut langmest umtal þetta árið er Rolex Land-Dweller, en um er að ræða sk. „integrated bracelet“-úr, þ.e.a.s. úrið sjálft og keðjan eru þannig hönnuð að þau mynda eina samfellda heild. Í fljótu bragði sýnist mér að Rolex hafi (strangt til tekið) ekki markaðssett þess háttar úr síðan seint á 9. áratugnum, en úr af þessari sort hafa farið með himinskautum undanfarin ár og er t.d. slegist um Nautilus frá Patek Philippe og Royal Oak frá Audemars Piguet.
Ég fékk ekki að máta úrið en gat virt það vandlega fyrir mér og er ekki alveg sannfærður. Það er aðeins of mikið í gangi á skífunni, fyrir minn smekk, og úrið virðist vera eitt af þessum sem taka sig betur út á mynd. Þyrfti ég að velja þykir mér rósagullsútgáfan fallegust, en hefði Rolex haft mig með í ráðum hefði ég bent þeim á að endurvekja frekar gott King Midas-módel frá 8. áratugnum, rétt eins og Vacheron Constantin endurvakti á dögunum 222-úrið við mikla hrifningu safnara.
Land-Dweller snýst vitaskuld ekki bara um útlitið og er gangverkið útpælt tækniundur, og sést það m.a. á því að 18 ný einkaleyfi voru gefin út fyrir hönnun þessa tiltekna úrs. Auðvitað mun Land-Dweller rokseljast en ég spái því líka að Tissot muni njóta góðs af vinsældum úrsins enda hefur verið bent á að PRX-línan þeirra sé nauðalík nýjasta sköpunarverki Rolex en auðvitað langtum ódýrari.
Þýskur heimshornaflakkari
Þýski framleiðandinn Nomos Glashütte var með lítinn bás á sýningunni og frumsýndi afskaplega snotur tímabeltaúr, Club Sport Neomatik Worldtimer. Þetta er úr sem fólk á ferðinni ætti að gefa gaum en hönnunin er í senn látlaus, sígild og falleg, og yst á skífunni er tímabeltahringur sem færist til um eitt þrep þegar ýtt er á takka. Boðið verður upp á tvær grunnútgáfur, með gráa skífu og dökkbláa, og þar að auki sex sérútgáfur með öðrum skífulitum sem munu fást í mjög takmörkuðu upplagi.
Art deco eldist vel
Cartier lætur naumhyggjuna ráða för í ár með úrinu Tank à Guichet. Í stað hefðbundinnar skífu eru tvö lítil göt á úrinu og birtast þar tölur til að sýna klukkustund og mínútu, en „guichet“ er einmitt franska fyrir „gluggi“. Svona gluggaúr eiga sér langa sögu hjá Cartier en fyrsta Tank à Guichet-úrið kom á markað árið 1928 og þótti að vonum framúrstefnulegt á sínum tíma og hönnunin góður fulltrúi art deco-stefnunnar. Tank à Guichet-úrið hefur verið endurvakið og endurskapað nokkrum sinnum síðan þá, síðast árið 2005. Verðið liggur ekki fyrir en hönnunin er stílhrein og nær að vera í senn spes og sparileg.
Leikur að litum
Það var upp typpið á þeim hjá Tag Heuer á sýningunni í ár því fyrirtækið tók nýlega við af Rolex sem tímavörður Formúlu 1-kappakstursins. Til að fagna þessum kaflaskilum hefur Tag Heuer endurvakið Formula 1-úrið sem fyrst kom á markað árið 1986. Þetta eru litrík og tiltölulega ódýr kvartsúr, með sólarsellu á bak við skífuna. Þessi úr eru svolítið plastleg á hendi en mig grunar að þau muni seljast vel og þykja sniðug hversdagsúr fyrir fólk sem kann að meta léttleika og liti.
15 mm þykkur flækjukóngur
Vacheron Constantin mætti með glaðning handa gangverksnördunum, en Solaria Ultra Grand Complication ku vera með flóknara gangverk en nokkurt annað armbandsúr og hafa 13 einkaleyfisumsóknir verið lagðar inn út af þessu eina úri. Þetta sköpunarverk er enginn smávegis hlunkur, 45 mm á breidd og nærri 15 mm á þykktina, en er það samt afrek miðað við hversu flókið innvolsið er. Hér er aldeilis komið rétta verkfærið fyrir þá sem þurfa úr sem getur t.d. sýnt stöðu himintunglanna eða hvort úti sé flóð eða fjara.