Elliðaárvogur Ártúnshöfðabryggjan hefur verið skermuð af og þarna kemur landfylling undir Bryggjuhverfi vestur. Mannvirki á svæðinu verða rifin en sementstankarnir munu standa áfram.
Elliðaárvogur Ártúnshöfðabryggjan hefur verið skermuð af og þarna kemur landfylling undir Bryggjuhverfi vestur. Mannvirki á svæðinu verða rifin en sementstankarnir munu standa áfram. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Uppbygging íbúðarhúsnæðis í Bryggjuhverfi við Elliðaárvog heldur áfram. Gömul mannvirki sem tengjast atvinnustarfsemi fyrra ára týna tölunni og nú hefur gömul höfn, Ártúnshöfðahöfn, verið skermuð af og skip munu ekki oftar leggjast þar að bryggju

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Uppbygging íbúðarhúsnæðis í Bryggjuhverfi við Elliðaárvog heldur áfram.

Gömul mannvirki sem tengjast atvinnustarfsemi fyrra ára týna tölunni og nú hefur gömul höfn, Ártúnshöfðahöfn, verið skermuð af og skip munu ekki oftar leggjast þar að bryggju. Höfnin var byggð upp úr miðri síðstu öld og fyrst og fremst notuð af Sementsverksmiðju ríkisins og Björgun ehf.

Á þessum fyrrverandi athafnasvæði er nú verið að byggja upp það hverfi sem nefnist Bryggjuhverfi vestur. Það er eins og nafnið bendir til vestan við Bryggjuhverfið sem byggst hefur upp á undanförnum áratugum.

Bryggjuhverfi vestur er að stórum hluta byggt á landfyllingum. Áður en framkvæmdir geta hafist þarf að fergja landið með þungu hlassi, t.d. stóru grjóti, svo það sígi og verði byggingarhæft.

Svæðinu er skipt upp í reiti. Samkvæmt upplýsingum skrifstofu framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg er uppbygging hafin á reit G (Dverghamrar er uppbyggingaraðili). Fergingu er lokið á reitum D og J og gert ráð fyrir að þær verði byggingarhæfar í haust eða vetur.

Unnið er að landfyllingum á reitum M og N og fergingu annarra reita á svæðinu (reitir C, E, H, I, K og L). Gert er ráð fyrir að fergingu ljúki um áramótin 2026-2027. Leggja þarf fráveitulagnir til vesturs og tengja við veitukerfin í Vogahverfi.

Samkvæmt skipulagsuppdráttum heita göturnar sem nú er verið að leggja drrög að á hafnarsvæðinu Beimabryggja, Buðlabryggja, Endilsbryggja og Leifnisbryggja auk þess sem Breiðhöfði á að framlengjast. Meginhluti þess efnis sem notað er í fergingar á hafnarsvæðinu er aðflutt burðarhæft efni úr gatna- og lóðaframkvæmdum í Reykjavík, um 20.000 m3 útvegaði Björgun eftir útboð en afgangurinn eru efnishaugar sem voru á svæðinu þegar Reykjavíkurborg tók við því. Gert er ráð fyrir að nota efnið síðar í landfyllingar í 2. og 3. áfanga Bryggjuhverfis vestur.

Sement í Ártúnshöfða

Sementsverksmiðja ríkisins á Akranesi hóf starfsemi í júní 1958. Helsti markaður fyrir sement var á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirtækið haslaði sér völl í Ártúnshöfða þar sem byggðar voru vöruskemma og söluskrifstofa. Þessi mannvirki verða rifin áður en uppbygging íbúðahverfis hefst.

Byggð var höfn í Ártúnshöfða og þangað flutt sement í 50 kílóa pokum. Daglegar skipaferðir voru frá Akranesi að Ártúnshöfða.

Árið 1967 réðst Sementsverksmiðjan í það stórvirki að reisa tvo 45 metra háa sementstanka í Ártúnshöfða. Þetta var mikil framkvæmd og voru turnarnir steyptir með skriðmótum sem lyft var með svokölluðum glussatjökkum. Unnið var allan sólarhringinn og tók verkið 11 daga.

Þegar turnarnir/tankarnir voru tilbúnir var laust sement flutt með sérútbúnu skipi. Skeiðfaxa, og því dælt upp í tankana. Sementinu var síðan dreift á höfuðborgarsvæðinu með sérútbúnum bílum. Þessi starfsemi lagðist síðan af og hafa tankarnir ekki verið í notkun í áraraðir. Þeir fá að standa áfram og er ætlað nýtt hlutverk.

Fyrirtækið Björgun var stofnað 11. febrúar 1952. Reksturinn snerist í upphafi um björgun strandaðra skipa og er nafn félagsins þannig tilkomið.

Árið 1954 eignaðist Björgun sitt fyrsta dæluskip. Félagið eignaðist land í Ártúnshöfða og kom upp aðstöðu til að taka á móti steinefni sem skip félagsins dældu upp af hafsbotni. Þetta efni var flokkað og m.a. notað til íblöndunar í steypuframleiðslu.

Björgun seldi Reykjavíkurborg allar eignir sínar í Ártúnshöfða og hætti þar starfsemi haustið 2020. Búið er að fjarlægja allan búnað fyrirtækisins en eftir stendur skrifstofu- og verkstæðisbygging, sem verður rifin. Björgun hefur byggt upp nýja aðstöðu í Álfsnesi, gegnt Þerney.

Loks má nefna malbikunarstöðina Höfða við Sævarhöfða. Fyrirtækið reisti tanka á lóð sinni til að geyma bik. Sérútbúin skip lögðust að Ártúnshöfðabryggju og var bikinu dælt í tankana. Þessir tankar eru ekki lengur notaðir.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson