Breytingar Ingimar Jónsson forstjóri Pennans við leikföng og barnabækur sem flutt hafa verið til í Austurstræti.
Breytingar Ingimar Jónsson forstjóri Pennans við leikföng og barnabækur sem flutt hafa verið til í Austurstræti. — Morgunblaðið/Karítas
Miklar breytingar hafa verið gerðar á verslunum Pennans/Eymundsson í miðborg Reykjavíkur að undanförnu. Frekari breytingar eru fyrir dyrum hjá bóksalanum og stórtæk uppbygging á landsbyggðinni. Endurbætur á verslun Pennans í Austurstræti hafa ekki farið fram hjá viðskiptavinum

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Miklar breytingar hafa verið gerðar á verslunum Pennans/Eymundsson í miðborg Reykjavíkur að undanförnu. Frekari breytingar eru fyrir dyrum hjá bóksalanum og stórtæk uppbygging á landsbyggðinni.

Endurbætur á verslun Pennans í Austurstræti hafa ekki farið fram hjá viðskiptavinum. Barnabækur og leikföng sem voru í kjallara verslunarinnar hafa nú verið flutt upp á fjórðu hæð þar sem hið vinsæla kaffihús er að finna. „Þessar vörur hafa verið í kjallaranum síðan haustið 1998. Fram að því var kjallarinn bara geymsla,“ segir Ingimar Jónsson forstjóri Pennans.

Ákváðu að loka kaffihúsinu

Hann segir að breytingarnar hafi mælst vel fyrir og að mikið líf sé nú á fjórðu hæðinni. Ritföng sem voru á millihæð verða færð niður í kjallara en á millihæðinni verður í staðinn blönduð deild með gjafavörum. Annað er óbreytt, að sögn Ingimars, en fyrsta hæðin, sem gengið er inn á, verður í framtíðinni meira helguð árstíðabundnum vörum.

En þótt kaffihúsið í Austurstræti lifi góðu lífi hefur kaffihúsinu sem var í versluninni á Skólavörðustíg nú verið lokað. Það var gert samhliða öðrum framkvæmdum þar. „Það var orðið löngu tímabært að skipta þar um gólfefni og fleira. Við tókum ákvörðun um að loka kaffihúsinu. Sá rekstur er bara þungur,“ segir Ingimar.

Kaffihúsið í verslun Pennans á Akureyri fær nýja rekstraraðila á næstunni. Ingimar upplýsir að nýlega hafi verið gerður samningur við eigendur Kaffi Lystar á Akureyri um að taka að sér rekstur kaffihússins í versluninni. „Á Kaffi Lyst er aldeilis ljómandi starfsemi og það verður gott að fá Reyni Grétarsson og hans fólk inn til okkar. Við munum hins vegar halla okkur að því sem við kunnum betur.“

Verslun Pennans á Laugavegi 77 verður lokað á næstu vikum. „Þar er leigusamningur okkar útrunninn og Reitir ætla að breyta efri hæðunum í íbúðir. Við höfum ekki áhuga á að vera þar meðan á þeim framkvæmdum stendur.“

Stærri verslun á Selfossi

Ingimar segir að lokunin á Laugavegi haldist í hendur við breytingar á Selfossi. Þar ætlar Penninn að opna nýja og stærri verslun í lok maí og verða innréttingar og vörur af Laugavegi færðar þangað. „Við opnuðum litla búð í nýja miðbænum árið 2023 og reiknuðum með að fá stærra pláss þar til framtíðar. Það hefur hins vegar dregist og þegar okkur bauðst að fá 350 fermetra pláss í nýju húsi við Larsenstræti ákváðum við að stökkva á það og loka litlu búðinni. Nýja verslunin verður á mjög öflugu verslunarsvæði þar sem Bónus, Byko og Húsasmiðjan eru meðal annars.“

Framkvæmdir í Vík í Mýrdal

Nú standa yfir framkvæmdir við byggingu nýrrar verslunar Pennans í Vík í Mýrdal. Húsið verður reist í haust og kveðst Ingimar vona að hægt verði að opna seint í haust eða í byrjun næsta árs. „Þetta verður níunda verslun okkar úti á landi ef verslunin í Leifsstöð er talin með, auk sjö verslana á höfuðborgarsvæðinu. Við erum í sóknarhug,“ segir Ingimar.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon