Óttar Guðjónsson hagfræðingur segir vaxandi skilning meðal fjárfesta á því að tilboð ríkisins til eigenda svokallaðara HFF-bréfa sé ósanngjarnt.
Varðar þetta uppgjör Íbúðalánasjóðs en fundur verður meðal eigenda og ríkisins á morgun, 10. apríl.
Óttar greinir frá því að í kjölfar ákvörðunar Gildis lífeyrissjóðs um að hafna tilboðinu í síðustu viku hafi fleiri fjárfestar hugsað sinn gang.
Að sögn Óttars ríkir víðtæk undrun á því að smærri fjárfestar fái ekki sömu kjör og stærri, sem hann segir stríða gegn bæði réttlætiskennd almennings og lögum um nauðasamninga. Þá gagnrýnir hann að fjárfestum sem vilji halda bréfum sínum sé ekki gefinn kostur á því.
„Eina leiðin fyrir fjárfesta til að verja hagsmuni sína er að mæta á hluthafafundinn á fimmtudag og greiða atkvæði gegn tillögunni,“ segir Óttar og hvetur eigendur til að standa saman í málinu. mj@mbl.is