Sigurður Þórðarson
Í stjórnarfrumvarpi sem félags- og húsnæðismálaráðherra lagði fram fyrir hönd ríkisstjórnar og kom til 1. umræðu á Alþingi 29. mars sl. er lagt til að hunda- og kattahald í fjöleignarhúsum skuli framvegis alfarið vera ákvörðun hunda- og kattaeigenda. Með samþykkt Alþingis á frumvarpinu er vilji annarra eigenda í fjöleignarhúsum til dýrahaldsins að engu hafður og öllum reglum húsfélaga ásamt eftirliti sveitarfélaga kastað fyrir róða.
Núverandi reglur kveða á um að áður en dýr kemur í hús skuli eigandi tilkynna húsfélaginu skriflega um dýrahaldið og afhenda því ljósrit af leyfi frá viðkomandi sveitarfélagi þar sem við á. Núverandi lög um fjöleignarhús frá árinu 1994 tryggja tilteknar leikreglur, sem íbúum er skylt að fara eftir, m.a. í tengslum við dýrahald. Enn fremur getur húsfélagið með húsreglum og ákvörðunum á húsfundi með einföldum meirihluta sett hunda- og kattahaldi skorður, enda séu þær eðlilegar, málefnalegar og á jafnræði reistar. Þá getur húsfélagið með sama hætti lagt bann við dýrahaldi ef það veldur öðrum íbúum verulegum ama, ónæði og truflunum og eigandi dýrsins neitar að ráða bót á því.
Hverju er verið að breyta?
Með frumvarpinu er lagt til að fella niður svo til allt samráð eigenda hunda og katta við aðra eigendur í fjöleignarhúsum og einnig allt eftirlit sveitarfélaga með skráningar- og eftirlitsskyldu dýra í fjöleignarhúsum og ákvæði sem banna dýrahald í fjöleignarhúsum nema leyfi sveitarfélags fyrir dýrinu sé fyrir hendi. Þá er enn fremur ekki lengur gerð krafa um að eigandi dýra láti húsfélagi í té ljósrit af leyfi viðkomandi sveitarfélags. Skyldi það vera ætlunin með þessum breytingum að tryggja villiköttum húsaskjól?
Samkvæmt frumvarpinu er húsfélagi veitt heimild til að setja nánari reglur um hunda- og kattahald með samþykki allra eigenda. Þá segir í athugasemdum við frumvarpið að slíkar reglur feli þó ekki í sér heimild húsfélagsins til að ganga svo langt að þær útiloki hunda- og kattahald í raun. Með öðrum orðum gerir frumvarpið ráð fyrir að viðhorf og vilji meirihluta eigenda í fjöleignarhúsi sé að engu hafður í þeim tilvikum.
Markmið frumvarpsins er að sögn félags- og húsnæðismálaráðherra að auka jafnræði gæludýraeigenda hvað varðar húsnæðisvalkost ásamt því að stuðla að auknu húsnæðisöryggi þeirra. Þá kom fram við fyrstu umræðu frumvarpsins á Alþingi að samskipti við dýr hefðu jákvæð áhrif og í því sambandi nefnt að gæludýr gætu „dimmu í dagsljós breytt“, ekki síst hjá þeim sem eru einmana, og að tengsl manneskju og hunds gætu verið mjög sterk, jafnsterk og ættu þau við annað fólk.
Núverandi réttur annarra að engu hafður
Svo vill til að í fjöleignarhúsum býr líka fólk sem telur að gagnkvæm réttindi og skyldur hvíli á öllum íbúum sem í þeirri sambúð eru. Snúa þær að sameiginlegri umgengi, eignarhaldi og fjárhagslegum þáttum sem tengjast sameiginlegu eignarhaldi í viðkomandi fjöleign. Til grundvallar þeim leikreglum eru annars vegar lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús og svo hins vegar húsreglur einstakra húsfélaga, sem byggjast á nefndum lögum. Allt frá árinu 1994 hafa kaupendur húsnæðis í fjöleignarhúsum haft lögin og húsreglur m.a. sem forsendu fyrir kaupum.
Með þeim breytingum sem frumvarpið leggur til varðandi dýrahald í fjöleignarhúsum, og hér að framan hafa verið raktar, er verið að afnema rétt meirihluta íbúa fjöleignarhúss til að ákveða hvort leyfa skuli hunda- eða kattahald í eigninni, því þótt húsfélög hafi samkvæmt frumvarpinu heimild til að setja nánari reglur, þá sé þeim ekki heimilt að setja reglur sem útiloki hunda- og kattahald í raun.
Best að gera ekki neitt
Eftir að hafa búið í fjöleignarhúsi um nokkurra ára skeið er það mat mitt að sú umgjörð sem lög um fjöleignarhús eru með síðari breytingum hafi reynst vel. Þau hafa gefið íbúum fjöleignarhúsa sjálfsákvörðunarrétt hvað varðar samskipti sín í milli með „húsreglum“. Í greinargerðinni með títtnefndu frumvarpi er hvergi getið um að breytingar sem þar eru boðaðar geti haft áhrif á búsetu annarra eigenda í fjöleignarhúsi og varðað húsnæðisöryggi þeirra. Í því sambandi væri það verðugt viðfangsefni hæstvirtrar þingnefndar sem fjallar um frumvarpið og Húseigendafélagsins að kanna hvort ríkissjóður yrði ekki skaðabótaskyldur ef frumvarpið næði fram að ganga.
Að lokum þetta: Er ekki best að halda sig við núverandi lög og skipan og láta þá sem hlut eiga að máli sjá um sambýlið á grundvelli núverandi laga?
Höfundur er íbúi í fjöleignarhúsi.