Bogi Nils Bogason
Bogi Nils Bogason
Með hagsmuni útflutningsgreina í huga og með Nýdönsk í eyrunum er ekki hægt annað en að velta fyrir sér hvort ráðherrar séu staddir í raunheimum.

Bogi Nils Bogason

Streymisveitur eins og Spotify hafa marga góða kosti en þær hafa gert það að verkum að tónlistaráhugamenn eins og ég hlusta mun minna á plötur í heild sinni en áður, sem er mjög miður. Nú eru það lagalistar sem margir spila og ég er þar engin undantekning. Ég hef saknað þess að hlusta á heilar plötur eins og í gamla daga þegar ég hlustaði jafnvel á sömu plötuna marga daga í röð. En um daginn varð á vegi mínum plata sem ég „setti á fóninn“, byrjaði á fyrsta laginu og hlustaði í gegn. Síðan þá hef ég varla hlustað á annað enda er um frábæra plötu að ræða. Lögin og textarnir eru fyrsta flokks að mínu mati. Þetta er platan Í raunheimum sem Nýdönsk gaf út nýlega. Það var líka skemmtileg tilviljun að síðasta föstudag hitti ég Björn Jörund á förnum vegi. Ég hrósaði honum mjög fyrir plötuna og grínaðist hann með að Í raunheimum væri baráttuplata fyrir okkur, íslenska karlmenn á miðjum aldri sem ættu undir högg að sækja nú um stundir. Ég þarf reyndar að velta því betur fyrir mér.

En nafn plötunnar hefur fengið mig til að hugsa til verka núverandi ríkisstjórnar. Í ráðherrastólum sitja margir öflugir og skynsamir einstaklingar, en með hagsmuni helstu útflutningsgreina Íslands í huga, sem halda uppi lífskjörum okkar Íslendinga, og með Nýdönsk í eyrunum, er ekki annað hægt en að velta fyrir sér hvort ráðherrarnir séu staddir í raunheimum.

Síðustu tæplega 17 ár hef ég starfað í ferðaþjónustunni sem er orðin ein mikilvægasta útflutningsgrein þjóðarinnar. Um 32% af útflutningi Íslands komu frá greininni á síðasta ári og skattspor hennar var rúmlega 200 milljarðar. Það eru sem sagt ríflega 200 milljarðar sem greinin skilar árlega í rekstur íslensks samfélags, til heilbrigðis-, mennta-, velferðarmála o.s.frv. Ferðaþjónustan er þjónustugrein sem krefst mikils mannafla og vegna eðlis starfa í greininni er erfitt að sjálfvirknivæða þau. Það þarf jafn margt starfsfólk um borð í flugvélum og áður, sama fjölda þjóna á veitingastöðum, jafn marga til að þrífa hótelherbergi og svona mætti lengi telja. Á síðustu árum hafa launahækkanir verið verulegar á Íslandi, ekki síst í þjónustugreinum. Hækkanirnar hér á landi hafa verið langt umfram það sem við höfum séð í samkeppnislöndum okkar. Á launin leggur ríkið svo skatta og gjöld, eins og tekjuskatt og tryggingargjald. Þannig hafa skatttekjur ríkissjóðs af ferðaþjónustu aukist verulega á undanförnum árum án þess að til hafi komið nýir skattstofnar, enda gjöldin næg fyrir. Meiri kostnaðarhækkanir hér á landi en í samkeppnislöndum okkar hafa komið niður á samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannalands á síðustu misserum. Á sama tíma eru stjórnvöld í þeim löndum sem við erum í mestri samkeppni við, eins og í Noregi og Finnlandi, að setja verulegar fjárhæðir í markaðssetningu áfangastaða sinna en það hafa íslensk stjórnvöld ekki gert frá því á árinu 2022. Á síðasta ári sáum við afleiðingar þessa í flæði ferðamanna til Íslands. Erlendir ferðaþjónustuaðilar sem hafa selt Ísland í áratugi til viðskiptavina sinna fóru að beina sjónum sínum að löndum eins og Noregi og Finnlandi í stað Íslands. Þetta er alls ekki góð þróun og við verðum í sameiningu að bregðast við henni, ekki bara fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi heldur íslenskan efnahag og samfélagið í heild því að verðmætasköpun í ferðaþjónustunni hefur víðtæk áhrif. Síðustu vikur hafa aðstæður breyst enn frekar. Bandaríkin eru stærsti og mikilvægasti markaður Íslands sem ferðamannalands en þaðan koma flestir af ferðamönnum okkar. Þar eru neikvæð teikn á lofti og vegna breytinga á gengi gjaldmiðla er nú tæplega 7% dýrara fyrir bandaríska ferðamenn að koma til Íslands en fyrir ári. Á sama tíma er hagkerfið í Bandaríkjunum að veikjast og neytendur þar munu líklega hafa minna á milli handanna til ferðalaga.

Við sem störfum í raunheimum viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að stuðla að samkeppnishæfni einnar mikilvægustu atvinnugreinar Íslands. Þau sem virðast ekki vera í raunheimum eru að velta fyrir sér frekari skattlagningu og gjaldtöku á greinina. Hvort er mikilvægara fyrir íslenska þjóð? Að mínu mati er svarið augljóst því að það hefur aldrei borgað sig að spara eyrinn en kasta krónunni.

Höfundur er forstjóri Icelandair.

Höf.: Bogi Nils Bogason