Smyril Line stefnir á 18 milljarða króna tekjur eftir fimm ár.
Smyril Line stefnir á 18 milljarða króna tekjur eftir fimm ár. — Morgunblaðið/Eggert
Á þessu ári mun flutningafyrirtækið Smyril Line Cargo Ísland hefja byggingu 3.000 fermetra vöru- og kæligeymslu í Þorlákshöfn. Hluti af húsinu verður tekinn í notkun í desember nk. „Við höfum lagt fyrir, og munum fjármagna húsið með eigin fé

Á þessu ári mun flutningafyrirtækið Smyril Line Cargo Ísland hefja byggingu 3.000 fermetra vöru- og kæligeymslu í Þorlákshöfn. Hluti af húsinu verður tekinn í notkun í desember nk. „Við höfum lagt fyrir, og munum fjármagna húsið með eigin fé. Það mun kosta okkur um 900 m.kr. Smyril Line Ísland er skuldlaust fyrirtæki. Þegar vextir hækkuðu hér greiddum við upp allar skuldir. Vaxtastigið er svo hátt að það er ekki hægt að skulda neitt á Íslandi,“ segir Óskar Sveinn Friðriksson forstjóri fyrirtækisins í ítarlegu samtali við ViðskiptaMoggann.

Hann segir að stefnt sé að því að tekjur félagsins verði orðnar um 18 milljarðar íslenskra króna eftir fimm ár. Á síðasta ári voru þær vel á fjórtánda milljarð. Fyrir aðeins þremur árum voru tekjurnar 8 milljarðar. Óskar segir að til að vaxa verði að gera breytingar og það hafi Smyril Line verið að gera. „Við höfum til dæmis farið meira í innanlandsakstur sjálfir með eigin trukka. Við erum samt sem áður með frábæra samstarfsaðila í innanlandsakstri. Það er alls ekki stefna félagsins að reka aksturskerfi innanlands, en það hefur þróast þannig. Einnig höfum við bætt við þjónustuframboð okkar og erum meðal annars að framkvæma forskoðanir á nýjum bílum fyrir Heklu og Toyota á Íslandi. Það er ljóst að ef við ætlum að stækka meira í flutningum til og frá Íslandi verðum við að fjölga skipum enn frekar og fara í strandsiglingar, til að safna vörum, eða berjast um álflutningana og koma þá með allt aðrar lausnir en við þekkjum hér á landi. Kannski sameina nokkur landflutningafyrirtæki og taka slaginn? Þetta eru bara hugmyndir, sem eru samt ekkert endilega í einhverri markmiðsáætlun, en auðvitað skoðum við allt. Það er fullt af tækifærum þarna úti, margir óplægðir akrar sem við eigum eftir að plægja og virkja. Við erum rétt að byrja okkar íslensku vegferð.“