Sigríður Inga Brandsdóttir, eða Inga eins og hún var jafnan kölluð, fæddist í Reykjavík 19. febrúar 1954. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 23. mars 2025.
Foreldrar hennar voru Brandur Brynjólfsson, f. 21.12. 1916, d. 27.7. 1999, og Edda Jóhannsdóttir, f. 7.2. 1932, d. 5.11. 2021. Bróðir Ingu er Jóhann, f. 22.12. 1959, og systkin hennar í föðurætt eru Orri, f. 16.12. 1948, og Þórunn, f. 2.10. 1951.
Inga bjó fyrstu æviárin á Baldursgötu 12 í Reykjavík en flutti síðan um fermingu í Garðabæ. Hún fór árið 1973 sem au-pair til Bandaríkjanna og endaði með því að fá starf á verðbréfaskrifstofu á Wall Street og talaði oft um þá sérstæðu veröld sem hún upplifði þar. Eftir að heim var komið starfaði Inga á ritsímanum í Reykjavík við móttöku og dreifingu á símskeytum.
Eftirlifandi maki Ingu er Bergur Sigurður Oliversson, f. 26.9. 1951, foreldrar hans voru Oliver Steinn Jóhannesson, f. 23.5. 1920, d. 15.4. 1985, og Sigríður Þórdís Bergsdóttir, f. 19.12. 1924, d. 3.7. 1998.
Börn Ingu og Bergs eru: 1) Edda, f. 21.1. 1977. 2) Sigríður Þórdís, f. 26.10. 1978, m. Þorsteinn Már Jónsson, f. 17.7. 1974. Börn þeirra eru Guðrún Inga, Sara Dís, Þórdís Edda og Oliver Andri. 3) Oliver Steinn, f. 6.8. 1980. 4) Tinna, f. 3.5. 1985, m. Chilli Jesson, f. 6.5. 1993. 5) Signý, f. 23.9. 1991, m. Samuel Harvey, f. 23.12. 1990.
Inga var mjög næm á tilfinningar og líðan annarra og reyndist börnum sínum alla tíð mikill trúnaðarvinur og hollur ráðgjafi á lífsgöngunni. Vinir barnanna sóttu einnig til hennar styrk og ráðgjöf.
Inga greindist hinn 7. ágúst sl. með eitilfrumukrabbamein og gekkst undir ítrekaða lyfjameðferð en því miður án árangurs.
Útför hennar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 9. apríl 2025, klukkan 13.
Elsku fallega mamma mín lést í faðmi okkar systkina og pabba sunnudaginn 23. mars. Ég sakna þin svo óbærilega mikið elsku besta vinkona mín, mamma mín, ráðgjafi minn í öllu, heilarinn minn. Þú hjálpaðir mér svo mikið, eins og vinkonur mínar grínuðust oft með að ég þyrfti ekki sálfræðing því ég hefði þig, mamma.
Þú varst uppáhaldsvinkona mín og mikilvægasta manneskjan í mínu lífi. Þú leyfðir mér alltaf að fara mínar eigin leiðir og hafðir óbilandi trú á mér. Sagðir mér að grípa tækifærið þegar ég var 18 ára og hætta í skóla og flytja til New York til að vinna sem fyrirsæta. Þú sagðir mér að ferðast um heiminn og nota tækifærið, sem gæfist ekki öllum. Eins og þú sagðir alltaf, þá var ég litli fuglinn þinn sem flaug burt en kom alltaf aftur til þin. Þú sagðir alltaf: Ég dáist að þér, Tinna mín, dáist að hugrekki þínu. Ég dáðist að hugrekki þínu elsku mamma, þessar seinustu vikur þínar varstu prufandi nýjar lyfjameðferðir, hverja á fætur annarri, til þess að reyna allt. Því þú vildir ekki fara frá okkur, eins og þú sagðir á afmælinu þínu 19. febrúar, eina skiptið sem ég sá þig með tárvot augu, þegar þú last afmæliskortin frá okkur og börnunum hennar Siddýjar systur. Þú vildir ekki skilja okkur eftir því þú elskaðir okkur svo mikið.
Allar lyfjameðferðir byrjuðu vel og virkuðu svo allt í einu ekki, þetta var einn tilfinningalegur rússíbani þessar seinustu vikur. Svo allt í einu hrundi allt og þá var okkur sagt að þú ættir ekki mikið eftir, bara nokkra daga. Þá fann ég hjarta mitt og vonina loksins brotna. Ég hvíslaði að þér meðan ég keyrði þig um í hjólastól til að fá smá sól úti, hversu mikið ég dáðist að þér og þínu hugrekki. Þú gafst aldrei upp, en krabbameinið var ónæmt fyrir öllu og hélt áfram að taka yfir á nokkrum vikum og þá var þetta búið.
