Ingileif Þórey Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 28. desember 1934. Hún lést á Skjóli 29. mars 2025.
Foreldrar hennar voru Jón Jónsson, f. 5.2. 1890, d. 16.6. 1965, frá Miðkrika og María Þórðardóttir, f. 22.8. 1892, d. 12.12. 1949, frá Lambalæk í Fljótshlíð. Ingileif var einbirni og ólst upp hjá Gunnari Sigurjónssyni og Arnbjörgu Baldursdóttur.
Ingileif giftist 13.10. 1956 Hilmari Sigurvin Vigfússyni, f. 14.12. 1936. Börn þeirra eru: 1) Guðbjörn Jón, f. 31.7. 1957. 2) María, f. 28.10. 1958, maki Hafsteinn Egilsson, sonur þeirra er Hilmar Örn. 3) Vigfús, f. 25.7. 1961. 4) Gunnar Arnar, f. 29.6. 1968, maki Berglind Rafnsdóttir, dætur þeirra Sara Dögg og Þórey María. 5) Þuríður, f. 13.5. 1970, maki Arnar Kjærnested, börn þeirra Alexandra, Sturla Snær, Embla Sól og Baltasar.
Ingileif var mikil fjölskyldukona og unni mjög börnum, barnabörnum og barnabarnabarni.
Ingileif átti farsælan starfsferil í Hvassaleitisskóla um áratugaskeið þar sem hún vann ýmis störf innan skólans.
Útförin fer fram frá Grensáskirkju í dag, 9. apríl 2025, klukkan 13.
Elsku mamma!
Mikið er erfitt að setjast niður og þurfa að kveðja þig.
Ég veit að afi Jón og María amma og einnig Gunnar afi og Bogga amma hafa tekið vel á móti þér.
Margar minningar koma upp. Ég veit að ég var orkumikill og stríðinn sem krakki, en þú kunnir ráð við því. Oft á tíðum fórstu með mig að golftjörninni (þar sem Kringlan er núna) til að losa um orkuna í mér, þar fékk ég útrás og gat leikið mér á flekum og iðulega kom ég rennblautur heim eftir þessar ferðir okkar. Þannig fékkst þú smá frið fyrir óþekktinni í mér. Mikið þurfti til að mamma fengi nóg en það kom þó fyrir að hún segði við mig: Jæja Gunnar Arnar, nú tala ég við pabba þinn þegar hann kemur heim úr smiðjunni, en sjaldnast lét hún verða af því.
Þar sem mamma var að vinna í skólanum mínum var hún oft á tíðum kölluð á fund hjá skólastjóra vegna mín. Aldrei lét hún mig kenna á því þótt ég ætti alla sök að máli. Í seinni tíð tjáði mamma mér að það sem hún hefði kunnað að meta var að ég sagði iðulega rétt og satt frá við skólastjórann og var aldrei að koma mér undan hlutum, það kunni hún að meta.
Mínar bestu og skemmtilegustu minningar tengjast Hrísnesi. Ferðirnar þangað koma oft upp í hugann þegar ég hugsa til baka. Í sveitinni okkar fékk ég útrás, þar gat ég leikið lausum hala, en aldrei var langt í púkann í mér. Stríddi mömmu til dæmis með því að loka hana inni á kamri og henda mús inn í bústað til hennar, en aldrei skipti hún skapi þrátt fyrir fyrirferðina í mér.
Minningin um sunnudagshádegin úr Hvassaleiti ylja enn, ilmur af lambalæri eða lambahrygg fyllti húsið, ekkert var betra en að vakna við það.
Þegar leiðir okkar Beggu lágu saman þá minnist ég þess þegar mamma hitti hana í fyrsta skiptið. Mamma kom inn í herbergið mitt með þvottinn minn samanbrotinn eins og venja er, og þar sem við vorum enn í rúminu, þá heilsaði mamma Beggu bara eins og ekkert væri eðlilegra. Beggu var virkilega brugðið við þessi kynni af mömmu, alla tíð síðan höfum við hlegið að þessari uppákomu.
