Á uppleið Kvikmyndagerðarkonan Gunnur Martinsdóttir Schlüter hefur sópað að sér verðlaunum síðustu misseri.
Á uppleið Kvikmyndagerðarkonan Gunnur Martinsdóttir Schlüter hefur sópað að sér verðlaunum síðustu misseri. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kvikmyndahátíðin Stockfish er nú haldin í tíunda sinn og nær hápunkti um helgina. Meðal þeirra verðlauna sem veitt verða eru Evu Maríu Daniels-verðlaunin. Þetta er í annað sinn sem þau eru veitt en handhafi þeirra er Gunnur Martinsdóttir Schlüter

Viðtal

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Kvikmyndahátíðin Stockfish er nú haldin í tíunda sinn og nær hápunkti um helgina. Meðal þeirra verðlauna sem veitt verða eru Evu Maríu Daniels-verðlaunin. Þetta er í annað sinn sem þau eru veitt en handhafi þeirra er Gunnur Martinsdóttir Schlüter. Síðustu ár hafa verið viðburðarík í lífi Gunnar. Hún hefur sópað að sér verðlaunum og viðurkenningum, nú síðast sem uppgötvun ársins á Edduverðlaununum. Gunnur vinnur þessa dagana að nýrri stuttmynd og leggur drög að sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd auk þess sem hún hefur tekið að sér minni leikhlutverk.

Evu Maríu Daniels-verðlaunin eru veitt til að heiðra minningu Evu Maríu, kvikmyndaframleiðanda sem lést aðeins 43 ára að aldri árið 2023 eftir langvarandi veikindi. Eva María hafði náð langt í sínu fagi og var verðlaunum komið á koppinn til að hvetja ungt fólk áfram í kvikmyndaheiminum. Gunnur hlaut verðlaunin í fyrra fyrir stuttmynd sína Fár sem hún skrifaði, leikstýrði og lék aðalhlutverkið í. Hún segir í viðtali við Morgunblaðið að verðlaunin hafi verið afar kærkomin. Áður hafði hún hlotið sérstaka viðurkenningu í flokki stuttmynda á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Kvikmyndir frekar en leikhús

„Verðlaunin í Cannes komu svo skyndilega og voru stór. Ég var ekki búin að undirbúa neitt fyrir framhaldið svo að ég þurfti smá að leita aftur inn á við til að skanna umheiminn minn og sálarlífið og leita að nýju efni til að halda áfram. Svo komu Evu Maríu Daniels-verðlaunin um ári seinna, frá hátíð í nærumhverfi mínu. Þau urðu mér miklu frekar almenn hvatning og stuðningur til að halda áfram. Þar sem þetta eru líka peningaverðlaun þurfti ég ekki að taka að mér aukavinnu svo að þau gáfu mér rými til að skrifa. Þau voru eins og alda sem rekur mann mjúkt en ákveðið áfram.“

Gunnur hefur alla tíð verið viðloðandi kvikmyndabransann. Hún kemur úr kvikmyndafjölskyldu, foreldrar hennar eru Ásdís Thoroddsen og Martin Schlüter, og vann mikið við tökur á kvikmyndum sem unglingur. Gunnur lék einnig í kvikmyndinni Veðramótum sem frumsýnd var árið 2007. Þó var það ekki svo að leið hennar lægi beint á þær slóðir sem hún fetar núna.

„Ég byrjaði í leiklistarnámi tvítug í Þýskalandi en ég kláraði ekki fyrr en 14 árum seinna. Það var frá Listaháskólanum hér á Íslandi í fyrra því örlögin höguðu því þannig. Í millitíðinni lærði ég leikhúsleikstjórn í Þýskalandi. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig ég endaði í kvikmyndum frekar en leikhúsinu. Þegar ég var í námi var þýska leikhúsið meira að leita að nýjum formum frekar en efniviði til að segja sögur, ydda söguna og að hinu mannlega drama. Ég hef helst áhuga á stöðu manneskjunnar í heiminum og mannlegum breyskleika. Söguformið er almennt sterkara í kvikmyndum, mér líður vel þar – bæði við að skrifa og setja skrifin í myndir.“

Þessa dagana vinnur Gunnur að annarri stuttmynd og segir hún að framleiðendur hennar séu komin nokkuð langt í því ferli. Þau eru þátttakendur í prógrammi sem kallast European Short Pitch sem snýst að hennar sögn um að hjálpa ungu kvikmyndagerðarfólki að finna samframleiðendur í öðrum löndum og búa mögulega til tengslanet sem hægt sé að byggja á í framtíðinni.

Í janúar fór hún á námskeið með leiðbeinanda þar sem handrit myndarinnar var tekið í gegn.

„Ég er á pínu viðkvæmum stað hvað varðar handritið eftir að þessi leiðbeinandi hristi aðeins upp í því. Svo höfum við fylgst með fyrirlestrum í gegnum netið yfir önnina og í vor förum við út til Hollands til að „pitcha“ hugmyndinni á markaðinum á hátíðinni Leiden Shorts. Það að selja myndir í nokkrum setningum er mikilvægt,“ segir Gunnur og hlær en á Stockfish-hátíðinni var einmitt boðið upp á svokallaðan masterklass í umræddum pitch-fræðum sem Gunnur sótti.

Fjölskyldusaga um sundrung

Ferðin til Hollands gæti haft sitt að segja um hvernig gengur að koma umræddri stuttmynd í framleiðslu. „Við vonumst eftir að fá meðframleiðendur. Þetta snýst allt um peninga, að fá fleiri lönd með í bátinn og kannski fleiri sjóði, til að geta fjármagnað þessa mynd og borgað öllum sæmilega.“

Eins og áður var getið segir Gunnur að handrit nýju myndarinnar sé á viðkvæmum stað. Hún fæst þó til að upplýsa að myndin verði nokkru lengri en Fár sem var aðeins fimm mínútur. Sagan snýst um unga stúlku sem á þá barnslegu ósk að sameina sundraða fjölskyldu sína. „Það er hægara sagt en gert þar sem móðirin hefur snúist yfir til öfga íhaldssamra kynjahugmyndafræða eftir að faðirinn yfirgaf þorpið sem þau búa í til að hefja kynleiðréttingarferli. Bróðir hennar er síðan hálfdeyfður af grasreykingum. Sagan gerist á suðupunktinum og nú er ég að vanda mig við að þræða þetta í heildstæða stuttmynd. Ég myndi segja að þetta væri fjölskyldusaga um sundrung og ósk til sameiningar en sagan á að endurspegla fáránleikann í pólitíska landslaginu í dag,“ segir Gunnur.

Þýsk-íslenskur bræðingur

Auk þess að vinna að annarri stuttmynd sinni kveðst Gunnur vera farin að leggja drög að sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd. Hún ætlar þó ekki að ana að neinu. Fram til þessa segir hún að það hafi gefist vel að taka sér góðan tíma við verkefni sín.

„Ég hef Þjóðverjann í mér sem pælir í hlutunum og er pínu „komplex“. Mér finnst gaman að pæla í okkur manneskjunum, af hverju við erum að þessu öllu saman, og reyna að binda það einhvern veginn í sögur. En svo hef ég líka þetta íslenska viðhorf að kýla á hlutina og láta þá reddast. Ég heyri oft á Íslandi að ég sé svolítið þýsk og í Þýskalandi var ég alltaf stimpluð sem Íslendingurinn. Ég er alveg hætt að hlusta á hvað aðrir segja og finnst þetta bara gott púsl. Mér finnst ég vera í startholunum núna.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon