Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Ríkisstjórnin virðist lítið mark hafa tekið á minnisblöðum stjórnarráðsins um breytingar á veiðigjöldum. Núverandi stjórnarflokkar létu sem kunnugt er vinna fyrir sig tugi minnisblaða á meðan á stjórnarmyndun stóð í desember, sem Morgunblaðið hefur aflað.
Í greiningu á „breyttri nálgun veiðigjalds“ er varað við því að líta til fiskmarkaðsverðs til stofns veiðigjalda á bolfiski, það sé einatt „jaðarverð“ sem „gæfi ekki rétta mynd af verðmyndun í heild til stofns veiðigjalds“.
Embættismennirnir gjalda einnig varhug við þeirri hugmynd stjórnarflokkanna að miða við verð uppsjávarafla á norskum uppboðsmarkaði, en í Noregi sé verð ákveðið í gegnum sölusamtök í eigu útgerðar, sem inniberi einnig „hvata sem skekkt geta verðmyndun“ og „í raun erfitt að fullyrða um að markaðsverð sé til staðar í löndunum“.
Ráðuneytið varar einnig oft og ítrekað við því að betri gögn, greiningar og nákvæma útreikninga vanti til þess að móta megi nýja stefnu af ábyrgð.
Af þeim spurningum sem fyrir ráðuneytið voru lagðar af hinum upprennandi stjórnarflokkum er augljóst að fyrir þeim vakir aðeins aukin tekjuöflun, en ekkert er spurt um áhrifin á sjávarútveginn eða sjávarbyggðir.
Ráðuneytismenn hamra á „að fram fari ítarlegt mat á áhrifum þeirra breytinga sem lagt er upp með og unnið að vandaðri útfærslu þeirra“. Þeir segja að slík greining ætti ekki að vera tímafrek, en ítreka vönduð vinnubrögð.
„Samráð um slíkar breytingar þyrfti að fara fram. Væri þar að minnsta kosti um að ræða birtingu í Samráðsgátt stjórnvalda í tilskilinn tíma.“
Flest af þessu virðast Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra hafa virt að vettugi við gerð frumvarpsins.
Forsætisráðherra afhenti Morgunblaðinu minnisblöðin um liðna helgi, en óskað var eftir þeim á meðan á stjórnarmyndun stóð. Afhendingu þeirra var hvað eftir annað frestað án skýringa, en þau voru loks afhent eftir að tafirnar voru kærðar til úrskurðarnefndar upplýsingamála. Stjórnarráðið vefengdi þó aldrei rétt blaðsins til þess að fá gögnin, en þau eru ljóslega fæst jafnfréttnæm nú og um liðin jól.