Frammistaða íslenska liðsins í gær var heldur betur köflótt. Fyrstu 35 mínúturnar eru eitthvað það versta sem liðið hefur sýnt í langan tíma en svo sýndi það mikinn karakter með því að jafna eftir að hafa lent tvisvar tveimur mörkum undir og nánast fengið kjaftshögg í byrjun beggja hálfleika.
Þorsteinn Halldórsson þjálfari hafði greinilega fengið nóg eftir 35 mínútur og gerði þá strax tvær breytingar á liðinu. Dagný Brynjarsdóttir kom þá inn á miðjuna og hún gjörbreytti leik íslenska liðsins með yfirvegun sinni, reynslu og krafti. Hafi einhver efast um að hún ætti heima í EM-hópnum í sumar ætti Dagný að hafa kveðið þær efasemdir í kútinn í Laugardalnum í gær.
Karólína Lea steig síðan fram og bjargaði stiginu með því að skora þrennu en slíkt framlag hefði alltaf átt að duga til sigurs.
Glódísar Perlu var ekki saknað í Noregsleiknum þegar varnarleikur liðsins var nánast fullkominn en í gær var hann mun slakari, sérstaklega framan af leiknum þegar Sviss fékk hvert færið af öðru upp í hendurnar.
Sveindís Jane heldur áfram að vera mesta sóknarógn íslenska liðsins og tvö markanna komu eftir hennar undirbúning, en það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir hana og þjálfarann að henni hafi ekki tekist að skora í átta landsleikjum í röð. Hún var þó aðeins hársbreidd frá sigurmarki seint í leiknum.