Elsku mamma, ég mun ætíð minnast þín sem bestu mömmu sem hægt er að hugsa sér. Þú máttir aldrei neitt aumt sjá, umhyggja þín og kærleikur skein í gegn.
Þú verður ávallt í huga mér, elsku mamma!
Þinn sonur,
Gunnar.
Elsku besta fallega mamma mín er farin frá okkur og eftir sitjum við með söknuð. Við hefðum ekki getað átt betri mömmu. Þú varst einstök mamma, amma og langamma. Það rifjast upp ýmsar minningar þegar ég hugsa til baka, hvað þú varst góðhjörtuð og yndisleg við allt og alla. Það þótti öllum vænt um þig sem kynntust þér, þú varst með svo fallegt og gott hjarta og góð við alla í kringum þig. Þú varst mikill húmoristi og ekkert skemmtilegra en að grínast og hlæja með þér.
Þegar ég hugsa til baka og minnist allra ferðanna vestur í Hrísnesið okkar þar sem þú dekraðir við okkur og vildir ekki að við vöskuðum upp af því að við vorum börn og áttum að leika okkur. Gunnar bróðir var pínu óþekkur krakki en þú sást alltaf björtu hliðina á að hann væri svo skemmtilegur krakki sem hann var.
Þú hallmæltir aldrei neinum. Þú varst þekkt í hverfinu fyrir bestu kökurnar þegar það voru barnaafmæli hjá okkur. Krakkarnir í Hvassó elskuðu þig þegar þú varst að vinna þar og söfnuðu fyrir pels og gáfu þér í jólagjöf.
Allar ferðirnar til ykkar pabba í bústaðinn í Grímsnesinu og ferðin okkar til Köben með Adda og Emblu Sól eins árs og við erum svo þakklát fyrir þessa ferð með þér.
Og þú elskaðir roastbeef-smurbrauð og það voru margar ferðir farnar með barnabörnin sem lærðu að elska roastbeef-smurbrauð eins og amma.
Þú elskaðir rauða litinn og vildir alltaf fá föt í rauðu þegar ég verslaði á þig í útlöndum og það er liturinn sem þú ert í í dag þegar þú kveður okkur elsku fallega mamma.
Þú elskaðir fólkið þitt svo mikið og ég vona að þú hafir vitað hvað við elskum þig mikið. Seinustu mánuðina á Landakoti kvaddirðu mig alltaf með þeim orðum að þú þakkaðir mér fyrir allt sem ég hefði gert fyrir þig og ég vona að ég hafi komið til skila til þín hvað ég elska þig mikið og þú værir besta mamma og amma í heimi eins og Bjössi bróðir orðaði það, heimsins besta mamman. Mér þykir svo vænt um að hafa fengið að sitja hjá þér seinasta sumar og njóta þess að vera saman.
Ég er þakklát fyrir seinustu vikurnar sem við pabbi áttum með þér á Skjóli. Við reyndum okkar besta að hugsa eins vel um þig og við gátum og þegar ég kom sagðir þú „ertu komin að passa mig“. Pabbi svo blíður og góður við þig og horfa upp á ykkar samband sem var svo fallegt og hann hugsaði svo vel um þig í veikindunum og nú pössum við pabba fyrir þig.
Barnabörnin elskuðu að hlusta á sögur síðan í gamla daga og síðan seinna, þegar þau voru fullorðin, að heyra sögur af þeim þegar þú varst að passa þau þegar þau voru lítil. Þú hugsaðir alltaf fyrst um okkur. Ég er svo þakklát að þú fékkst að hitta litla Leó Evan. Þér þótti svo vænt um hann og talaðir svo oft um hann við mig, hvað hann væri sætur og góður.
Ég elska þig svo mikið og sakna þín en ég veit að þú vakir yfir okkur og passar okkur. Þú munt alltaf skipa stóran sess í hjörtum okkar og vonandi hittumst við aftur í fyllingu tímans. Ég veit að Bogga, Gunnar og María amma taka vel á móti þér.
Elsku fallega mamma mín, takk fyrir allt, ég elska þig.