Mér finnst þetta svo erfitt og óraunverulegt elsku mamma. Þú varst svo næm og vissir alltaf allt á undan öllum, þú fannst allt á þér hvort sem það var slæmt eða gott. Við kölluðum þig stundum norn, en þú varst mín norn. Ég vildi óska að þú yrðir hér í október þar sem ég mun þarfnast þín mest, en ég veit þú munt vera hjá mér í anda og halda í höndina á mér og umvefja mig ást og öryggi. Elsku mamma, hvað ég á eftir að sakna þess að vakna á morgnana með þér, drekka kaffibolla, tala um lífið og tilveruna, horfa á true crime-heimildarmynd saman, en mest á ég eftir að sakna að liggja uppi í rúmi hjá þér í hálsakoti þar sem þú leikur við hárið á mér og biður mig að segja þér eitthvað skemmtilegt. Alveg undir lokin fékk ég svo að liggja hjá þér í faðmi þínum, og góðu lyktinni þinni og mjúku hendinni þinni sem ég fæ aldrei aftur að halda í.
Ég veit ekki hvernig ég á að takast á við þessa sorg sem er í hjarta mínu núna, einn dag í einu og horfa fram á við eins og þú sagðir alltaf. Þú ert ég og ert inni í mér. Þegar eitt líf endar þá hefst nýtt. Ég elska þig mamma mín og ég veit að þú verður alltaf hjá mér, haltu áfram að koma og heimsækja mig í draumum mínum.
Með sól í hjarta
sól í sinni
sól í sálu minni.
Þín dóttir,
Tinna.
Elsku mamma.
Hjarta mitt er brotið og söknuðurinn gífurlegur. Þetta átti ekki að enda svona. Baráttan hófst fyrir sjö mánuðum. Þú barðist eins og hetja allan tímann. Fórst í gegnum þrjár tegundir af lyfjameðferðum þar sem þér voru gefin 11 krabbameinslyf. Meðferðirnar virkuðu alltaf vel í byrjun og vonin var sterk. Við vissum að þetta var ágengt krabbamein en átti að vera vel meðferðarhæft. Fljótlega fór að koma í ljós að meinið virtist ónæmt fyrir öllum lyfjum. Vonin sem var svo sterk í byrjun fór dvínandi. Að lokum var okkur ljóst að þetta var ólæknanlegt. Þú varst ein af þessum 5% tilkynnti læknirinn okkur. Æðruleysið sem einkenndi þig. „Einhver varð að vera þessi óheppni,“ var eitt af því fáa sem þú sagðir. Eina sem hægt var að gera var að reyna láta þér líða sem best. Aldrei óraði okkur fyrir því að þetta myndi gerast svona hratt.
Þú varst yndisleg móðir og mín helsta fyrirmynd í móðurhlutverkinu. Þú varst mín besta vinkona og samband okkar var einstakt. Ég sakna ekki bara mömmu heldur minnar bestu vinkonu. Við töluðum saman oft á dag. Þú varst sú fyrsta sem ég hringdi í ef eitthvað var. Mikið óskaplega sakna ég símtala og faðmlaga frá þér. Sakna þess þegar ég hringdi í þig meðan við drukkum morgunkaffi. Þú fylgdist svo vel með okkur öllum og vildir allt fyrir alla gera.
Börnin mín sakna ömmu Ingu, yndislegrar ömmu. Enda sagðir þú alltaf við mig: Ég elska börnin þín eins og þau væru mín eigin. Samband þitt og barnanna minna var einstakt. Þau eiga öll yndislegar minningar um þig. Oliver Andri ekki nema fjögurra ára var einstaklega næmur eftir að þú veiktist. Þegar meðferðin var farin að taka sinn toll af þér, hárið allt farið, var hann vanur að hlaupa til þín, kippa af þér höfuðfatinu og þekja höfuð þitt kossum. Núna talar hann um að amma Inga sé komin upp til Guðs og sé orðin engill.
Góðmennska þín og næmni var eftirtektarverð. Þú kenndir okkur systkinunum góð gildi og að bera virðingu fyrir náunganum. Þú máttir ekki neitt aumt sjá og tókst undir þinn verndarvæng iðulega fólk sem átti á brattann að sækja. Veittir því stuðning og varst til staðar. Þú sýndir fólki einlægan áhuga. Við höfum fundið sterkt fyrir því eftir að þú kvaddir hversu mikil áhrif þú hafðir á fólk í kringum okkur. Þín er sárt saknað elsku mamma.
Þú varst einstaklega næm á líðan annarra, sérstaklega þeirra sem næst þér stóðu. Þau voru ófá skiptin sem þú hringdir í mig og sagðist finna að mér liði illa þegar ég var að reyna að hlífa þér. Alltaf urðu vandamálin minni eftir að ég ræddi við þig og mér leið strax betur. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig, á nóttu sem degi. Þú varst stolt er ég fór í hjúkrunarfræði og man ég hvað mér fannst oft notalegt að hringja í þig á leiðinni heim eftir erfiða kvöldvakt.
