Aðalheiður fæddist í Tjarnargötunni í Reykjavík 4. desember 1953.

Hún lést í Reykjavík 20. mars 2025.

Foreldrar: Elín Hrefna Ólafsdóttir, f. 14. ágúst 1932, og Kjartan Þ. Eggertsson, f. 9. apríl 1932, d. 5. febrúar 1990. Aðalheiður ólst upp í Sólheimum í Reykjavík hjá móðurafa sínum Ólafi Ingþórssyni og –ömmu Aðalheiði Guðmundsdóttur. Systkini: Eggert Hrafn, f. 31. janúar 1956, Ólafur Ingi, f. 20 maí 1958, Kristín Hildur, f. 10. september 1960, Guðmundur Helgi, f. 14. febrúar 1962, Elínborg Lilja, f. 3. nóvember 1965.

Aðalheiður giftist Knut Vesterdal 31. desember 1982. Knut lést í Reykjavík 29. september 2016. Börn þeirra: 1) Bjarne Klemenz, f. 7. ágúst 1978, börn hans eru Ragnhildur Dúna, f. 10. júlí 2016, barnsmóðir Anna Gröndal, og Sunna Elenóra, f. 25. júní 2022, barnsmóðir Ninna Íris D. 2) María Alexandra, f. 6. febrúar 1989, maki hennar er Chris Thorning. Börn þeirra eru Emmanuel Leo, f. 26. september 2013, Fenris, f. 5. ágúst 2017, Ísak, f. 30. ágúst 2020, og Svala, f. 30. júní 2022. 3) Valdimar Leo, f. 31. júlí 1991.

Eftirlifandi sambýlismaður Aðalheiðar er Erlendur Davíðsson, f. 12. mars 1960.

Aðalheiður gekk í Vogaskóla í Reykjavík, Héraðsskólann Reykholti og síðan Kennaraskólann. Hún fann sitt áhugasvið þegar hún hóf nám í hjúkrun og lauk hjúkrunarfræðinámi 1981 frá Hjúkrunarskóla Íslands, síðar bætti hún við sig framhaldsnámi í svæfingahjúkrun sem hún vann við alla tíð. Aðalheiður vann mestallan starfstíma sinn í yfir fjörutíu ár við Landspítalann í Fossvogi, aðallega við svæfingahjúkrun tengda gjörgæslu, skurðstofu og vöknun.

Aðalheiður verður jarðsungin frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 10. apríl 2025, kl. 15.

Elskulega og yndislega móðir mín. Þetta er alveg ofboðslega sárt og óskiljanlegt að þú sért farin og á svo skyndilegan hátt.

Ég er alveg óskaplega ósátt við að bæði þú og pabbi séuð farin.

Þú skilur mig og bræður mína eftir í miklum tómleika og mikilli sorg, nú lifum við áfram án foreldra, án ykkar stöðugleika, kærleika og æðruleysis hér á jörð.

Ég vel að trúa því að við sameinumst á ný einn daginn en nú er tími okkar systkinanna til að styðja hvert annað, lifa og njóta þessa lífs sem þið gáfuð okkur, með öllu sem því sem lífið hefur upp á að bjóða. Þið voruð bæði of ung að mínu mati. En svona er lífið stundum óskiljanlegt, sumir deyja ungir og aðrir gamlir. Sama hvað, þá vantar okkur ykkur, hér hjá okkur.

Þú hefur þrátt fyrir allt náð að upplifa ótrúlega margt, notið lífsins og elskað ferðalög og fólkið þitt og þú varst alveg sérstaklega háð íslensku náttúrunni.

Ég vona að þér líði betur elsku mamma, þú varst oft á tíðum kvalin af ótta, það einkenndi seinustu árin, þó hélstu ótrauð áfram í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur. Þú tókst að þér að ljúka þínu og pabba stóra verkefni; að koma Valdimari vel fyrir, í bestu íbúð á besta stað þar sem honum líður vel.

