Hlutabréfamarkaðir í Asíu, Evrópu og í Bandaríkjunum réttu allir nokkuð úr kútnum í gær eftir tap síðustu daga. Var hækkunin m.a. rakin til vona vestanhafs um að Bandaríkin og Kína myndu semja um endalok hins yfirvofandi tollastríðs.
Trump sagði á samfélagsmiðli sínum Truth Social í gær að Kínverjar vildu ólmir semja við Bandaríkin en að þeir vissu ekki hvernig ætti að hefja þá vegferð .„Við bíðum eftir símtali þeirra. Það mun gerast!“ Trump sagði einnig að Suður-Kóreumenn vildu semja um lausn deilunnar.
Fjármálaráðherrann Scott Bessent sagði fyrr um daginn að „sum stór ríki með stóran viðskiptahalla“ myndu semja fljótlega við Bandaríkin um lausn tolladeilunnar, og að ef góðar tillögur kæmu fram yrði hægt að semja fljótt og vel. Nefndi Bessent þar sérstaklega Japani.
Yfirlýsingar Trumps og Bessents voru hins vegar nokkuð á skjön við yfirlýsingar Kínverja, en talsmaður kínverska viðskiptaráðuneytisins sagði í gærmorgun að Kínverjar væru tilbúnir að „berjast til þrautar“ ef Trump ákvæði að láta verða af hótunum sínum um að leggja á 50% viðbótartoll, sem myndi gera tollprósentuna á kínverskar vörur samtals 104%.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ræddi í gær símleiðis við Li Qiang, forsætisráðherra Kína, og hvatti þar Kínverja til þess að forðast frekari „stigmögnun“ á tollastríðinu, þar sem nauðsynlegt væri að halda í stöðugleika heimshagkerfisins. Li sagði von der Leyen að Kínverjar hefðu næg tæki til þess að takast á við mótlæti í efnahagsmálum og að kínversk stjórnvöld hefðu fulla trú á því að hægt yrði að halda áfram heilbrigðri þróun efnahagsins.
Evrópusambandið hyggst kynna fyrirhugaðar gagnaðgerðir sínar í næstu viku, en von der Leyen lagði til í fyrradag að ESB og Bandaríkin myndu afnema alla tolla af iðnvarningi og bílainnflutningi sín á milli. Trump sagði þá tillögu hins vegar ganga of skammt. „Evrópusambandið hefur verið mjög, mjög slæmt við okkur,“ sagði Trump.
Frakkar og Þjóðverjar eru sagðir hafa lagt til aðgerðir gegn bandarískum tæknifyrirtækjum og öðrum bandarískum þjónustufyrirtækjum, þrátt fyrir að tollar Bandaríkjamanna beinist að vörum. Þá herma heimildir AFP-fréttastofunnar að verið sé að skoða allt að 25% toll á ýmsar bandarískar vörur, meðal annars sojabaunir, snyrtivörur og mótorhjól. Hins vegar stendur ekki til að setja tolla á bandarískt áfengi, þar sem óttast er að þá verði settir hefndartollar á evrópska vínframleiðslu.