Við héldum upp á þinn síðasta afmælisdag inni á krabbameinsdeild og reyndum að gera það besta úr ömurlegum aðstæðum.
Þér versnaði hratt og kvaddir þú að lokum á líknardeild Landspítalans í faðmi okkar systkina og pabba.
Elsku mamma, elsku ást.
Þín dóttir,
Sigríður Þórdís (Siddý).
Hvað geri ég nú, mamma? Engin orð fá lýst hvað ég sakna þín mikið. Ég trúi því varla að þú sért farin. Lífið er svo hverfult og enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Sorgin er óbærileg og hjartað brotið. Þetta gerðist allt svo hratt, einungis sjö mánuðir og reyndi maður að halda í vonina fyrir hverja meðferð. Best væri að líkja þessari líðan við tilfinningalegan rússíbana, því alltaf héldum við í baráttuvonina með þér. Alveg frá upphafi varst þú ákveðin í að berjast fyrir þig og þína, þér þótti svo vænt um fólkið þitt. Eina skiptið sem ég sá þig tárast var þegar þú opnaðir afmæliskort á afmælisdaginn þinn í febrúar og sagðist ekki vilja missa af okkur. Barátta þín við þennan illvíga sjúkdóm er það erfiðasta sem ég hef þurft að horfa upp á. Þetta fór ekki eins og ég vildi, en ég er þakklát fyrir að við fjölskyldan gátum setið þér við hlið þar til þú tókst þinn seinasta andardrátt, faðmað þig, haldið í höndina þína og sagt þér hve mikið við elskuðum þig. Ég veit þú fannst fyrir okkur líkt og ég veit að nú heyrirðu í mér þegar ég tala við þig.
Ég á erfitt með að sjá fyrir mér líf mitt án þín, alla þá hluti sem þú færð ekki að upplifa og njóta með mér, það stingur í hjartað. Þú varst kletturinn minn, stoð og stytta, besta vinkona, eins konar ráðgjafi. Þegar ég flutti til útlanda var þér svo annt um að ég væri hamingjusöm. Þú varst dugleg að minna mig á í gegnum allt sem ég tók mér fyrir hendur að ég gæti miklu meir en ég héldi. Þú hafðir alltaf óbilandi trú á mér í einu og öllu og tókst það ósjaldan fram hvað þú dáðist að mér.
Ég hef ekki tölu á símtölum okkar kvölds og morgna spjallandi um allt og ekkert. Þú sýndir öllu áhuga og maður gat spurt þig um hvað sem er. Þú hafðir sérstakt auga fyrir því hvernig hlutir eiga að vera og hafðir mikinn áhuga á að gera fallegt heima fyrir og unun af því að finna hluti til að skreyta og fegra heimilið mitt. Ávallt gat ég spurt þig um skoðun á fatavali þegar maður var óviss og búist við hreinskilnu svari. Ég mun sakna þess mest að geta ekki hringt fyrst í þig þegar eitthvað ánægjulegt gerist eða mér líður illa og upplifað mikinn létti í kjölfarið.
Þú varst svo næm á tilfinningar annarra og gast lesið auðveldlega í líðan fólks, það fundu allir fyrir þinni fallegu orku sem streymdi frá þér. Alltaf varstu fyrst til að rétta hjálparhönd og gefa þér tíma til að hlusta, sama hver átti í hlut, enda minnast þín margir með þeim orðum. Þú kenndir mér svo margt með hjálpsemi þinni, endalausri ást og styrk þínum sama hvað bjátaði á, vera samkvæm sjálfri mér, þolinmóð og gefast aldrei upp.
Ég mun halda áfram að tileinka mér þín fallegu gildi og lífsspeki í gegnum lífið og ég mun spyrja sjálfa mig í framtíðinni hvað myndi mamma gera eða segja við þessar aðstæður. Engin getur tekið þinn stað, ég mun aldrei sætta mig við að missa þig en ég reyni að læra að lifa með því. Ég finn huggun í því að vita að þú verður alltaf stór hluti af mér og öllu sem ég geri. Takk fyrir allt elsku engillinn minn.
Þín dóttir,
Signý.
Elsku Inga, mín kveðjustundin er komin. Kveðjustundin sem ég vissi að stefndi í en samt var fréttin um fráfall þitt eins og högg í magann. Ég sit og minningabrotin af okkar samveru hrannast upp og tárin trítla niður kinnarnar.
