Verandi nýlentur í Túnis finnst mér alveg upplagt að rifja upp púnversku stríðin sem Rómaveldi og Karþagó háðu í þremur lotum á 3. og 2. öld f.Kr. Eflaust er búið að fenna yfir það sem lesendur lærðu í fornsögutímum í menntaskóla en nöfn á borð við Hamilcar Barca, Hannibal og Scipio Africanus ættu að kveikja á gömlum perum. Svo muna auðvitað allir eftir Kató eldri og hvernig hann þreyttist ekki á að minna kollega sína á rómverska þinginu á að leggja þyrfti Karþagó í eyði.
Fyrir 2.200 árum tókust tvö stórveldi á um yfirráð yfir Miðjarðarhafinu og var alls ekki víst að Rómverjar myndu sigra, enda var yfirráðasvæði Karþagó stærra og Karþagómenn með mikla yfirburði í sjóhernaði framan af. Karþagó skorti heldur ekki snjalla leiðtoga og er t.d. leitun að meira hernaðarafreki en því þegar Hannibal leiddi her sinn yfir Alpana.
Sigur Rómverja skrifaðist m.a. á aðlögunarhæfni rómverska hersins og betra stjórnarfar í Róm sem tryggði pólitískan stöðugleika og samheldni. Karþagó hafði hernaðarlegt og fjárhagslegt forskot en innbyrðis átök og pólitísk skammsýni settu Karþagóbúa í veikari stöðu, og ekki bætti úr skák að Karþagó varð að reiða sig á málaliðaher.
Það var einmitt eftir fyrsta púnverska stríðið að málaliðarnir gerðu uppreisn því þeir töldu sig ekki hafa fengið rétt greitt fyrir þjónustu sína. Það orðspor fór af leiðtogum Karþagó að þeir væru helst til sparir á gullið og þegar átökunum var lokið reyndu þeir að semja við málaliðana um afslátt af umsömdu gjaldi.
Tveir menn, Spendius og Mathos, leiddu uppreisnina og óðara barst málaliðunum liðsauki frá nágrannahéruðum þar sem fólk var orðið langþreytt á yfirvöðslusemi ríkisbubbanna í Karþagóborg. Þannig tókst Spendius og Mathos að safna nærri 70.000 manna herliði og var leiðtogum Karþagó alvarlegur vandi á höndum. Það var ekki fyrr en Hamilcar Barca, faðir Hannibals, tók við stjórn karþagóska herliðsins að þeim varð loksins eitthvað ágengt – og mátti samt litlu muna.
Hér komum við að Trump og tollastríðinu, og hve mikil jafnvægislist það er í öllum átökum að vita hvenær á að draga úr, og hvenær að gefa í.
Ein ástæðan fyrir velgengni Hamilcars var nefnilega að hann var miskunnsamur, og þeim uppreisnarmönnum sem hann handsamaði bauð hann að ýmist gerast hans eigin liðsmenn eða snúa óhultir til heimahaga sinna. Þetta dugði til að minnka baráttuviljann hjá mörgum og tók að fækka hratt í röðum málaliðanna.
Spendius og Mathos grunaði, réttilega, að þeim yrði örugglega ekki sýnd sama miskunn og frá þeirra bæjardyrum séð var eina ráðið í stöðunni að gera út af við alla velvild hjá Hamilcar. Fór það þannig fram að þeir 700 Karþagómenn sem málaliðarnir höfðu náð að handsama voru ekki bara teknir af lífi heldur pyntaðir til bana. Hendurnar voru hoggnar af þeim, kynfærin síðan skorin undan þeim, fætur þeirra brotnir og að lokum voru fangarnir grafnir lifandi.
Viðbrögð Hamilcars voru eins og við var að búast: þá uppreisnarliða sem hann hafði fangað lét hann taka af lífi, og í þeim átökum sem á eftir fylgdu sýndi hvorug fylkingin minnsta snefil af miskunnsemi og samúð. Lýsingarnar eru skelfilegar og þurftu t.d. málaliðarnir á tímabili að stunda stórfellt mannát til að lifa af en Hamilcar gerði það að reglu að þeir uppreisnarmenn sem hann handsamaði voru teknir af lífi með því að láta fíla traðka á þeim og kremja til bana.
Spendius var að lokum handsamaður og krossfestur á hæð fyrir utan Túnis, en Mathos var leiddur inn í Karþagó þar sem hann var dreginn um göturnar og sameinuðust borgarbúar um að kvelja hann og murka úr honum líftóruna.
Það er nefnilega ekki alltaf sniðugt að fara í hart, og ef menn njóta einhverrar velvildar á annað borð er ógalið að reyna að vinna með það jákvæða frekar en það neikvæða.
Óvissan er verst
Hverju er hægt að bæta við allan fréttaflutninginn af nýjum verndartollum Trumps?
Fyrst er kannski að nefna að það var afar klaufalegt hvernig Trump kynnti og útfærði tollana, og hann veitti höggstað á verkefninu með því að tiltaka sker og útnára þar sem enginn býr nema nokkrar mörgæsir.
