Bryndís Maggý Sigurðardóttir fæddist á Hvammstanga 28. desember 1939. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík 4. apríl 2025.

Foreldrar hennar voru Sigurður Gíslason, f. 2.7. 1905, d. 30.5. 1977, og Ingigerður Guðbjörg Daníelsdóttir, f. 13.7. 1903, d. 29.6. 1990.

Bræður Bryndísar Maggýjar eru Gunnar Valgeir, f. 10.11. 1932, Ármann Karl, f. 11.7. 1931, d. 2.9. 2012, og Guðmundur Már, f. 23.1. 1945, d. 4.10. 2022.

Bryndís Maggý giftist Gunnari Sölva Sigurðssyni, f. 5.4. 1934, d. 14.11. 2001, þau skildu.

Sambýlismaður Bryndísar Maggýjar til fjölda ára var Anton Helgason, f. 25.7. 1931, d. 2.1. 2011. Börn Bryndísar Maggýjar og Gunnars Sölva eru: Sigurður Ingi, f. 20.12. 1956, og Valgerður Marta, f. 16.10. 1959, gift Benedikt Emil Jóhannssyni. Börn þeirra eru: Eva Björk, f. 1978, Gunnar Örn, f. 1981, og Lilja Rut, f. 1989. Barnabarnabörn Bryndísar Maggýjar eru átta.

Bryndís Maggý bjó á Hvammstanga til 1972 en fluttist þá til Reykjavíkur ásamt fjölskyldu sinni.

Útför hennar fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 10. apríl 2025, klukkan 13.

Ef við ættum að gera uppskrift að hinni fullkomnu ömmu er líklegt að við myndum bara lýsa Maggý ömmu. Sótsvartur húmor, lífsgleði, iðjusemi og takmörkuð þolinmæði fyrir kjaftæði voru allt mannkostir sem hún hafði. Hjá henni lærði maður jafnt að tala og hlusta, enda fátt sem hún vissi ekki eða var til í að mynda sér skoðun á.

Það var aldrei hægt að fara í heimsókn án þess að borða þangað til kræsingar láku út úr eyrunum. „Þið verðið að fyrirgefa að ég á ekkert til“ en samt var borðið drekkhlaðið kræsingum. „Getiði ekkert borðað?“ Þegar allir voru búnir að éta á sig gat! Amma lifði fyrir að fá fólkið sitt í mat.

Amma ætlaði aldrei að fara á elliheimili, þar voru bara leiðinlegar gamlar kerlingar með lélegar hárgreiðslur og varalit á tönnunum. En þegar hún fór á Hrafnistu fannst henni hún vera komin heim, þó að hún hafi ekki stoppað þar lengi naut hún þess tíma innilega.

Amma glímdi við slitgigt og lélegan skrokk í áratugi og sagðist oft vera komin með nóg, en alltaf fann hún sér ástæðu til þess að tóra aðeins lengur, hvort sem það var enn eitt langömmubarnið að fæðast, fermast eða útskrifast. Undir lokin fann hún þó að sinn tími væri kominn, henni fannst kertið vera að klárast, ljósið var að slokkna og hún vildi bara fá að kveðja fólkið sitt áður en hún færi. Það fékk hún og örfáum mínútum eftir að síðasta langömmubarnið kvaddi var hún farin frá okkur.

Hún var okkur mikil fyrirmynd og verður um ókomin ár. Takk fyrir allt amma.

Þín barnabörn,

Eva Björk, Gunnar Örn og Lilja Rut.

Með hverjum og einum sem yfirgefur jarðvistina lokast kafli í lífsbók þeirra sem eftir standa og næstir stóðu. Tómarúmið sem þá myndast kallar fram minningar sem ekki verða burtu teknar og lifa áfram. Bryndís Maggý var litríkur persónuleiki sem gott er að minnast.