Elli var þinn helsti stuðningsmaður með þetta verkefni hér í lokin og ber mikla hlýju í Valdimars garð. Þú sagðir alltaf við mig að hann væri svo góður við Valdimar, að það væri ekki sjálfsagt að kunna á hann, og það er ýmislegt rétt í því.

Þín lífslok voru eins og ævintýri. Þrátt fyrir ömurlegar aðstæður þá gafstu þrjú líf sem líffæragjafi. Ég er svo stolt.

Það var svo magnað að fylgja þér þessa síðustu viku, ég var með þér alla leið, saman með góðu fólki í kringum mig og þínu fyrrverandi samstarfsfólki sem hafði svo margt gott að segja um þig, ég fylltist svo miklu stolti að hlusta á aðra tala um fagmennsku þína og umhyggju. Það var fróðlegt og að öllu leyti heillandi að sjá hvar þú hefur unnið öll þessi ár, þvílíkar hetjur sem vinna á svona stað.

Hugsa sér að þetta ferðalag þitt endi á gjörgæslunni þar sem þú byrjaðir starfsferil þín árið 1981.

Það er magnað. Mjög ævintýralegt og virðuleg endalok, alveg eins og þú áttir skilið.

Elsku mamma mín, ég bið að heilsa pabba. Vona þið hafið það gott á Jamaíku. Ég elska ykkur og sakna ykkar alla tíð.

María Alexandra Vesterdal.

Aðalheiður Svana Kjartansdóttir, elsta systir mín, kvaddi þennan heim 20. mars. Síðustu dagana lá hún á gjörgæslunni í Fossvogi þar sem hún hafði unnið í mörg ár. Umhyggja samstarfsmanna hennar einkenndist af virðingu og væntumþykju. Betra umhverfi til að kveðja hefði hún ekki fengið.

Aley var elst okkar systkina og við nutum þeirra forréttinda í æsku að eyða öllum okkar fyrstu uppvaxtarárum á árbökkum í símatjöldum og gámahúsum með foreldrum, afa og ömmu. Afi stjórnaði flokknum sem reisti símastaura og tengdi sveitabæi við umheiminn.

Aley gætti okkar systkinanna og Gústu frænku sem sjáaldurs augna sinna og hætturnar voru margar. Straumharðar ár og klifur í klettum, strandir og hraun við Eldborg. Umhyggja hennar og natni, þolinmæði og ást einkenndu hana alla æfi. Óli bróðir átti sérstakan stað í hjarta hennar enda alltaf til staðar fyrir systur sína þegar hún þurfti á að halda eða bara kallaði eftir nærveru hans.

Á haustin hvarf Aley svo með Gústu frænku, ömmu og afa til Reykjavíkur en við hin fórum á Akranes og svo hittumst við næsta vor þegar símavinnan hófst á ný. Umhyggju skorti hana ekki hjá afa og ömmu sem bjuggu henni og Gústu yndislegt heimili þar sem vinkonur og vinir voru alltaf velkomin en á seinni árum upplifði Aley fjarveru frá mömmu okkar og systkinum í æsku sem höfnun og það tók á alla viðkomandi.

Aley var mjög glæsileg, brosmild og falleg stúlka með tinnusvart hár, brún augu og mjallhvíta húð. Hún hefði getað verið fyrirmynd í Disney-myndinni Mjallhvít. Aley var alltaf mjög umhugað um að líta vel út og hafa snyrtilegt í kringum sig. Svo komu svona gaurar eins og ég í heimsókn og þá voru gerðar heiðarlegar tilraunir til að snyrta bróður. Ég man eftir að þegar ég fór að fá sveipi sem ekkert varð ráðið við var ég látinn sofa með Carmen-rúllur til að vinna á þessum ófögnuði. Næsta morgun varð mér litið í spegil og ég þorði ekki í skólann en systir reyndi skellihlæjandi að slétta úr hárinu aftur.

Aley lagði stund á hjúkrunarnám og hún vann við hjúkrun alla sína starfsævi. Hún var nákvæm og umhyggjusöm og um það vottuðu allir sem hún hjúkraði. Aley var fagmaður.

