Undirritun Logi Einarsson ásamt fulltrúum frá hinum ríkjunum.
Undirritun Logi Einarsson ásamt fulltrúum frá hinum ríkjunum. — Ljósmynd/Efnahagsráðuneyti Úkraínu
Uppfærður fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Úkraínu var undirritaður í Kænugarði í Úkraínu í gær. Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Uppfærður fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Úkraínu var undirritaður í Kænugarði í Úkraínu í gær. Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd. Samningurinn kveður á um bætt markaðskjör fyrir vöruviðskipti milli Íslands og Úkraínu en viðræður um uppfærsluna stóðu frá árinu 2023 og til loka síðasta árs.

Logi sagði í samtali við mbl.is í gær nýmælið í samningnum endurspegla viðskiptaveruleika dagsins í dag og vísar hann þar til reglna um rafræn viðskipti, um lítil og meðalstór fyrirtæki og sjálfbær viðskipti.

„Síðan eru auðvitað frekari uppfærslur. Þetta felur t.d. í sér ríkari aðgang fyrir íslenskar kjötafurðir, unna matvöru og sælgæti en Úkraína getur flutt inn grænmeti, kornmeti, unnin matvæli og drykkjarföng í einhverjum mæli.“

Þannig segir ráðherrann að útflytjendur beggja vegna samningsborðsins hagnist á uppfærslunum og bætir því við, í takti við tíðarandann í dag, að allir hagnist á frjálsum viðskiptum.

Ráðherrann nýtti einnig ferðina og sótti heim skrifstofur UNESCO, mennta-, vísinda- og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, í borginni.

Höf.: Ólafur Pálsson