Bakslagið á mörkuðum er samt ekki eins skelfilegt og menn vilja vera láta. Auðvitað er það ekki gaman þegar hlutabréf lækka í verði, en ef við skoðum t.d. S&P 500-vísitöluna er veiking hennar ekki meiri en svo að hún er komin n.v. á sama stað og fyrir ári. Langt er síðan menn fóru að vara við yfirvofandi leiðréttingu og viðra áhyggjur af því að bandaríski hlutabréfamarkaðurinn væri á aðeins of hröðum snúningi, og að ekki veitti af smá kælingu. Himnarnir eru ekki að hrynja alveg strax.
Annars held ég að titringurinn á mörkuðum hafi minna að gera með upphæð tollanna sjálfra og meira að gera með óvissu um framhaldið. Það er á reiki nákvæmlega hvað var lagt til grundvallar við ákvörðun verndartollanna, og hvað viðskiptaþjóðir Bandaríkjanna geta gert til að eiga möguleika á betri kjörum. Forbes greindi frá því á þriðjudag að um 70 ríki hefðu þegar farið þess á leit við bandarísk stjórnvöld að fá að semja upp á nýtt en enginn veit hve stutt eða langt samningaferlið verður, né hvað Trump er líklegur til að sætta sig við, en eins og leiðtogar Karþagó til forna er hann gjarn á að vilja breyta gerðum samningum eftir á. Óvissan þýðir líka að það er ekki að fara að gerast að alþjóðleg stórfyrirtæki færi framleiðslu sína í hvelli til Bandaríkjanna og inn fyrir tollamúrana. Menn ráðast ekki í fjárfestingu og framkvæmdir upp á marga milljarða þegar Trump gæti komið með enn eitt útspilið á morgun og gjörbreytt öllum forsendum.
Óvissan þýðir einnig að fyrirtæki um allan heim halda að sér höndum í augnablikinu. Núna er ekki rétti tíminn til að setja aukinn kraft í rannsóknir og þróun, stækka reksturinn, auka afköstin og fjölga starfsfólki. Er þá hættan sú, ef óvissuástandið verður ekki skammvinnt, að þegar fram í sækir verði verðmætasköpun minni en ella, sem myndi auka líkurnar á niðursveiflu á heimsvísu.
Undirstöðurnar og forgjöfin
Ég hef sagt það áður, og segi það enn, að það er ekki alltaf auðvelt að halda uppi vörnum fyrir Trump. Oft er erfitt að segja til um hvort hann er leiftursnjall og djarfur stjórnmálamaður eða einfaldlega fauti sem fylgir eðlisávísuninni og er lagið að fá sínu framgengt.
En um hitt verður ekki deilt að fólkið sem Trump hefur raðað í kringum sig er engir kjánar, og hefur t.d. verið áhugavert að heyra hvað nýi fjármálaráðherrann, Scott Bessent, hefur haft um tollana að segja. Kannski er það ekki skrítið að fjölmiðlar hafi sáralítið fjallað um Bessent fyrr en nú, enda athyglin öll beinst að Trump síðustu þrjá mánuðina. Skipan Bessents var þó m.a. merkileg fyrir þær sakir að aldrei hefur opinberlega samkynhneigður einstaklingur verið skipaður í valdameira og mikilvægara embætti í bandarísku stjórnsýslunni.
Reyndar virkar Bessent alveg ofboðslega litlaus og jarðbundinn í viðtölum og ekki er hægt að segja að blessaður maðurinn hafi mikla útgeislun. En ekki skyldi dæma bókina af kápunni og var Bessent t.d. ungur maður þegar honum var falið að stýra útibúi George Soros í London og lék þar lykilhlutverk þegar Soros knésetti pundið árið 1992. Þetta er maður sem skilur alþjóðahagkerfið og markaði vel og veit sínu viti.
Bessent hefur m.a. bent á að það sé ekkert nýtt að markaðurinn gangi í bylgjum, og að langtímaþróunin skipti meira máli en skammtímasveiflur líðandi stundar. Þá hefur Bessent undirstrikað að aðgerðir Trumps – þó að þær kunni að vera sársaukafullar – miði að því að styrkja undirstöður hagsældar til lengri tíma litið. Gott ef það er ekki eitthvað til í því hjá honum.
Trump má eiga það að hann hefur komið tollamálum rækilega á kortið, og veitti ekki af. Gaman er að heyra það núna úr öllum áttum að verndartollar séu meira til óþurftar en til gagns, og ágætt að stjórnmálamenn um allan heim svari þá fyrir það hvers vegna flestar þjóðir sitja samt uppi með einhvers konar tollamúra gagngert til hagsbóta fyrir tilteknar atvinnugreinar. Er Ísland þar engin undantekning og hefur t.d. Viðskiptaráð minnt á það með reglulegu millibili að fátt myndi bæta kjör íslenskra heimila jafnmikið og að afnema tolla á matvörur að fullu.
Nú er bara að vona að viðræður gangi hratt fyrir sig, og að ríki heims semji hvert á fætur öðru um að ryðja úr vegi öllum inngripum og hindrunum í viðskiptum á milli þjóða.
Mitt framlag er að leggja það til að vinna með það jákvæða og halda Hamilcar góðum. Samninganefndin sem Ísland sendir til Bandaríkjanna ætti því að vera skipuð fegurðardrottningum með lága forgjöf í golfi. Er þá engin hætta á öðru en að þeim mæti mikil velvild og samningavilji.