Systir fékk sinn skammt af mótlæti í lífinu og það byrjaði snemma. Kjartan pabba sinn hitti hún sjaldan en þau áttu dýrmætar gæðastundir þegar þau hittust.

Aley systir eignaðist þrjú börn með Knút eiginmanni sínum og er Bjarne elstur, síðan María og síðastur í röðinni Valdimar. Knút féll frá langt fyrir aldur fram, sem reyndist henni mikil raun.

Valdimar fæddist fatlaður, sem fylgdi mikil ást og vinna. Sambýlismaður Aleyjar undanfarin ár, hann Elli, hefur hugsað vel um hann frá því Aley féll frá.

Nú þegar ég kveð Aley mun minning um brosmilda, glaða og fallega systur fylgja mér. Við byggðum upp minningar á mótunarárum æskunnar sem tryggja ást, væntumþykju og skilning sem ekkert fær rofið. Börnum hennar Bjarne, Maríu og Valdimar, Erlendi og öllum sem um sárt eiga að binda við fráfall hennar færi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning þín elsku systir.

Eggert Hrafn Kjartansson.

Elsku systir, óraunverulegt að þú sért farin. Þú ólst upp hjá ömmu og afa í Sólheimunum ásamt Ágústu frænku okkar, samt mikil og góð tengsl milli okkar.

Við vorum saman öll sumur úti á landi með móður, móðurömmu og frændsystkinum okkar úr móðurætt. Á vorin pakkað saman, ekki farið heim fyrr en að hausti. Fyrst í Landbroti við Haffjarðará, síðar í bústað í Borgarfirði. Aley (eins og hún var kölluð) elst og bar því töluverða ábyrgð. Við undum okkur frjáls úti í náttúrunni, frelsið, náttúran og aðstæður ólíkar flestu úr Reykjavík, ekkert rafmagn, rennandi vatn eða önnur þægindi sem þykja svo mikilvæg í dag.

Aley kynntist heiminum snemma, fór utan sem au-pair til London og vann síðan á hóteli í Kaupmannahöfn. Upplifði aðra siði. Fékk áhuga á kaffihúsum, ekki mörg á þessum árum í Reykjavík. Njóta þess fá sér góðan kaffibolla, horfa á mannlífið. Eins og góður jógatími fannst henni.

Aley kynntist ung Knut sem lést eftir veikindi 2016. Einstaklega samhent í því sem þau tóku sér fyrir hendur. Nutu þess að verja tímanum með börnum sínum og síðar barnabörnum.

Ferðuðust mikið saman bæði innan lands og utan. Sameiginleg áhugamál náttúran, göngur, ljósmyndun, iðin við að sjá nýjar bíómyndir, fylgjast með tónlist, sækja leikhús.

Þegar Aley var í hjúkrunarnáminu og Bjarne lítill fékk ég tækifæri til að passa Bjarne og Knut önnum var kafinn við að afla tekna. Tengsl okkar efldust ég fékk tækifæri til að kynnast Bjarne.

Einkennandi fyrir Aley voru rólegheit og yfirvegun. Ekkert virtist koma henni úr jafnvægi. Gott að leita til hennar t.d. varðandi veikindi og hún alltaf tilbúin að koma með ráð. Aley vann við hjúkrun alla tíð, naut sín vel í starfi, fagmanneskja.

Fjölskyldan var henni allt. Fékk í hendur mörg erfið verkefni sem hún reyndi eftir megni að leysa. Að eignast fatlað barn mótaði líf hennar og fjölskyldunnar alla tíð. Hún og Knut unnu með hlutina af æðruleysi, virðingu og kærleika.

Aley tók alltaf vel á móti okkur hvort sem það var á Laugarnesveginum, Barmahlíðinni, Kirkjuteig eða Mánatúni. Gott var að „droppa“ í kaffi eða te, rabba um heima og geima. Hún naut þess að fá gesti á fallegt heimili sitt. Aley var fagurkeri og annt um að hlúa að fjölskyldunni.

