Marinó Bóas Karlsson aðalvarðstjóri fæddist á Reyðarfirði 25. október 1941 en 1944 fluttist fjölskyldan í Kópavog þar sem hann ólst upp. Hann lést 30. mars 2025 á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Boðaþingi þar sem hann dvaldi síðasta árið sem hann lifði.
Marinó var sonur Laufeyjar Eysteinsdóttur, húsmóður og verkakonu frá Tjarnarkoti í Austur-Landeyjum, f. 22. desember 1912, d. 4. júlí 1999 í Kópavogi, og Karls Þórarins Bóassonar bifvélavirkja frá Grund, Reyðarfirði, f. 25. október 1913, d. 10. júní 1951. Systkini Marinós voru Oddgeir Haukur, f. 19. júlí 1936, d. 2. desember 2010, og Íris, f. 6. febrúar 1947, d. 2. apríl 2019.
Marinó kvæntist 13. febrúar 1960 Sigfríði Elínu Sigfúsdóttur, f. 8. ágúst 1939, og eignuðust þau fjögur börn. Þau eru: 1) Hanna, f. 15. september 1959, skrifstofumaður og á hún son með Jóni Sigurpáli Salvarssyni og son og dóttur með fyrrverandi maka, Helga Magnússyni. 2) Karl Þórarinn, f. 28. maí 1961, vélvirki, kvæntur Bryndísi Þóru Bjarman. Karl á einn son með fyrrverandi maka, Guðmundínu Ragnarsdóttur. 3) Ólafur, f. 22. nóvember 1963, trésmíðameistari, kvæntur Sædísi Helgu Guðmundsdóttur og saman eiga þau eina dóttur. Einnig á Ólafur tvo syni og eina dóttur. 4) Sigfús, f. 22. nóvember 1963, matreiðslumeistari, kvæntur Annicken Njå. Sigfús á tvo syni og eina dóttur með fyrrverandi maka, Rakel Garðarsdóttur. Barnabarnabörnin eru orðin tólf.
Marinó lærði rennismíði og vann við það hjá vélsmiðjunni Héðni í nokkur ár, einnig var hann til sjós í nokkur ár og var þá ýmist háseti, vélstjóri eða kokkur. En mest af starfsævinni vann hann hjá Flugmálastjórn, fyrst á vélaverkstæðinu en fór fljótlega í slökkviliðið á Reykjavíkurflugvelli þar sem hann var aðalvarðstjóri. Meðfram vöktum vann hann ýmsa byggingarvinnu ásamt því að aðstoða á vélaverkstæði Flugmálastjórnar. Hann, ásamt félögum, byggði blokk í Fossvoginum sem fjölskyldan flutti í árið 1968 og einnig byggði hann einbýlishúsið í Stuðlaseli, sem var heimili fjölskyldunnar frá árinu 1976, sjálfur „með einari“ eins og sagt er, ásamt sonum sínum sem handlönguðu. Einnig byggði hann sumarhús í Eilífsdal í Kjós. Í Tungunum áttu þau hjónin sumarhús sem þau dvöldu mikið í og þar sinnti hann gróðrinum og ræktun. Honum var margt til lista lagt og allt sem hann tók sér fyrir hendur varð að meistaraverki hvort sem það voru smíðar, bílaviðgerðir, matreiðsla, bakstur, garðyrkja, uppeldi barnanna og samvera með barnabörnum. Þau hjónin voru alla tíð dugleg að ferðast, bæði innanlands og erlendis.
Síðustu árin bjuggu þau hjónin í Núpalind í Kópavogi en fyrir ári flutti hann á Hrafnistu í Boðaþingi og var í herbergi við hliðina á Ellu sem hafði flutt þangað rúmu ári áður.
Útförin fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 9. apríl 2025, kl. 15.
Elsku pabbi, það er alltaf erfitt að kveðja þá sem eru manni jafn kærir og traustir eins og þú varst.
Minningin lifir og ég lít til baka og hugsa til allra góðu stundanna þegar við gengum til rjúpna í Bláfjöllunum með Hauki frænda og þið kennduð mér allt um náttúruna og veiðimennsku.
Útilegurnar sem þú elskaðir að fara í með fjölskylduna út um allar trissur. Það var fátt sem þú lést standa í vegi fyrir þér hvort sem það var matreiðsla, múrverk, flísalagnir, byggingarframkvæmdir eða bílaviðgerðir. Af öllu þessu verkviti nutu margir góðs af þinni gefandi hjálparhönd, og þá kannski ekki síst ég sem lærði heil ósköp af þér.
