
Viðtal
Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
„Ég hef stundum bent fólki á að þegar við kjósum konu í fyrsta skipti, eða gerum yfirhöfuð eitthvað í fyrsta skipti, er það undantekning frá reglunni. En þegar við gerum það í annað skiptið erum við kannski að gera það að nýju viðmiði eða nýju normi.“
Þetta segir Halla Tómasdóttir, sjöundi forseti lýðveldisins, í viðtali á hinu fornfræga Grand hóteli í hjarta Óslóar, við Karls Jóhannsgötu, við upphaf heimsóknar þeirra Björns Skúlasonar eiginmanns hennar til Noregs, svokallaðrar ríkisheimsóknar, sem er æðsta form diplómatískra samskipta milli ríkja.
Markmið heimsóknarinnar er að styrkja enn frekar söguleg tengsl Íslands og Noregs og vinna að sameiginlegum hagsmunum þjóðanna, meðal annars á sviði varnarmála, menningar og bættrar geðheilsu.
Öryggisgæsla lögreglu við hótelið þar sem skáldið Henrik Ibsen snæddi hádegisverð daglega var gríðarleg og í tvöfaldri röð framan við bygginguna virðulegu frá 1874 skiptust þar á merktar lögreglubifreiðar og glæsibifreiðar sem teflt er fram við heimsóknir þjóðhöfðingja og eru ýmist í eigu lögregluembættisins eða leigðar er tilefni býður.
Sami stóll – annar forseti
Þá skorti ekkert á norska hefða- og reglufestu á hótelinu, sömu þrír lífverðirnir frá öryggislögreglunni PST heilsuðu blaðamanni og fylgdu Guðna Th. Jóhannessyni þáverandi forseta í október 2023, vísað var til viðtalsaðstöðu á bókasafni hótelsins, sem inniheldur raunar aðeins örfáar skræður, og til að setja punktinn yfir þetta norska i benti blaðamaður nýja forsetanum á sama stól og sá síðasti vermdi á bókasafninu.
Viðtalið hefst með Vigdísi Finnbogadóttur, forseta Íslands til sextán ára, sem Halla vísar til í upphafsorðum sínum. Og forsetinn heldur áfram: „Þannig að þetta skiptir fólk máli, ekki síst finnst mér þetta skipta unga fólkið máli, ég finn mjög sterk viðbrögð, bæði frá stúlkum og strákum, við því að ég sé kona og það sé nokkuð sem við höfum sem þjóð lengi verið stolt af, að hafa verið fyrst til þess að hafa kvenforseta,“ segir Halla og er spurð hvort hún hugsi til þess að þjóðin beri þær Vigdísi saman sem kvenforsetana tvo.
„Ég held ekki, ekkert frekar en að Guðni væri endilega borinn saman við Ólaf Ragnar per se. Við höfum verið með sjö forseta á Íslandi og hver og einn hefur verið mjög ólíkur. Ef þú hugsar um það setti hver þeirra alveg sitt mark á þetta embætti og var bara hann eða hún sjálf. Þannig að ég ætla ekkert að reyna að vera Vigdís, ég ber svo mikla virðingu fyrir Vigdísi, hún á bara sín sextán ár og var sá forseti sem ég horfði mest til og gaf mér mest,“ segir Halla og rödd hennar þyngir áhersluna á hvert atkvæði auðheyrilega við samtal um Vigdísi Finnbogadóttur.
Fæst mikið við stjórnmál
Forsetinn kveðst hafa dregið sinn lærdóm af hverjum og einum forvera sinna, allt aftur til Sveins Björnssonar. „En ég ætla bara að vera Halla,“ lýsir hún yfir í kjölfarið, „ég held að enginn geti stigið inn í svona embætti og reynt að vera einhver annar, ég held að eina færa leiðin sé að finna sinn takt og nýta sína styrkleika og lyfta um leið þeim sem á undan fóru og því sem þeir hafa gert. Við erum öll að skrifa söguna en hver og einn verður að fá að skrifa sinn kafla,“ segir Halla.
Þú átt þér ekki bakgrunn í stjórnmálum. Hvernig horfir sú jafna við þér á Íslandi, eiga forsetar að koma úr stjórnmálum eða úr öðrum kimum þjóðfélagsins og vera þekktir fyrir annað en stjórnmál?