Þín
Þuríður (Þurý).
Elsku Inga mín! Mikið er erfitt að sjá á eftir þér.
Kynni okkar hófust þegar leiðir okkar Gunna lágu saman, fyrir næstum 35 árum. Fyrstu árin okkar Gunna bjuggum við hjá ykkur Hilmari, það voru þvílík forréttindi að fá að vera í kringum ykkur og kynnast ykkur.
Fullt af minningum kemur upp þegar ég rifja upp það sem á daga okkar hefur drifið seinustu áratugi. Allar heimsóknirnar í Hvassaleiti, alltaf boð um jólin og þá sérstaklega á annan í jólum, grillmatur í bústaðnum fyrir austan og síðast en ekki síst ferðirnar vestur í paradísina okkar í Hrísnesi þar sem við fórum fjölskyldan og eyddum mörgum stundum saman. Mér finnst eins og ég hafi verið bænheyrð að eignast svona frábæra tengdaforeldra, það er alls ekki sjálfsagt. Þau hafa alltaf sýnt mér hlýju og væntumþykju og alltaf reynst mér einstaklega vel.
Þegar ég hugsa til þín þá er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast svona einstakri manneskju. Inga, eða eins og við vorum vön að kalla hana, Ossinn, var einstaklega hjartahlý og góð kona. Hún mátti aldrei neitt aumt sjá, þá var hún komin og lagði sitt af mörkum til að geta hjálpað ef hún hafði einhver tök á því.
Ossinn var mikill sælkeri, elskaði allan mat. Fannst hreinlega allt gott, var alltaf svo þakklát fyrir þegar einhver gerði eitthvað fyrir hana, þrátt fyrir að hún gerði alltaf allt fyrir alla í kringum sig. Það var alveg sérstaklega gaman að geta gert eitthvað fyrir hana, hún kunni svo einstaklega vel að meta það.
Aldrei man ég eftir að tengdamamma hallmælti nokkrum manni, hún sá alltaf það besta í fólki.
Ég veit að Gunnar afi hefur tekið vel á móti þér og hugsar vel um þig.
Takk fyrir allar fallegu minningarnar.
Við skulum hugsa vel um Hilmar þinn, þar sem hann syrgir stelpuna sína hana Ingu.
Minning um einstaka konu lifir með okkur.
Kær kveðja, þín tengdadóttir,
Berglind.
Kæra Inga, frá því að ég hitti þig fyrst þá umvafðir þú mig hlýju. Fyrstu árin okkar Þurýjar saman var notalegt að koma til ykkar í Hvassaleitið í sunnudagsmat, lambahrygg með öllu tilheyrandi, og ég hlakkaði alltaf til þessara heimsókna. Seinna snérist þetta við og þú komst stundum til okkar í lambahrygg og hældir mér mikið, þótt við vissum bæði að þinn væri mun betri. Mig langar bara að þakka þér fyrir allt, en þú sagðir alltaf við mig þegar við hittumst, Addi minn, þú ert svo góður, þú lést okkur öllum líða svo vel og það er ekki öllum gefið. Inga mín, ég mun sakna þín og húmorsins sem þú bjóst yfir, meira að segja þegar þú varst orðin mjög lasin heyrðist lágur hlátur frá þér þegar þér fannst eitthvað sniðugt. Ég er líka þakklátur fyrir að hafa átt þig að í þessi rúmlega 30 ár því þú varst yndisleg manneskja sem mér þótti mikið vænt um. Hvíldu í friði, kæra Inga.
Kveðja,
Arnar Þór (Addi).
Elsku amma.
Það er skrítið og sárt að hugsa til þess að þú sért farin frá okkur, en minningarnar um þig lifa hjá okkur og munu ávallt hlýja okkur.
