Hylltur Mikill mannfjöldi fagnaði Friðriki Ólafssyni þegar hann kom heim frá skákmótinu í Hastings í janúar 1956.
Hylltur Mikill mannfjöldi fagnaði Friðriki Ólafssyni þegar hann kom heim frá skákmótinu í Hastings í janúar 1956. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skákferill Friðriks Ólafssonar, sem lést 4. apríl síðastliðinn, hófst þegar hann var 11 ára gamall árið 1946. Ekki var gert ráð fyrir því að svo ungir menn gætu tekið þátt skákmótum á þeim árum. Leyfi til þátttöku fékkst þó og Friðrik hafði alltaf gaman af að rifja upp þá sögu

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Svipmynd

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Skákferill Friðriks Ólafssonar, sem lést 4. apríl síðastliðinn, hófst þegar hann var 11 ára gamall árið 1946. Ekki var gert ráð fyrir því að svo ungir menn gætu tekið þátt skákmótum á þeim árum. Leyfi til þátttöku fékkst þó og Friðrik hafði alltaf gaman af að rifja upp þá sögu. Hann var alls ekki illa undirbúinn þó að ungur væri að árum og hafði t.d. kynnt sér skákir á hina fræga AVRO-móti sem fram fór í Hollandi árið 1938.

Fljótlega kom í ljós hjá honum góð stöðutilfinning og hinn dínamíski skákstíll hans, sem í erlendum blöðum og tímaritum var stundum líkt við kraftana í náttúru Íslands, kom snemma fram. Þáttaskil á ferli hans urðu um páskaleytið 1950 þegar hann hélt í fyrstu keppnisferð sína til útlanda.

Skáksambandi Íslands hafði borist boð um að senda keppanda á unglingamót í Birmingham. Friðrik fékk pláss um borð í nýsköpunartogaranum Agli Skallagrímssyni sem sigldi með farm til Grimsby. Hann var ekki orðinn sá heimsborgari sem síðar varð, og þar sem fyrirsjáanlegt var að hann þyrfti að skipta um lest á leið til áfangastaðar lét ritarinn hjá Rinovia Steam Fishing Company, ungfrú Peggy Smith, honum í té orðsendingu sem Friðrik geymdi alla tíð. Þar stóð m.a.: „Við myndum meta það mikils ef þið getið með einhverjum hætti aðstoðað handhafa þessa bréfs að komast til borgarinnar Birmingham en þar mun vinur hans bíða eftir honum á áfangastað. Nafn drengsins er Friðrik Ólafsson...

Því hafa sumir haldið því fram að þarna hafi Friðrik í raun tekið þjóðina með sér í sitt langa og skemmtilega skákferðalag. Baksíðufrétt Morgunblaðsins styður þetta: „Meðal farþega með Gullfaxa í gærkveldi frá Prestvík, var Friðrik Ólafsson hinn 15 ára gamli skákmaður, er þátt tók í ungmennaskákmóti suður í Birmingham.

Nokkrum mánuðum eftir mótið í Birmingham sigraði hann í meistaraflokki á Skákþingi Norðurlanda sem haldið var í Þjóðminjasafninu í Reykjavík. Hann var yngsti keppandi mótsins en þegar orðinn einn af bestu skákmönnum þjóðarinnar. Íslandsmeistari varð hann í fyrsta sinn 17 ára gamall árið 1952.

En stóra stökkið kom 1953 þegar hann varði Íslandsmeistaratitilinn, varð Norðurlandameistari um sumarið og hafnaði í 3. sæti á heimsmeistaramóti unglinga. Á eftir fylgdu merk afrek en hápunktinum var náð er hann sigraði á alþjóðlega mótinu í Hastings í ársbyrjun 1956. Hann sneri heim sannkölluð þjóðhetja og fékk móttökur eftir því. Það mátti öllum ljóst vera að Friðrik var búinn að hasla sér völl sem einn af allra bestu ungu skákmönnum heims.

Gríðarlegur áhugi fylgdi einvígi Friðriks og Bents Larsen um Norðurlandameistaratitilinn sem fram fór nokkrum vikum síðar í Sjómannaskólanum í Reykjavík. Friðrik var ekki alveg kominn niður á jörðina eftir Hastings-mótið og tapaði, 3½:4½.

Hann bar þó höfuð og herðar yfir Larsen á þessum árum. Það kom berlegast í ljós á millisvæðamótinu Í Portoroz 1958 þar sem Friðrik varð í 5.–6. sæti ásamt Bobby Fischer en báðir unnu þeir sér þátttökurétt í Áskorendamótinu sem fram fór á þrem stöðum í Júgóslavíu ári síðar. Mótið stóð í tvo mánuði. Mikael Tal var óstöðvandi á þessum árum, varð efstur með glæsibrag og heimsmeistari ári síðar.

