”  Þrátt fyrir að skattspor iðnaðarins sé mikið endurspeglar það einnig háa skattbyrði á íslensk fyrirtæki.

Efnahagsmál

Ingólfur Bender

Aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins

Skattspor iðnaðarins – þ.e. framlag iðnaðar til samfélagsins í formi skattgreiðslna – er mjög umfangsmikið og endurspeglar mikilvægi greinarinnar í hagkerfinu. Heildarskattspor iðnaðar nam 464 milljörðum króna árið 2023 samkvæmt nýlegri skýrslu sem Reykjavík Economics vann fyrir Samtök iðnaðarins. Til samanburðar námu útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála 354 milljörðum króna árið 2023 og til menntamála 250 milljörðum króna. Þetta sýnir að iðnaðurinn stendur undir stórum hluta af starfsemi hins opinbera. Skattspor iðnaðarins er það stærsta allra útflutningsgreina. Þröngt skattspor greinarinnar (án virðisaukaskatts) nam 220 milljörðum. Til samanburðar nam þröngt skattspor ferðaþjónustunnar 107 milljörðum og sjávarútvegsins 89 milljörðum sama ár.

Iðnaðurinn skilar verðmætum inn í íslenskt samfélag með ýmsum hætti. Stórt skattspor iðnaðarins er einn þáttur þess og endurspeglar mikið umfang greinarinnar hér á landi. Verðmætasköpun greinarinnar nam 900 milljörðum króna í fyrra, sem er um fjórðungur landsframleiðslunnar. Í greininni starfa 52 þúsund manns, eða einn af hverjum fjórum á innlendum vinnumarkaði, og stór hluti skattsporsins eru vinnuaflstengdir skattar. Iðnaðurinn er jafnframt stærsta útflutningsgrein þjóðarbúsins og aflaði 750 milljarða króna í útflutningstekjur í fyrra, sem jafngildir 39% af heildarútflutningstekjum. Að auki hefur greinin veruleg jákvæð áhrif á aðrar atvinnugreinar. Ljóst er því að iðnaðurinn stendur bæði undir stórum hluta lífskjara landsmanna og er skattspor greinarinnar bara einn þáttur þess.

Í skýrslu Reykjavík Economics er skattsporið reiknað út niður á þrjár megingreinar iðnaðarins, þ.e. byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, hugverkaiðnað og aðra iðnaðarframleiðslu sem að mestu er orkusækinn iðnaður. Samkvæmt niðurstöðunum nam heildarskattspor hugverkaiðnaðar 136 milljörðum króna og þröngt skattspor 71 milljarði króna árið 2023. Útflutningur hugverkaiðnaðar hefur verið í miklum vexti síðustu ár og ef áætlanir fyrirtækja í greininni ganga eftir mun sú grein að líkindum verða verðmætasta útflutningsgrein hagkerfisins eftir fimm ár. Heildarskattspor byggingarstarfsemi og mannvirkjagerðar nam 188 milljörðum króna árið 2023, en þröngt skattspor greinarinnar var 74 milljarðar króna. Greinin er umfangsmikil hér á landi en um 18 þúsund manns starfa í þeirri grein og velti hún í fyrra um 650 milljörðum króna. Heildarskattspor annarrar iðnaðarframleiðslu (án fiskvinnslu) var 140 milljarðar króna, þar af voru 75 milljarðar þröngt skattspor. Þessi flokkur samanstendur að mestu af orkusæknum iðnaði líkt og áður sagði.

Þrátt fyrir að skattspor iðnaðarins sé mikið endurspeglar það einnig háa skattbyrði á íslensk fyrirtæki. Ísland er háskattaríki í alþjóðlegum samanburði, þar sem skatttekjur hins opinbera námu 32% af landsframleiðslu árið 2022 – sem er mjög hátt í samanburði við önnur OECD-ríki. Skattar og gjöld á íslensk fyrirtæki eru margþætt og margar álögur teljast mjög íþyngjandi fyrir atvinnulífið. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem nú er til umfjöllunar á Alþingi er gert ráð fyrir að skatttekjur hækki í 34% af landsframleiðslu á til ársins 2027. Slíkur skattþungi dregur úr fjárfestingu og framleiðnivexti. Háir skattar geta grafið undan verðmætasköpun, dregið úr atvinnu og þar með rýrt skattstofna og tekjur hins opinbera. Samtök iðnaðarins telja að skattahækkanir sem vinna gegn virkni og samkeppnishæfni atvinnulífsins séu ekki í samræmi við sjálfbærni í opinberum fjármálum til lengri tíma.

Samtök iðnaðarins hafa lagt á það áherslu að rétt leið að sjálfbærni og stöðugleika í opinberum fjármálum sé að efla samkeppnishæfni og framleiðni í hagkerfinu. Með því að styðja við framleiðniaukningu má skapa sterkari tekjugrundvöll fyrir hið opinbera og bæta lífskjör landsmanna. Þeir þættir sem mestu skipta í þessu samhengi eru samkeppnishæft starfsumhverfi, mannauður og menntun – einkum í iðn- og STEAM-greinum, umgjörð nýsköpunar, næg nýfjárfesting og viðhald í innviðum, sérstaklega í samgöngum, húsnæði og grænni raforku. Áframhaldandi umbætur stjórnvalda á þessum sviðum eru lykilatriði í því að efla getu hagkerfisins til að efla lífskjör landsmanna, ekki síst þegar ytri skilyrði fara versnandi eins og um þessar mundir.