Við munum svo vel þegar við vorum í pössun hjá ykkur í Hvassaleitinu. Þar var alltaf tekið vel á móti okkur systrum og okkur leið svo vel hjá ömmu og afa. Við eigum ótal minningar um hlýja faðmlagið þitt, hláturinn og kærleikann sem þú sýndir okkur. Það var fátt sem jafnaðist á við að gista hjá ykkur í Hvassaleitinu, þá var oft keypt nammi, og síðan leigðum við tvær spólur; eina Charlie Chaplin-mynd sem við horfðum á með þér og eina teiknimynd sem við völdum sjálfar. Ef vondu kallarnir í teiknimyndunum birtust var alltaf best að koma í ömmufang, hún passaði alltaf svo vel upp á mann.
Morguninn eftir var farið á KFC, eða „Kjúklingakallinn“ eins og þú kallaðir það. Það eru allar þessar minningar sem fylla æsku okkar af gleði.
Þegar við urðum eldri var alltaf gott að koma í heimsókn, setjast við hliðina á þér og spjalla um allt og ekkert. Þú varst svo jákvæð, umhyggjusöm og forvitin, alltaf áhugasöm um líf okkar og sérstaklega þótti þér gaman að heyra stefnumótasögurnar okkar. Oft sagðir þú okkur sögur frá því þegar þú varst ung, með síða ljósa hárið, og um öll ferðalögin sem þið afi fóruð í saman.
Ég tel það mikinn heiður að hafa verið skírð í höfuðið á þér, elsku amma. Ég ber nafnið Þórey með stolti, rétt eins og þú gerðir, og það gleður mig að deila viðurnefninu „Litli Oss“ og „Stóri Oss“ með þér.
Þú varst einstök kona, sterk, hlý og elskuð af öllum sem kynntust þér. Enda varstu ótrúlega góðhjörtuð og vildir öllum það besta. Við höfum heyrt svo ótrúlega fallegar sögur af því. Minningin um þig mun lifa áfram hjá okkur, og við munum ávallt hugsa til þín með hlýju og þakklæti. Ert og verður alltaf fyrirmynd okkar. Við munum sakna þín.
Elskum þig.
Litlu ossarnir þínir,
Sara og Þórey.
Kæra amma.
Það er erfitt að setja í orð hversu dýrmæt þú ert mér. Þú varst fallegasta og besta manneskja sem ég veit um, alltaf hlý, alltaf hlæjandi, alltaf passandi upp á að mér liði vel.
Mér hefur alltaf þótt vænt um söguna sem þú sagðir mér aftur og aftur þegar ég var lítil. Þegar þú passaðir mig, gafst mér hafragraut og settir mig í vagninn, gekkst eina ferð upp götuna þar til ég sofnaði og þá svaf ég þar til mamma kom að sækja mig. Það var eitthvað svo hlýtt í því hvernig þú sagðir þessa sögu, með bros á vör, eins og þú værir að rifja upp ljúfar og kærar minningar.
Helgarnar sem ég eyddi hjá þér skipta mig öllu máli. Að sitja hjá þér og horfa á Chaplin, hlæja saman og njóta samverunnar. Seinna meir sagðir þú mér frá gömlu dögunum, frá því þegar þú dansaðir „twist again“ og vangadans og ég sé það fyrir mér, hvernig þú varst alltaf full af lífi og full af gleði.
Ég sakna þín óendanlega, en ég er líka svo þakklát fyrir tímann sem ég fékk með þér. Þú kenndir mér að njóta augnablikanna, hlæja oft og elska heitt. Þótt ég sé ekki hér í dag til að kveðja þig í eigin persónu, þá er hjarta mitt hjá þér.
Takk fyrir allt, elsku amma. Ég elska þig.
Þín
Embla Sól.
Elsku amma, takk fyrir allar æðislegu stundirnar sem við áttum saman, ég mun aldrei gleyma öllu spjallinu sem við áttum saman, um dag eða nótt, fátt skemmtilegra en að slúðra við Ossann. Þú varst alveg mögnuð, þú gast sagt manni slúðursögur sem gerðust fyrir 60 árum og gleymdir ekki einu einasta smáatriði og alltaf með húmorinn í lagi. Svo hlý og góð, maður var alltaf upp á sitt besta hjá þér því þú varst best. Gerðir allt fyrir okkur krakkana og maður mun aldrei gleyma því.
