Í Laugardal
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Hörmuleg byrjun kom í veg fyrir að kvennalandslið Íslands í fótbolta ynni fyrsta sigurinn í þessari Þjóðadeild þegar það gerði jafntefli, 3:3, við Sviss á Þróttarvellinum í gær.
Sviss komst yfir eftir 70 sekúndur og staðan var orðin 2:0 eftir 17 mínútur. Íslenska liðið komst inn í leikinn á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði beint úr aukaspyrnu og staðan var 2:1 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn hófst enn verr því Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir skoraði slysalegt sjálfsmark af 45 metra færi eftir aðeins 18 sekúndur. En þetta braut ekki íslenska liðið. Karólína Lea skoraði aftur á 50. mínútu með föstu skoti eftir góðan undirbúning Sveindísar Jane Jónsdóttur.
Og Karólína var enn á ferð 12 mínútum síðar þegar hún jafnaði með skallamarki eftir langt innkast Sveindísar og skalla Ingibjargar Sigurðardóttur. Staðan var orðin 3:3 og enn hálftími eftir.
Enn styrktist staða Íslands þegar Géraldine Reuteler framherji Sviss fékk sitt annað gula spjald á 69. mínútu og var þar með rekin af velli. Þrátt fyrir góðar tilraunir náði íslenska liðið ekki að nýta liðsmuninn og þriðja jafnteflið í fjórum leikjum í keppninni varð niðurstaðan.