Aley var jafnréttissinni sem kom fram í því hvernig hún kom fram við fatlaðan son sinn. Hann skyldi eiga jafn ríkt líf og aðrir. Átti að upplifa allt það sem aðrir upplifa, fara í leikhús, kvikmyndahús og fleira sem honum fannst skemmtilegt. Hlýja hennar og natni birtist vel í samskiptum þeirra. Gleðilegt fyrir Aley að kynnast Ella, mega eiga með honum sín síðustu ár, því miður allt of stutt. Elli og Valdimar náðu vel saman nutu þess að dvelja um tíma í Danmörku ásamt Aley, Maríu og fjölskyldu.

Elsku systir, góða ferð í sumarlandið ég veit að Knut tekur vel á móti þér. Ég votta börnum þínum, barnabörnum og Ella samúð, megi minningarnar lifa með okkur öllum þar til við hittumst næst.

Kristín systir.

Nú er hún Aley frænka mín búin að ljúka sínu dagsverki sem einkenndist af samviskusemi, ósérhlífni og einlægni. Fólkið sem er manni nánast mótar mann óhjákvæmilega í uppvextinum. Við Aley ólumst upp saman hjá ömmu og afa í Voga- og Heimahverfinu, sem þá var í hraðri uppbyggingu, og ég á sterkar og kærar minningar frá þeim tíma. Átta ár skildu á milli okkar og með árunum minnkaði aldursmunurinn. Ég minnist sérstaklega heimsóknanna á hlýleg heimili hennar og Knuds þar sem alltaf var tekið vel á móti manni og plötur ósjaldan settar á fóninn. Aley var hæversk kona og hógvær en gat verið föst fyrir og fylgin sér þegar á þurfti að halda. Hún hafði ávallt sterkar skoðanir á málefnum líðandi stundar og þótti gaman að ræða þjóðfélagsmálin. Aley lét sér mjög annt um börn sín og afkomendur og bjó sér og sínum fallegt heimili þar sem vel var veitt og vel að öllum búið. Það geislaði út frá henni að hún vildi manni allt gott og hún hafði mikinn áhuga á hvað fjölskyldan var að hafast að. Nú eru þetta ljúfar minningar. Líf Aleyjar var ekki eingöngu dans á rósum en virðuleiki og æðruleysi hennar verða mér lengi minnisstæð. Hún hafði stórt og gott hjarta og allt sem hún snerti var fallegt og gæðum gætt. Þessir eiginleikar endurspegluðust í áralöngu starfi Aleyjar innan heilbrigðisþjónustunnar, starfi sem er byggt á umhyggju og virðingu fyrir manneskjunni. Ég þakka fyrir að hafa fengið að verða samferða henni og að taka þátt í hennar lífi. Fjölskyldunni allri sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Liljur vallarins munu blómstra

í heiminum eftir okkar daga

regnið mun koma á ný

og enn sem fyrr

mun lækurinn renna upp á við

Meyjar munu valhoppa um túnin

prýddar blómum og slæðum

sólin mun skína sem fyrr

og enn á ný

mun draumurinn leiða manninn

(Ók. höf.)

Ágústa Elín Ingþórsdóttir.

Elsku Aðalheiður, ótrúlegt að eiga ekki eftir að sjá þig aftur hérna á förnum vegi eða hitta þig á kaffihúsi, fara í leikhús eða skiptast á skoðunum, ræða hin ýmsu mál. Við unnum saman á svæfingunni í Fossvogi í 26 ár og þú varst þar á undan mér. Alltaf glæsileg og gullfalleg, ekki alveg af þessum heimi. Hér á árunum áður þegar ég var ein með stóra strákinn minn fékk ég hjálp frá þér með ýmsa hluti og er þakklát fyrir það. Ég man eftir mörgum gleðistundum, sumarbústaðaferðum, ráðstefnum og ferðum eitthvað út í náttúruna. Ég man líka að þú lést ekkert stoppa þig ef sá gállinn var á þér. Takk fyrir allt mín kæra vinkona. Votta aðstandendum mína dýpstu samúð.

Guðbjörg Svava Ragnarsdóttir.