Ég mun sakna þín svo mikið og geymi minningu þína í hjarta mínu, fallega amma mín.
Þinn
Sturla.
Elsku amma Inga.
Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa til þín. Ég er þakklát fyrir þig og allt sem þú kenndir mér. Ég er þakklát fyrir tímann sem við áttum saman þó ég vildi óska þess að hann hefði verið aðeins lengri. Þú varst einstaklega umhyggjusöm og góð. Þú varst mikill húmoristi og mun ég sakna hláturs þíns. Ég naut þess að hlusta á skemmtilegu sögurnar þínar frá yngri árum. Við áttum það sameiginlegt að elska smurbrauð með roast beef og bleikt vínarbrauð og mun það ávallt minna mig á tímana okkar saman.
Við systkinin vorum öll svo heppin að hafa notið æskuáranna í heimsóknum og næturgistingum í litla herberginu í Hvassaleitinu. Það var alltaf svo yndislegt að koma til ykkar afa í Hvassaleitið þar sem andrúmsloftið var ávallt hlýtt og gott. Þið hugsuðuð svo vel um okkur. Hvassaleitið verður tómlegt án þín.
Það verður erfitt að kveðja þig í síðasta sinn í Grensáskirkju þar sem þú hélst mér undir skírn. Takk fyrir allar samverustundirnar, takk fyrir allt elsku amma. Elska þig, alltaf.
Þín
Alexandra.
Amma mín var góðhjörtuð og hlý kona sem hafði alltaf tíma til að hjálpa öðrum og gleðja þá. Ég er svo þakklátur fyrir þær dýrmætu stundir sem við áttum saman. Þegar ég lít til baka eru það minningarnar okkar sem ég mun alltaf bera með mér.
Ein af þessum skemmtilegu minningum var þegar við horfðum á gamlar myndir með Charlie Chaplin saman. Ég mun alltaf muna eftir heimsóknum mínum og hversu skemmtilegt það var að spjalla við ömmu um daginn og veginn, gamla tíma, og allt það sem hafði gert lífið svo merkilegt.
Ástar- og saknaðarkveðja,
Baltasar (Balti).
Það sem mér þótti hvað skemmtilegast að gera um helgar þegar ég var að alast upp var að fara í pössun til ömmu og afa. Það var meira að segja oft þannig að þegar afi var að skutla mér heim eftir pössun og ég fór að kannast við hvaða leið hann fór grátbað ég hann um að snúa við. Þau voru alltaf til í að gera allt með mér og átti elsku amma svo erfitt með að segja nei við barnabarnið sitt. Soðnar kjötbollur með labba (kartöflur úr garðinum hans afa) voru uppáhaldið mitt og fékk ég yfirleitt mínu framgengt þegar verið var að undirbúa kvöldmatinn. Amma og afi áttu líka sumarbústað stutt frá bænum og eyddum við mörgum helgum þar, stundum bara við þrjú en oft með fleirum úr fjölskyldunni.
Mér er það mjög minnisstætt þegar amma fór með mér í fótbolta. Þannig var það að afi var mjög duglegur að fara með mér í alls kyns íþróttir, labba út á grasvöll og sparka bolta eða kasta körfubolta við bústaðinn, afi setti upp körfu fyrir mig. Eitt hádegið var afi eins og svo oft áður að dytta að bústaðnum, hann var uppi á þaki að mála ef ég man rétt og ég var með ömmu inni í bústað að spila spil sem við gerðum oft í rólegheitum. Eftir spilið fór mig að langa að fara í fótbolta en afi var ekki laus í það sem stóð og náði ég því að plata ömmu, í fyrsta og eina skiptið sem hún hreinlega sparkaði í bolta á ævinni, til að fara í vító úti á palli. Það var augljóst að þetta var ekki fyrir hana en þannig var amma, hún gerði allt fyrir alla og setti aðra ávallt í fyrsta sæti.
Elsku amma ég mun geyma minningarnar með þér um ókomna tíð og ég þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig, betri ömmu er ekki hægt að óska sér.
Þitt barnabarn,
Hilmar Örn Hafsteinsson.
