Kristján Örn Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, átti stórleik með Skanderborg í gærkvöld þegar liðið tapaði 31:30 fyrir Ringsted í dönsku úrvalsdeildinni. Kristján skoraði níu mörk og átti þrjár stoðsendingar

Kristján Örn Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, átti stórleik með Skanderborg í gærkvöld þegar liðið tapaði 31:30 fyrir Ringsted í dönsku úrvalsdeildinni. Kristján skoraði níu mörk og átti þrjár stoðsendingar. Liðið er áfram í þriðja sæti þrátt fyrir tapið og er á leið í úrslitakeppnina um danska meistaratitilinn.

Stefán Teitur Þórðarson, landsliðsmaður í knattspyrnu, skoraði í gærkvöld sitt þriðja mark fyrir Preston í ensku B-deildinni í vetur. Hann kom liðinu í 2:1 á 72. mínútu gegn Cardiff á heimavelli en það dugði þó ekki til sigurs og leikurinn endaði 2:2.

Völsungur sigraði Aftureldingu, 3:1, í oddaleik í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í blaki á Húsavík í gærkvöld. Það verða því norðanliðin KA og Völsungur sem leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn og einvígið hefst í KA-heimilinu á laugardaginn kemur.

Birmingham City, sem Willum Þór Willumsson og Alfons Sampsted leika með, tryggði sér í gærkvöld sæti í ensku B-deildinni í knattspyrnu eftir eins árs fjarveru. Birmingham vann Peterborough 2:1 á útivelli og þótt liðið eigi enn eftir sex leiki er Wrexham eina liðið sem getur náð því að stigum. Birmingham er með 95 stig, Wrexham 81 og Wycombe 78 stig í þriðja sætinu.

Aron Sigurðarson, fyrirliði knattspyrnuliðs KR, var í gær úrskurðaður í tveggja leikja bann af aganefnd KSÍ. Hann fékk beint rautt spjald fyrir að slá til Andra Fannars Stefánssonar, leikmanns KA, í fyrstu umferð Bestu deildarinnar á sunnudaginn. Aron missir af leikjum KR við Val og FH. Hjalti Sigurðsson úr KR og Gylfi Þór Sigurðsson úr Víkingi fengu báðir eins leiks bann vegna rauðra spjalda.

Knattspyrnumaðurinn Aron Elís Þrándarson leikur líklega ekki meira með Víkingi á þessu tímabili en í gær kom í ljós að hann sleit krossband í hné í leiknum við ÍBV á mánudaginn. Það er þó ekki alveg öruggt því um aftara krossband er að ræða og því er mögulegt að hann geti sleppt skurðaðgerð og orðið heill á þremur til fjórum mánuðum.