Fyrirhugað er að gera breytingar á atvinnuleysistryggingakerfinu með það að markmiði að grípa fyrr þá einstaklinga sem hafa verið lengi án vinnu og á atvinnuleysisskrá og auka virkni hjá þeim hópi. „Til að stuðla að þessu er fyrirhugað að stytta hámarkslengd þess tímabils sem fólk getur fengið greiddar atvinnuleysisbætur og er nú unnið að þeirri útfærslu,“ segir í frétt félags- og húsnæðismálaráðuneytisins í gær.
Í dag er hámarksbótatímabilið í atvinnuleysiskerfinu 30 mánuðir en ekki kemur fram hvað stendur til að stytta það mikið. Bent er á í frétt ráðuneytisins um fyrirhugaðar breytingar að hvergi á Norðurlöndum er bótatímabil atvinnuleysistrygginga jafn langt og á Íslandi, eða 30 mánuðir. Í Danmörku getur grunnbótaréttur numið allt að 24 mánuðum, í Finnlandi er hámarksbótatímabilið um það bil 13 mánuðir að tilteknum skilyrðum uppfylltum, 12 mánuðir í Noregi og 10 eða 15 mánuðir í Svíþjóð eftir því hvort bótaþegar eru með börn á framfæri sínu.
Samhliða styttingu bótatímabilsins á að setja aukinn kraft í að aðstoða þá sem hafa verið lengi án atvinnu við að komast út á vinnumarkaðinn. Bent er á að Vinnumálastofnun (VMST) hafi náð góðum árangri með aðgerðum síðastliðin ár til að draga úr langtímaatvinnuleysi. Hlutfall langtímaatvinnulausra af þeim sem skráðir eru án atvinnu hafi farið úr 25% í ársbyrjun 2023 niður í 17% í febrúar sl.
Reynslan sýni að snemmtæk íhlutun skipti sköpum. Því lengur sem einstaklingur er fjarverandi frá vinnumarkaði, þeim mun ólíklegra er að viðkomandi snúi til baka á vinnumarkað og því sé brýnt að fjarveran sé ekki of löng.
Ekki kemur fram hvort frumvarp er væntanlegt á yfirstandandi þingi. Unnur Sverrisdóttir forstjóri VMST kvaðst í gær ekki geta ekki svarað því hve stytta á bótatímabilið mikið. Stofnunin hefur að hennar sögn tekið þátt í undirbúningi breytinganna og mikil vinna er einnig í gangi um þessar mundir vegna undirbúnings fyrir miklar breytingar sem verða 1. september næstkomandi þegar nýtt örorkulífeyriskerfi tekur gildi. Verður þá m.a. mikil áhersla lögð á að aðstoða fólk með skerta starfsgetu við að taka þátt á vinnumarkaði. omfr@mbl.is