Elsku Inga okkar, nú er komið að leiðarlokum eftir meira en hálfrar aldar samferð í gegnum lífið.
Þið mamma voruð ekki bara bestu vinkonur, saumaklúbbsfélagar og nágrannar í meira en 60 ár heldur voruð þið einnig frænkur, þ.e. afi mömmu og langafi minn var bróðir mömmu þinnar sem lést þegar þú varst barn að aldri.
Þið mamma vissuð hvor af annarri í Fljótshlíðinni í gamla daga en kynntust fyrst að ráði er til Reykjavíkur var komið enda fórstu sem barn til frábærra fósturforeldra í Reykjavík eftir andlát móður þinnar. Að missa móður sína svona ung var þér mjög þungbært og hefur örugglega sett mark á líf þitt eftir það en betri fósturforeldra var örugglega ekki hægt að hugsa sér en þau Boggu og Gunnar á Hverfisgötunni sem ég náði einnig að kynnast nokkuð vel í æsku og á dýrmætar æskuminningar um.
Ég sé sýn núna; þig sitja alheilbrigða til borðs á glæsilegu fyrirmyndar íslensku alþýðuheimili á Hverfisgötunni með móður þinni Maríu og Boggu og Gunnari eftir langa fjarveru.
Þaðan fékkstu örugglega frábært veganesti út í lífið og á ég sjálfur yndisleg barnæskuminningabrot af þessu heimili þegar ég og sonur þinn, vinur minn og frændi Gunnar Arnar, komum þangað ófá skipti eftir Vísisbíó í Hafnarbíói.
Slíka virðingu báru þau fyrir okkur litlum guttum sem ég gleymi aldrei, að alltaf var lagt svo fallega á borð fyrir okkur með fínu stelli eins og um tigna fullorðna gesti væri að ræða.
Þú kynntist Hilmari og síðar byggðuð þið saman ykkar raðhús árið 1961 í nýju hverfi sem þá var í félagi við foreldra mína og fleira fólk í sömu raðhúsalengjunni og heitir í dag Hvassaleiti.
Þið Hilmar og börnin ykkar fimm, foreldrar mínir, ég og systur mínar tvær (og 1978 bættist amma mín við og nafna þín Ingileif en þið voruð systkinabörn) voru síðan bestu nágrannar og vinir sem hugsast getur í næsta húsi næstu áratugina sem varir enn fram á þennan dag.
Ég gæti skrifað fullt, Morgunblað svo mikið gæti ég sagt um öll þau góðu samskipti og minningar okkar á milli alla þessa áratugi (fyrsta utanlandsferðin o.s.frv.).
Það væri hvergi stríð í heiminum ef allir væru eins og þú Inga mín og ekki þyrfti lögreglu heldur, svo mikil gæðamanneskja varstu, ljúf, góð, bráðskemmtileg og fyndin.
Allir nutu sömu virðingar af þinni hálfu og voru jafningjar sem komu á þitt heimili, ekkert manngreinarálit, sama hvort það var þáverandi biskup Íslands sem stundum kom eða okkar minnstu bræður, slík var manngæskan og ekki fóru heldur ferfætlingar á mis við það.
Þú áttir við erfið veikindi að stríða síðastliðin 20 ár sem reyndu mjög á þig og yndislegan bónda þinn hann Hilmar en alltaf tókstu öllu af miklu æðruleysi og jafnaðargeði og bjóst heima þennan tíma nema allra síðasta misserið en núna laus úr þeirri áþján.
Umönnun hans Hilmars bónda þíns var með þvílíkum ólíkindum og aðdáunarverð allan þennan tíma að ef einhver ætti að fá lífsins orðu fyrir slíkt þá væri það hann Hilmar Vigfússon vinur okkar og nágranni alla tíð.
Samúðarkveðjur,
Steinunn (Steina) og Sveinn (Svenni).
hinsta kveðja
Farðu í friði vina mín kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður okkur nær
aldrei skulum þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)
Guðbjörn Jón Hilmarsson,
María Hilmarsdóttir, Vigfús Hilmarsson.