Valinn í heimsliðið

Friðrik dró sig að hlé að nokkru leyti eftir millisvæðamótið í Stokkhólmi 1962. „Mótin eru oft mjög löng og maður er fjarverandi frá fjölskyldu sinni kannski mánuðum saman,“ sagði hann síðar í viðtali. Vorið 1968 lauk hann laganámi og starfaði við dómsmálaráðuneytið eftir það og keppti reglulega fyrir Stjórnarráðið í Skákkeppni stofnana.

Á þessu tímabili og fram til 1974, þegar hann tók aftur upp þráðinn sem atvinnumaður, tefldi hann hann alltaf af og til á sterkum mótum og náði oftast góðum árangri. Hann varð í 3.–4. sæti á Piatigorsky-mótinu í Los Angeles 1963 á eftir nýbökuðum heimsmeistara Tigran Petrosjan og Paul Keres, vann Reykjavíkurskákmótið 1966 og varð skákmeistari Norðurlanda í annað sinn 1971 og efstur á Reykjavíkurmótinu 1972 ásamt Hort og Gheorghiu.

Þá var hann valinn í heimsliðið sem tefldi gegn úrvalsliði Sovétríkjanna í Belgrad 1970 og átti í harðri baráttu við Viktor Kortsnoj um efsta sætið í Wijk aan Zee 1971.

Eftir einvígi Fischers og Spasskís í Reykjavík 1972 skrifaði hann vandaða bók um viðburðinn ásamt Freysteini Jóhannssyni, fyrrum fréttastjóra Morgunblaðsins, sem fyllti hann endurnýjuðum áhuga á skákinni.

Atvinnumaður á ný – framboð til forseta FIDE

Stærsti sigur Friðriks á tímabilinu 1974–1978 var í Wijk aan Zee 1976 þegar hann varð efstur ásamt Júgóslavanum Ljubojevic. Síðar um árið varð hann efstur á Reykjavíkurskákmótinu ásamt Jan Timman.

Hann var einn fjögurra keppenda á 75 ára afmælismóti Max Euwe sem fram fór í Van Gogh-safninu í Amsterdam en þar sigraði heimsmeistarinn Anatolí Karpov. Honum var boðin þátttaka í sterkasta móti ársins 1977, fyrsta Tilburg-mótinu í Hollandi.

Um mitt það sumar ákvað hann að bjóða sig fram til embættis forseta FIDE, en Max Euwe hafði þá lýst því yfir að hann sæktist ekki eftir endurkjöri. Á þingi FIDE í Buenos Aires haustið 1978 var Friðrik kjörinn forseti FIDE eftir spennandi kosningabaráttu.

Forsetatíð hans lauk á þingi FIDE í Luzern í Sviss haustið 1982 en Varsjárbandalagsþjóðirnar, sem höfðu stutt Friðrik í seinni umferð kosninganna í Buenos Aires, sneru baki við honum. Almennt er talið að sú ákvörðun Friðriks að fresta heimsmeistaraeinvígi Karpovs og Kortnojs í Merano á Ítalíu haustið 1981 um einn mánuð, „... svo að Sovétmönnum gæfist ráðrúm til að leysa fjölskyldumál áskorandans,“ eins og það var orðað, hafi valdið því að Sovétmenn snerust á sveif með Filippseyingnum Campomanes.

Það var eins og tveir ólíkir menningarheimar skyllu þarna saman. Í nýlegri bók, The KGB Plays Chess, ritaðri að stærstum hluta af gömlum andófsmanni og fyrrverandi Sovétþegni, stórmeistaranum Boris Gulko, er staðhæft að Campo hafi verið á mála hjá KGB og að stuðningur við hann hafi komið frá æðstu stöðum. Um það leyti sem einvígið átti að hefjast hafði eiginkona Kortsnojs búsett í Leníngrad ekki fengið að yfirgefa Sovétríkin og sonur þeirra, Igor, sat í fangelsi í Síberíu fyrir að neita að gegna herþjónustu. Niðurstaðan varð sú að þau fengu fararleyfi vorið 1982.

Stuðningsmenn Friðriks efldu hann til dáða

Ég er sannfærður um að Friðriki hafi alltaf þótt best að tefla á Íslandi. Og hann naut sín líka vel í Hollandi. Það virtist efla hann til dáða að tefla fyrir framan stuðningsmenn sína.

Mér er t.d. minnisstætt þegar við sátum þarna nokkrir ungir og lítt reyndir á Reykjavíkurmótinu 1978, ég, Margeir Pétursson og Jón L. Árnason, og vorum að glíma við nokkra stórlaxa skákarinnar, menn á borð við Larsen, Polugajevskí, Hort, Miles og Browne auk íslensku stórmeistaranna. Skyndilega brutust út gífurleg fagnaðarlæti í Kristalsal Hótels Loftleiða. Friðrik hafði unnið Bent Larsen með leifturárás. Sannkölluð flugeldasýning.