Man svo vel eftir þegar ég keypti gamlan lúinn Bronco-jeppa rétt áður en ég fór til starfa í Austurríki og þegar ég kom til baka varstu búinn að gera hann upp, jafnt innan sem utan og hann beið eftir mér nýsprautaður og fínn. Á þessum bíl fór ég síðan vítt og breitt um hálendið, í Þórsmörkina og Kerlingarfjöll ótal sinnum, og aldrei sló hann feilpúst. Þetta lýsir því vel hversu fjölhæfur og vandvirkur þú varst. Ég mun sakna stundanna sem við áttum í Boðaþingi síðustu mánuðina og spjölluðum um heima og geima, þú spurðir reglulega um barnabörnin og barnabarnabörnin bæði skyld og óskyld. Það lýsir því svo vel hversu vænt þér þótti um þitt fólk alla tíð elsku fyrirmyndin mín.
Ég veit að þú ert hvíldinni feginn og minningin um einstaklega góðan mann lifir.
Starfsfólki Boðaþings vil ég þakka sérstaklega fyrir fallega og góða umönnun.
Takk fyrir allt.
Þinn
Karl (Kalli).
Rabarbari úti í garði. Súr en dísætur dýft ofan í glasi fullt af sykri.
Sitjandi úti á þúfu. Horfandi yfir Tungufljótið. Yfir Hekluna.
Íslenskir fuglar og flóra. Fjöll og dalir. Þú þekktir hvert og hvern einasta með nafni.
Heimsóknir á slökkviliðsstöðina á Reykjavíkurflugvelli. „Mundu eftir því að heilsa köngulónni í glugganum á turninum.“ Krossköngulóin. „Þú þarft ekkert að vera hrædd.“
Bóndarósir í blóma. Garðskálinn og arineldurinn. Stuðlaselið. Gönguferðir út í móa. Mói sem seinna varð að heimili ykkar ömmu í Núpalind.
Spóar, lóur og hrossagaukar. Ég var alltaf spóaleggirnir þínir.
Berjalyng, holtasóley, fjallabrúða og geldingahnappur. „Minnstu blómin eru yfirleitt þau fallegustu, þau sem vaxa á hálendinu.“
Heitar hendur, hlýr faðmur. Lambalæri í ofninum. Sveppasósa og sykraðar kartöflur. „Fáðu þér meira, Lilja mín.“
„Viltu eitthvað að drekka?“ Alltaf nóg af vatni á krananum hjá afa – endalaust.
Laugarás og Bjarnabúð. Galtalækur og tjaldvagninn. Kirkjubæjarklaustur og Þjórsárdalurinn. Grilluð samloka með osti, steikt upp úr nægu smjöri. Ég steiki mínar eins enn þann dag í dag, en þær bragðast aldrei jafn vel og af prímusnum hjá afa. Swiss Miss með sykurpúðum. Auðvitað.
Útilegur. Ferðalög. Heill heimur af ævintýrum. Í bakgarðinum hjá afa. Á ferðalögum með afa.
Fallegu ferðalagi þínu er lokið hér. En í minningunni lifir þú áfram, í sumarlandinu þar sem miðnætursólin skín. Horfandi yfir Tungufljótið og Hekluna. Á stað þar sem þér líður vel, umvafinn ljósi og kyrrð.
Hvíldu í friði, elsku afi.
Ég sakna þín.
Lilja Hrönn Helgadóttir.
Nú hefur föðurbróðir minn, hann Maddi, kvatt þessa jarðvist.
Mun ég ávallt minnast hans af miklum hlýhug.
Maddi var sá síðasti eftirlifandi af þremur systkinum.
Faðir minn Haukur var elstur og Íris litla systir þeirra.
Systkinin uxu upp í Kópavogi og byggðu foreldrar þeirra þar á stríðsárunum þegar Kópavogur var í miklum vexti. Fjölskyldan flutti þangað frá Reyðarfirði.
Húsið var ekki stórt og þegar það þurfti meira pláss fyrir fjölskylduna, þá var það bara stækkað, byggt við og því „lyft“ sem kallað var.
Faðir þeirra Karl dó því miður ungur og ólust systkinin upp með móður sinni Laufeyju. Oft var ekki af miklu að taka á heimilinu.
Þrátt fyrir það komst þessi fjölskylda vel áfram og sennilega hefur þetta mótlæti frekar gert þau sterkari en hitt.
Maddi var ungur þegar hann stofnaði sína eigin fjölskyldu og var alltaf í mínum augum mikill fjölskyldumaður og drifkraftur fjölskyldunnar. Sterkur stólpi í tilverunni sem skilur eftir sig stórt skarð.
Ef einhver þurfti á hjálp að halda var Maddi þar og við pabbi minn nutum ekki minnst góðs af hans hjálpsemi.
Minningin um góðan mann, sem allt lék í höndunum á, hvort sem það var garð- og trjárækt, smíðar eða matargerð, mun ávallt lifa í hjörtum okkar.
Ég vil votta konu hans, henni Ellu, og öllum frændum mínum og frænkum innilega samúð.
Kær kveðja,
Hafdís.