Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka. — Morgunblaðið/Hallur Már
Mikil óvissa er uppi í heimshagkerfinu og á mörkuðum um þessar mundir. Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir að það megi kannski segja að tímasetningin á umrótinu vegna tolla Trump-stjórnarinnar sé heppileg fyrir Seðlabankann að…

Mikil óvissa er uppi í heimshagkerfinu og á mörkuðum um þessar mundir. Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir að það megi kannski segja að tímasetningin á umrótinu vegna tolla Trump-stjórnarinnar sé heppileg fyrir Seðlabankann að því leytinu að næsta vaxtaákvörðun bankans er ekki fyrr en 21. maí.

„Þá eru þokkalegar líkur á að rykið verði farið að setjast varðandi alþjóðlegt tollaumhverfi og fyrstu áhrif á hagkerfið hér sem erlendis farin að birtast, til dæmis varðandi komandi háannatíma ferðaþjónustunnar og útflutning okkar helstu útflutningsvara. Ekkert bendir sérstaklega til þess að peningastefnan þurfi að bregðast við fyrir þann tíma,“ segir Jón Bjarki.

Hann bendir á að það séu allgóðar líkur á að við sleppum betur varðandi neikvæð verðbólguáhrif en til dæmis Bandaríkin. Stærstur hluti af okkar neysluvörum kemur frá Evrópu og Asíu. Svo lengi sem allsherjartollastríð brýst ekki út gæti verðlækkun á eldsneyti og ýmsum hrávörum, sem við erum þegar farin að sjá merki um á alþjóðamörkuðum, vegið gegn hærra verði á bandarískum vörum vegna tolla þeirra á aðföngum.

„Það á auðvitað mikið eftir að gerast í þessum tollamálum á komandi vikum og næstu skref í viðbrögðum annarra ríkja – og eins það hvort Bandaríkin bakka að hluta með nýtilkynnta tolla – ráða miklu um hvort efnahagshorfur almennt versna verulega eða hóflega. En ég tel eftir sem áður góðar líkur á því að vaxtalækkunarferlið haldi áfram í maí og að vextir verði lækkaðir nokkuð til viðbótar á seinni helmingi ársins,“ segir Jón Bjarki. magdalena@mbl.is