Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála felldi 31. mars síðastliðinn úr gildi ákvörðun Byggðastofnunar varðandi afslætti Íslandspósts af reglubundnum viðskiptum með magnpóst, enda hefði ekki verið sýnt nægilega fram á að þeir samræmdust lögum um póstþjónustu. Með magnpósti er átt við áritaðan bréfapóst.
Ný stjórn var skipuð hjá Póstinum í lok mars, en eitt af hlutverkum hennar er að setja gjaldskrá.
Pétur Már Halldórsson, stjórnarformaður Íslandspósts, vísaði á Þórhildi Ólöfu Helgadóttur, forstjóra Póstsins.
Afsláttartafla bréfa óbreytt
Þórhildur Ólöf segir Íslandspóst hafa kynnt Byggðastofnun fyrirhugaðar breytingar í fyrrasumar.
„Í lok júní á síðastliðnu ári var tilkynning send til Byggðastofnunar þar sem tilkynntar voru breytingar á fyrirkomulagi afslátta bréfa sem afhent voru í magni til Póstsins og áttu þær að taka gildi frá og með 1. ágúst,“ segir Þórhildur Ólöf.
„Breytingin sem var tilkynnt Byggðastofnun í lok júní var engin breyting á afsláttarprósentu heldur einungis að fyrirtæki fengju afslátt á uppsafnað magn yfir mánuð í stað einnar stakrar afhendingar,“ segir Þórhildur Ólöf jafnframt.
Það sé mat Íslandspósts að afsláttartafla bréfa standi óbreytt hjá Póstinum þar til ný ákvörðun taki gildi hjá Byggðastofnun. Fyrirtækið muni lúta ákvörðun Byggðastofnunar þegar hún liggi fyrir.
Stendur óbreytt
Þórhildur Ólöf segir að ekki hafi verið um verðhækkun að ræða með breytingunni í fyrrasumar en afsláttartaflan hafi tekið gildi 12. ágúst sl.
Ekki sé lengur magnverðskrá eða afsláttarverðskrá magnpósts heldur sé þetta orðið sami straumurinn.