Þú hefur verið partur af lífi mínu frá því ég var fjögurra ára og þú varst ekki bara „mágkona mömmu“, þú varst líka ein af mínum betri vinkonum. Vinátta okkar þróaðist og varð dýpri síðustu ár og voru þau ófá trúnaðarsímtölin. Það brást nánast aldrei að ef ég átti erfitt eða var eitthvað að kljást við erfið verkefni að þá birtust skilaboð frá þér, „Lóa mín er eitthvað að?“ Slík var tengingin. Verð að viðurkenna að stundum varð ég pínu pirruð yfir að fá þessi skilaboð því ég var ekki alltaf tilbúin að ræða erfiðleikana en að símtali loknu leið mér alltaf betur.
Í samtölum okkar barst talið oft að börnunum þínum og barnabörnum, þú varst stolt af þeim öllum og fylgdist með þeim og stóðst þétt við bak þeirra í lífsins verkefnum. Það var svo gaman að heyra þig tala um þau og dást að hópnum þínum enda ríkidæmi mikið í afkomendahópnum.
Hjarta þitt var stórt og þegar von var á Mána mínum í heiminn talaðir þú um að þér liði eins og von væri á barnabarni og þegar við Erlingur vorum á fæðingardeildinni sast þú spennt heima að bíða eftir fréttum.
Hjarta mitt er brotið og ég er ekki enn þá búin að átta mig á því að ég geti ekki lengur sent skilaboð til þín eða hringt þegar ég þarf að segja frá einhverju. Ég trúi því að nú líði þér betur eftir erfið veikindi síðustu mánuði en eigingjarni hlutinn af mér neitar að sætta sig við að þú sért farin.
Elsku Bergur, Edda, Siddý, Oliver, Tinna, Signý og fjölskyldur, sorgin er stór og með tímanum mun hún verða bærilegri en minningin um elsku Ingu okkar mun lifa með okkur öllum.
Lóa Sævarsdóttir.
Elsku Inga.
Í dag er komið að kveðjustund. Stund sem við öll höfum kviðið fyrir er runnin upp og það er svo ótrúlega sárt.
Þú skilur eftir þig fallega og yndislega fjölskyldu sem á svo um sárt að binda núna. Fjölskyldu sem ég hef verið hálfpartinn hluti af í 38 ár í gegnum hana elsku Siddý mína.
Minningarnar eru margar, síðan átta ára stelpuskottið fluttist á Arnarhraunið og varð lítill heimalningur hjá þér og Bergi. Það var nóg um að vera á stóru heimili en alltaf var einhvern veginn pláss fyrir fleiri og allir velkomnir.
Þú varst einstaklega góð kona með undurfallega nærveru og ég veit að þú hjálpaðir mörgum, hlustaðir og gafst góð ráð, þar á meðal mér. Þú varst einkar glæsileg og falleg og svo góð í gegn. Þú vildir öllum vel og máttir ekki neitt aumt sjá.
Við æskuvinkonurnar erum allar sammála um að þú varst ekki bara mamma Siddýjar heldur svo mikil vinkona okkar allra.
Takk elsku Inga mín fyrir allar samverustundirnar, fyrir alla hlýjuna og væntumþykjuna í minn garð. Takk fyrir öll samtölin og faðmlögin. Þessar stundir mun ég ávallt geyma í hjarta mínu og engu gleyma.
Ég á eftir að sakna þín mjög mikið og ég lofa að halda vel utan um fólkið þitt.
Guð blessi minningu þína elsku Inga og ég kveð þig með þínum orðum, takk ást.
Anne Birgitte Johansen.
Elsku Inga, mamma Tinnu æskuvinkonu okkar, er fallin frá eftir skammvinn og erfið veikindi. Við höfum þekkt hana í 35 ár og minnumst sérstaklega einstakrar hlýju og væntumþykju sem hún sýndi okkur alla tíð. Hún fylgdist alltaf vel með okkur stelpunum í gegnum Tinnu, börnunum okkar, vinnu og lífinu öllu og Tinna sagði okkur reglulega að mamma hennar væri að spyrja um okkur.
Við vitum að fráfall Ingu er mikið högg fyrir fjölskylduna og hversu nánar þær mæðgur, Tinna okkar og mamma hennar, voru. Þá var hjónaband Ingu og Bergs einstakt og hann er að missa lífsförunaut sinn. Sorgin er mikil og fallegar minningar margar og góðar. Nærvera Ingu var einstaklega ljúf og við minnumst hennar af mikilli væntumþykju.
Elsku Tinna okkar, Bergur, Edda, Siddý, Oliver og Signý, tengdabörn og ömmubörn. Við samhryggjumst ykkur af öllu hjarta. Megi minning um yndislega eiginkonu, mömmu, tengdamömmu og ömmu lifa um alla tíð.
Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg;
en anda sem unnast
fær aldregi
eilífð að skilið.
(Jónas Hallgrímsson)
Við erum með ykkur í huga og hjarta. Ykkar
Guðbjörg (Gugga), Helga og Sigríður (Sirrý).