Þröstur V. Söring
Þröstur V. Söring
Markmiðið með því að innleiða tækni og gervigreind í umönnunarstörf er alltaf að færa starfsfólkið nær einstaklingnum.

Þröstur V. Söring

Öll viljum við fá að njóta alls þess góða sem lífið getur boðið upp á. Frelsi, sjálfstæði og góð félagsleg tengsl eru mikilvægir þættir í lífi okkar, sama á hvaða aldri við erum. Aldurshópurinn 65 ára og eldri fer nú hratt stækkandi.

Hópurinn er heilsubetri en áður og gerir meiri kröfur um heilsueflandi þjónustu og tækifæri til að njóta félagslegra tengsla. Rétt hannað húsnæði getur leikið lykilhlutverk í því að fólk geti búið í sjálfstæðri búsetu sem lengst og notið lífsins. Snjallar tæknilausnir skipta þar miklu máli og þær munu þróast hratt á komandi árum.

Snjöll heimili fyrir eldra fólk

Sjómannadagsráð hefur unnið að þróun heimila fyrir eldri aldurshópa í áratugi, bæði íbúðir fyrir sjálfstæða búsetu og hjúkrunarheimili, með þetta að leiðarljósi. Húsnæði fyrir 65 ára og eldri þarf að vera hannað með áherslu á öryggi, aðgengi og þægindi. Sameiginleg rými, eins og garðar og setustofur, skipta miklu máli til að styrkja félagslegu tengslin og það eitt og sér getur skipt sköpum fyrir góða andlega og líkamlega heilsu. Tæknin getur einnig aukið sjálfstæði eldra fólks verulega og dregið úr félagslegri einangrun. Þar kemur gervigreindin til sögunnar. Hún getur lært á óskir einstaklingsins og aukið öryggi með skilvirkum lausnum: Skynjarar sem greina fall eða frávik í hreyfingu gera viðbragðsaðilum viðvart, heimilistæki með einföldum stýringum og sjálfvirkum slökkvibúnaði og raddstýrð lýsing eru dæmi um tækni sem getur hjálpað í daglegu lífi.

Munu róbótar taka yfir?

Gervigreindin er mikið í umræðunni núna og ljóst að hröð þróun hennar mun gegna æ stærra hlutverki í lífi okkar á komandi árum, þar með talið í umönnunarstörfum. Róbótar og snjalltæki geta unnið ýmis afmörkuð störf sem létta á starfsfólki; t.d. séð um lyfjaskömmtun og skýrslugerð, þrifið húsnæði og séð um garðslátt. Gervigreindin getur einnig hjálpað til við að efla félagsleg tengsl með því að spjalla við þig, t.d. um það sem ættingjarnir eru að gera á samfélagsmiðlunum og boðið þér að smella læki á mynd af Siggu frænku á Tene. Gervigreindin getur minnt á læknistímann eða æft heilabúið með spurningaleikjum. En um leið og gervigreindin tekur að sér venjubundin einföld verkefni færum við starfsfólkið nær þjónustuþegum. Markmiðið með því að innleiða tækni og gervigreind í umönnunarstörf er því alltaf að færa starfsfólkið nær einstaklingnum. Það er og verður alltaf þörf fyrir fólk.

Öldrunarþjónusta á gervigreindaröld er yfirskrift ráðstefnu sem haldin verður í Norðurljósasal Hörpu fimmtudaginn 10. apríl. Á ráðstefnunni, sem er á vegum Sjómannadagsráðs, Hrafnistu og DAS íbúða, verður fjallað um þróun og uppbyggingu á húsnæði og þjónustu fyrir aldraða og hvernig tækni og gervigreind spila þar stórt hlutverk.

Þróun á húsnæði og þjónustu hjá Sjómannadagsráði og Hrafnistu, gervigreind og róbótar í umönnunarstörfum er meðal þess sem verður kynnt á ráðstefnunni í Hörpu. Ráðstefnan er öllum opin.

Höfundur er framkvæmdastjóri eignasviðs Sjómannadagsráðs.

Höf.: Þröstur V. Söring