Maggý ólst upp í foreldrahúsum á Hvammstanga ásamt bræðrum sínum og ömmu. Hún festi ung ráð sitt og giftist Gunnari Sölva Sigurðssyni (f. 1934) sem var líka frá Hvammstanga. Maggý var aðeins 17 ára þegar Sigurður Ingi sonur þeirra fæddist. Dóttirin, Valgerður Marta, fæddist þremur árum seinna. Þau Gunnar reistu sér hús á Hvammstanga og bjuggu þar til ársins 1970 þegar þau fluttu til Reykjavíkur. Sigurður og Inga, foreldrar hennar, höfðu flutt suður nokkru áður og eftir það undi hún sér ekki nyrðra. Maggý vann um nokkurra ára skeið í eldhúsi Borgarspítalans en starfsvettvangur hennar var að mestu leyti bundinn við heimilið. Gunnar og Maggý ásamt foreldrum hennar keyptu saman íbúð í Skipholti í Reykjavík og bjuggu þar saman í nokkur ár. Sigurður andaðist 1977 og Inga endaði sína ævidaga á sjúkrahúsinu á Hvammstanga 1990. Maggý og Gunnar fluttu að Brekkulæk 6 og bjuggu þar um hríð en svo skildu þau og héldu hvort í sína áttina. Maggý flutti á Öldugötu þar sem hún bjó með Antoni Helgasyni í nokkur ár þar til hann lést 2011. Eftir það bjó hún lengst af á Kleppsvegi og svo í íbúð fyrir aldraða í Furugerði þar til síðustu vikurnar á Hrafnistu í Laugarási þar sem hún lést.

Maggý mágkona mín var ólíkindatól. Hún var alltaf hress og skemmtileg, hafði ákveðnar skoðanir, talaði tæpitungulaust og skeytti lítt um álit annarra. Hún lagði metnað í húsmóðurstörfin og allt lék í höndunum á henni, matreiðsla, sauma- og prjónaskapur og hvað sem var og allt gerði hún vel. Hún heklaði, prjónaði og hannaði flíkur og seldi í verslanir. Maggý var hagmælt og músíkölsk en hafði sig ekki mikið í frammi með slíkt. Maggý hóf sígarettureykingar á táningsaldri og reykti í rúm sjötíu ár, gerði aldrei hlé á því. Hún hlýtur að hafa haft sterk lungu því hún fékk aldrei reykingahósta en afleiðingarnar komu frekar fram í fótaveiki. Börnin, barnabörnin og langömmubörnin áttu hug hennar og hjarta og hún sinnti þeim eins og hún framast gat. Þau gerðu líka hvað þau gátu til að létta henni lífið þegar hún þurfti á hjálp að halda. Börn bræðra hennar nutu líka góðs af hendi hennar. Maggý mun lifa í minni þeirra sem elskuðu hana og þar er undirrituð ekki undanskilin. Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Sem dropi tindrandi

tæki sig út úr regni

hætti við að falla

héldist í loftinu kyrr –

þannig fer unaðssömum

augnablikum hins liðna.

Þau taka sig út úr

tímanum og ljóma

kyrrstæð, meðan hrynur

gegnum hjartað stund eftir stund.

(Hannes Pétursson)

Ragnhildur Karlsdóttir.

Nú er elsku Maggý frænka farin í sumarlandið. Það er erfitt þegar líkaminn gefur sig en hausinn er í topplagi eins og raunin var hjá Maggý. Hún var okkur systrum alltaf góð og við eyddum miklum tíma með henni þegar við vorum yngri, í Skipholtinu þar sem hún bjó með ömmu okkar og afa. Maggý og pabbi okkar, sem var litli bróðir hennar, voru alltaf náin og héldu góðu sambandi. Þegar hann lést fyrir rúmlega tveimur árum hafði hún á orði að hún hefði svo gjarnan viljað fara í hans stað, sem vitnaði um hversu kært var með þeim.

Svipmyndir af Maggý frænku birtast í huganum hver af annarri og minningabrotin púslast saman. Maggý var lágvaxið stórveldi. Hún var alltaf eitthvað að stússa. Baka, elda, prjóna, hekla, spá og spekúlera, oft með kaffibolla í hendi. Hún var beinskeytt, með svartan húmor en góðlátlegan.

Hún sá það góða í fólki og tók því bara eins og það er. Hún hafði sjálf ekki alltaf farið hefðbundnar leiðir í lífinu, var fordómalaus gagnvart öðrum og fann alltaf bjartar hliðar á tilverunni.

Við minnumst elsku Maggýjar frænku með hlýju og vottum Sigga, Völu og fjölskyldu okkar innilegustu samúð.

Brynhildur, Inga Hanna og Gunnlaug.