„Ég held að það sé heppilegra að forsetinn – ég sagði þetta í framboðinu og ég segi það enn – komi ekki beint úr stjórnmálum, alla vega ekki beint úr þeim. Ástæðan í mínum huga er að þú þarft að fást svo mikið við stjórnmálin,“ svarar Halla umhugsunarlaust, „ég er búin að halda fimm ríkisráðsfundi, ég þurfti að leysa ríkisstjórn frá störfum þegar ég var búin að vera rúma tvo mánuði í embætti. Ég hugsa að það sé afskaplega erfitt að leysa þessi verkefni með þeirri yfirvegun og hlutleysi sem ég held að forsetinn þurfi að hafa ef þú hefur sjálfur verið í baráttunni í einhverjum ákveðnum hluta af því sviði. Ég held að það sé betra að forsetinn standi þar fyrir utan. Ég held að þjóðinni finnist það gott, ég finn jákvæðar undirtektir gagnvart því að forseti sé ekki að spila inni á pólitíska sviðinu,“ gerir hún vafningalaust upp spurninguna um vígvöll stjórnmálanna gagnvart íslenska forsetaembættinu.
Spurð út í hvort hún sjái fyrir sér að láta reyna á þau mörk forsetaembættisins sem talin hafa verið óljós, svo sem miðað við orðalag stjórnarskrár, svarar Halla því til að hún sé í eðli sínu brúarsmiður og meiri sáttasemjari en manneskja sem reyni að búa til deilur. „Þannig að það væri ekki einföld ákvörðun fyrir mig að fara að taka fram fyrir hendurnar á þingræðinu í landinu. En ég held að Ólafur Ragnar hafi sett fordæmi sem verður ekki tekið til baka,“ segir Halla og bætir við: „En komi upp sú staða að þjóðinni finnist þingið vera að ganga fram úr takti við hana í risastóru máli sem varðar framtíðarhagsmuni næstu kynslóða, þá myndi ég íhuga það. Þarna er búið að setja fordæmi sem er erfitt að taka til baka,“ heldur hún áfram.
Ofbeldi nýr veruleiki?
„Ég er virkilega að reyna að vera forseti sem hvetur til samstarfs og samtals, sérstaklega samtals, milli oft ólíkra sjónarmiða og það hefur mér fundist kannski stundum vanta dálítið, til dæmis er alveg ljóst að síðustu ár höfum við verið að sjá mjög erfið teikn á lofti hvað varðar andlega heilsu þjóðarinnar og bara mjög slæma þróun,“ segir forsetinn enn fremur. Þar hafi margir verið að vinna gott starf en margs konar átök innan kerfisins kveiki spurningar um hverjir Íslendingar hyggist vera sem þjóð.
„Ætlum við að leyfa þessari þróun að halda áfram og að ofbeldi verði kannski að einhverju leyti bara nýr veruleiki fyrir okkur Íslendinga? Því það hefur ekki verið okkar veruleiki. Eða ætlum við að grípa inn í með einhverjum hætti? Til dæmis í þessum málaflokki hef ég bæði getað boðað þingmenn úr ólíkum áttum, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, saman, fólk sem vinnur á mismunandi stöðum í kerfinu, fólk á ólíkum aldri, og ég held að forseti geti stigið inn í og hjálpað til við samtalið í samfélaginu. Ég hef mikinn áhuga á því og hef verið að gera það,“ segir Halla Tómasdóttir.
Kveðst hún svo dæmi séu nefnd halda mun færri ræður en fyrirrennarar hennar í starfi, en á móti komi mun fleiri samtöl. „Þannig að þegar hópar koma á Bessastaði hef ég reynt að stilla hópastarfinu í hóf þannig að það sé hægt að setjast niður og eiga samstarf um stórmál sem eiga sér stað, allt frá stöðu skapandi greina yfir í andlega heilsu þjóðarinnar og þaðan yfir í – eins og núna – ástandið í heiminum, sem er mjög flókið,“ segir Halla og nefnir að þar hafi hún lagt sig í framkróka við að draga saman fólk sem hefur reynslu úr utanríkisþjónustu, úr atvinnulífinu og þeim málaflokkum sem nú séu að gjörbreytast, hvort sem þar fari alþjóðaviðskipti, mannúðarmál, frelsismál eða þróun fjölmiðla.
Þjóðin þokkalega sammála
„Það er svo margt að gerast og ég vil vera slíkur forseti, sem setur mál á dagskrá í gegnum samtal frekar en að vera stöðugt að leita leiða til að láta reyna á stjórnarskrána. En ég mun ekki óttast það ef þingið er komið úr takti við þjóðina, þá mun ég ekki óttast að láta reyna á málskotsréttinn og þær heimildir í stjórnarskránni sem eru vissulega til staðar. Ég leita ekki eftir ágreiningi, ég leita frekar eftir að fólk komi að þessum öfgapólum sem stjórna allri umræðu í dag og ég vil meina að í sjötíu til níutíu prósentum tilfella séum við Íslendingar þokkalega sammála um hlutina ef við bara lyftum okkur upp úr skotgröfum og tökum samtalið,“ segir Halla Tómasdóttir, sjöundi forseti lýðveldisins Íslands og önnur konan sem gegnir því embætti á lýðveldistíma, úr hefðbundnum viðtalsstól íslenskra forseta á bókasafni Grand hótels við Karls Jóhannsgötu í Ósló.