Í skjólgóðu Hlíðunum sunnan Miklubrautar var í lok síðustu aldar samfélag sem vinátta gat auðveldlega sprottið upp af. Vinátta fjölskyldna Aðalheiðar og minnar spratt þaðan. Dóttir Aðalheiðar og Knuts og eldri sonur okkar hjóna urðu góðir vinir og tengdu okkur saman. Okkur varð fljótt ljóst að þarna var hlýtt og almennilegt fólk enda sótti sonurinn iðulega yfir til þeirra. Blíðlegt og rólegt yfirbragð Aðalheiðar bar henni gott vitni og setti mildan brag á dagana.

Það var garðaspjall og barnastúss, vöfflukaffi og afmæli, flugeldar og fermingar. Þau hjónin voru góð heim að sækja og tignarleg og stolt klæddust þau þjóðbúningum sínum við hátíðlegri tækifærin, hún skartaði íslenskum upphlut og hann sínum norska þjóðbúningi.

Þægilegt hefur verið að eiga vin í reyndum hjúkrunarfræðingi eins og Aðalheiði sem sýnir áhuga og útskýrir samhengi hlutanna. Símtöl seinni ára gátu teygst á langinn þegar heilsufar bar á góma. Við andlát Aðalheiðar er einni vinkonu færra í mínum garði, en mér hlýnar þegar ég hugsa til hennar, blíðlyndu konunnar með innilega hláturinn sem ég kynntist í götunni góðu.

Ég minnist hennar þegar hún kom til að kveðja mig síðastliðið vor á leið til sumardvalar í Danmörku hjá Maríu sinni og hennar fólki. Aðalheiður og fjölskylda voru ferðbúin á leið austur í Norrænu, hún var með bros á vör og vor í hjarta. Innilegar samúðarkveðjur til aðstandenda.

Valgerður Garðarsdóttir.

Yndisleg æskuvinkona mín Aley er látin. Okkar góði vinskapur hélst alla tíð. Við kynntumst árið 1958 þegar við fluttum báðar í Sólheimana. Hún bjó hjá ömmu sinni og afa í húsinu númer 14 og ég í númer 22. Við urðum strax vinkonur og til er kvikmynd af okkur með dúkkuvagnana sem pabbi tók. Við vorum saman í tímakennslu hjá séra Árelíusi og þótt við værum aldrei í sama bekk í Vogaskóla vorum við saman öllum stundum eftir skóla. Við lékum okkur mikið fyrir framan safnaðarheimilið í brennó og yfir með hinum krökkunum í götunni. Við tókum strætó saman til að fara í ballett hjá Eddu Scheving á Lindargötunni.

Við fórum marga laugardagana með strætó niður á Hlemm til að fara í Sundhöllina og það tók yfirleitt hálfan daginn.

Við fórum með strætó niður í bæ til að fara á skauta og allavega einu sinni í þeim leiðangri heilsuðum við upp á föðurömmu hennar sem bjó í Tjarnargötu.

Afi hennar keyrði okkur út fyrir bæinn svo við kæmumst á skíði og beið í bílnum meðan við klöngruðumst upp einn hólinn margar ferðir og renndum okkur niður.

Aley var hláturmild stúlka og í minningunni vorum við alltaf hlæjandi.

Þegar kom að gagnfræðastiginu fór Aley í heimavistarskóla en þá skrifuðumst við bara á. Aley fór í Kennó og síðar hjúkrun en áfram héldum við sambandi.

Við hittumst mjög mikið hin síðari ár og alltaf var hún jafn teinrétt og glæsileg.

Við sátum gjarnan í tvo til þrjá tíma í Messanum Lækjargötu yfir fiskipönnu eða Jómfrúnni með smörrebröd, því mikið þurfti að ræða. Hún bar alla tíð höfuðið hátt þrátt fyrir alla erfiðleikana sem voru lagðir á hana í gegnum lífið.

Ég votta öllum aðstandendum hennar mína dýpstu samúð.

Blessuð sé minning um góða og glæsilega konu.

Guðrún Salome (Rúna).