Löngu síðar ræddum við um þessa eitilhörðu stuðningsmenn Friðriks sem aldrei létu sig vanta þegar hann sat að tafli. Mátti ekki alveg kalla þessa menn „Hulduher Friðriks“? Og hverjir voru þetta? Nefndir voru Jakob Hafstein, Magnús Sigurjónsson, Bergur Pálsson, Kristinn Bergþórsson, Guðmundur Jaki og Albert Guðmundsson og þeir voru mun fleiri.

Galdurinn við vinsældir Friðriks lá í því að þegar mikið lá við náði hann að byggja upp mikla spennu í skáksalnum en hann var aldrei að flýta sér, heldur þvert á móti. Þá tók tímahrakið við og allt gat gerst eins og dæmin sanna.

Nokkrir snjallir leikir

Ekki verður skilið við Friðrik Ólafsson án þess að bregða upp stöðum úr skákferli hans:

Friðrik hóf millisvæðamótið í Portoroz með því að vinna Szabo, besta Ungverjann, með glæsibrag. Í 6. umferð mætti hann heimamanninum Gligoric og komst með sigri í efsta sætið. En hann fékk vonda stöðu eftir byrjunina og lenti síðan í heiftarlegu tímahraki. Fyrstu tímamörk voru við 40. leik. Allt benti til þess að Gligoric myndi vinna en hann gleymdi að „lofta út“. Þegar hér var komið sögu taldi hann sig enn vera á sigurbraut og lék …

Millisvæðamótið í Portoroz 1958:

Svetozar Gligoric – Friðrik

39. Dxc4

Leppar hrókinn. En þá kom …

39. … Dc6! 40. Df1 Dc2!

– óverjandi hótun, 41. … Hd1. Gligoric gafst upp.

Bent Larsen og Friðrik höfðu marga hildi háð er þeir mættust undir lok millisvæðamótsins í Portoroz. Staða Friðriks eftir byrjunina gaf ekki tilefni til bjartsýni og Bent, sem sjaldan var spar á yfirlýsingar, hafði heitið því að vinna okkar mann. En þegar fram í sótti sneri Friðrik taflinu við og lék nú …

Millisvæðamótið í Portoroz 1958:

Bent Larsen – Friðrik

31. … e2 32. Kf2 Bc5+! 33. Ke1 Hd8!

– og Larsen gafst upp.

Friðrik Ólafsson tefldi 12 sinnum við Bobby Fischer og vann tvisvar, fyrst í Portoroz og aftur í Bled:

Áskorendamótið í Bled 1959:

Friðrik – Bobby Fischer

37. Ha1! Df4+ 38. Dxf4 gxf4 39. Hf1 d4 40. cxd4 Kg6 41. Hxf4 Bf5 42. Hf3 Kxf6 43. He3 Kg5 44. g3 Bd3 45. d5 Bf5 – og Fischer gafst upp.

Friðrik mætti „töframanninum frá Riga“ fyrst á Stúdentamótinu í Reykjavík sumarið 1957, nánar tiltekið í Austurbæjarskóla. Skákinni lauk með jafntefli. Í Portoroz árið síðar átti Friðrik unnið tafl en Tal slapp með jafntefli. Á næstu mótum var Tal illviðráðanlegur og vann Friðrik fimm sinnum. En Friðrik náði fram hefndum um síðir:

Minningarmótið um Aljekín, Moskva 1971:

Friðrik – Mikael Tal

Friðrik lék síðast 21. He1-e4. Staðan er tiltölulega jöfn en þarna leynist gildra. Friðrik stóð upp frá borðinu og gekk út í sal. Eftir dágóða stund bárust frá áhorfendaskaranum einkennileg andvörp og kliður mikill. Friðrik sneri til baka og sá að Tal hafði leikið…

21. …Hc8 og svarið kom um hæl,

22. Dxc8+! – og Tal gefur því 22. … Bxc8 er svarað með 23. He8 mát.

Alþjóðamótið í Las Palmas 1975:

Mikael Tal – Friðrik

Leikfléttur sem byggjast á máti í borði eru margvíslegar en sú sem Friðrik töfraði fram gegn Tal er með þeim eftirminnilegri:

22. … Df4! 23. He7

Snjall mótleikur en dugar skammt.

23. … Hf8! 24. Da5 Hd1+ 25. Re1 Dg5!

– Drottningin á a5 hefur „of mikið að gera“ og fær ekki haldið stöðunni saman. Tal gafst upp.

Friðriki fannst ekki leiðinlegt að tefla í sólinni á Kanaríeyjum og þar fæddist þessi snotra flétta:

Alþjóðamótið í Las Palmas 1978:

Orestes Rodriguez – Friðrik

26. … Dg2+! – og Perúmaðurinn gafst upp því að eftir 27. Hxg2 kemur 27. … Rf3+ ásamt 28. … Hd1+ og mátar.

Höf.: Helgi Ólafsson