Hanna Katrín Friðriksson
Hanna Katrín Friðriksson
Þessa dagana er ég í hringferð um landið með Bændasamtökum Íslands þar sem markmiðið er að ræða við bændur um áskoranir og tækifæri framtíðarinnar í landbúnaði á Íslandi. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um nokkur brýn forgangsverkefni á sviði landbúnaðar

Þessa dagana er ég í hringferð um landið með Bændasamtökum Íslands þar sem markmiðið er að ræða við bændur um áskoranir og tækifæri framtíðarinnar í landbúnaði á Íslandi.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um nokkur brýn forgangsverkefni á sviði landbúnaðar. Þau helstu eru að auðvelda nýliðun og kynslóðaskipti, breyta jarðalögum til að vinna gegn samþjöppun og stuðla að nýtingu á ræktarlandi til búrekstrar. Auk þessa munum við sérstaklega huga að stöðu ungra bænda. Það þarf að vera raunhæft og eftirsóknarvert fyrir ungt fólk að koma undir sig fótunum í búskap. Við þurfum líka að nýta tækniframfarir betur, efla rannsóknir og þróun og tryggja þannig að íslenskur landbúnaður verði í fremstu röð þegar kemur að umhverfisvænni og sjálfbærri framleiðslu.

Vandi bænda er margþættur. Kynslóðaskipti hafa reynst mörgum fjölskyldum erfið og hamla nýliðun. Raforkukostnaður hefur hækkað mikið og háir vextir lenda sérstaklega þungt á ungum bændum og þeim sem hafa nýverið fjárfest í rekstri sínum.

Nú þegar aðfangakeðjur eru undir meira álagi en þær hafa verið í áratugi þurfum við að gefa matvælaöryggi landsins gaum. Heimsfaraldurinn minnti okkur á mikilvægi öflugra viðskiptasambanda við að tryggja aðgang að nauðsynlegum lyfjum. Stríðið í Úkraínu hefur truflað útflutning á korni með tilheyrandi verðhækkunum víða um heim. Því miður er útlit fyrir að þessar áskoranir séu hluti af nýrri heimsmynd. Stjórnvöld vinna nú að því að efla viðnámsþol og nauðsynlegar birgðir af matvælum og aðföngum í samstarfi við atvinnulíf og hagaðila.

Innan atvinnuvegaráðuneytisins er nú hafin vinna við endurskoðun á stuðningskerfi landbúnaðarins en núgildandi búvörusamningar renna út í árslok 2026. Núverandi stuðningskerfi byggist á samningi frá 1985 og er að mörgu leyti orðið óskilvirkt. Í nýlegri könnun Maskínu kom enda fram að meirihluti bænda telur kerfið flókið og ekki þjóna hagsmunum sínum nægilega vel.

Þrátt fyrir margar áskoranir þá eru tækifærin ekki færri. Mörg bú hafa þegar ráðist í fjölmörg spennandi nýsköpunarverkefni, bæði í framleiðslu og umhverfisvernd, með góðum árangri. Því meira sem við tökum höndum saman og deilum reynslu og hugmyndum, því öflugri verður greinin í heild.

Eftir samtölin við bændur á fundum okkar hringinn í kringum landið er vissulega ljóst að áskoranirnar eru margar og það er ærið verkefni að finna leiðir til að mæta þeim. Það er líka ljóst af samtölunum að hugmyndirnar eru fjölmargar og fundirnir því mikilvægt fóður í það verkefni að smíða framtíðarstuðningskerfi í landbúnaði.

Höfundur er atvinnuvegaráðherra. hanna.katrin.fridriksson@atrn.is

Höf.: Hanna Katrín Friðriksson