Baksvið
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Nú liggur fyrir að Landhelgisgæslan mun áfram hafa til afnota þær þrjár björgunarþyrlur sem hún hefur haft í þjónustu sinni undanfarin ár.
Um er að ræða þyrlurnar TF-EIR, sem er af árgerð 2010, TF-GRO, árgerð 2010, og TF-GNA, árgerð 2014. Þær komu til landsins á árunum 2019-2021.
Þetta eru góð tíðindi fyrir Íslendinga því að þyrlurnar hafa skipt sköpum þegar kemur að björgun og sjúkraflugi. Leiguverðið er hátt enda eru þyrlur dýr tæki.
Landhelgisgæslan fagnar þessum tímamótum í starfseminni.
Það var í nóvember 2023 sem Ríkskaup efndu til forvals vegna leigu á þremur björgunarþyrlum fyrir Landhelgisgæsluna. Núverandi leigusamningar vegna TF-GNA, TF-GRO og TF-EIR renna út árin 2025 og 2026.
Tilboð bárust frá eftirtöldum aðilum: CHC Leasing S.A.R.L, Knut Axel Ugland Holding AS, Leonardo Helicopters og The Milestone Aviation Group Limited.
Í millitíðinni voru Ríkiskaup lögð niður og Fjársýslan tók yfir innkaup og útboðsmál íslenska ríkisins.
Var ákveðið að ganga til samninga við norska fyrirtækið Knut Axel Ugland Holding AS sem er núverandi leigusali. Það átti eina gilda tilboðið í útboðinu.
Að sögn Ásgeirs Erlendssonar upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar er leigutíminn til sjö ára með framlengingarmöguleika í 1+1+1 ár.
Landhelgisgæslan hefur þyrlurnar nú þegar til umráða en nýir leigusamningar taka gildi þegar núverandi samningar renna út. Fyrstu tveir samningarnir taka gildi í maí á þessu ári en þriðji samningurinn á næsta ári.
Að sögn Ásgeirs verður heildarleigukostnaður fyrir þyrlurnar 8.008.380 evrur árið 2027. Þetta verður fyrsta árið sem allar þrjár þyrlurnar verða á nýjum leigusamningum allt árið. Miðað við gengi evrunnar í dag samsvarar upphæðin um 1.150 milljónum íslenskra króna.
Núverandi ársleiga er 5.572.800 evrur. „Hækkunin liggur annars vegar í þeirri staðreynd að eldri verð voru vegna annarra og eldri þyrlna (stærstur hluti hækkunarinnar) og hins vegar í því að í útboðinu var farið fram á aukinn búnað í þyrlunum þremur,“ segir Ásgeir.
Umsamin leigufjárhæð fyrir öll sjö árin sem þyrlurnar eru leigðar er um 56 milljónir evra, sem samsvarar rúmum átta milljörðum íslenskra króna. Kostnaðaráætlun var 63.000.000 evrur, að því er fram kemur á heimasíðu Fjársýslunnar.
Björgunarþyrlurnar þrjár sem nú eru í þjónustu Landhelgisgæslunnar eru af tegundinni Airbus Helicopters H225 (Super Puma). Hámarksþyngd er 11 tonn.
Hámarkshraði þeirra er 175 sjómílur á klukkustund (324 km/klst.) og hámarksflugdrægi 613 sjómílur (1.135 km). Hámarksflugþol í leit á hagkvæmasta hraða er 5 klukkustundir en annars tæpar 4 klukkustundir. Þyrlurnar eru mjög vel útbúnar. Þær eru m.a. með fullkomnustu sjálfstýringu sem völ er á. Tll stendur að bæta útbúnað þeirra enn frekar.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar annaðist metfjölda útkalla árið 2024. Alls var sveitin kölluð 334 sinnum út í fyrra sem er 31 útkalli meira en árið 2023. Af útköllunum 334 voru 135 farin á fyrsta forgangi og 150 á öðrum forgangi.
Ríflega helmingur útkallanna var vegna sjúkraflutninga, eða um 183 útköll. Útköll á sjó voru um fimmtungur allra útkalla þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar.
Þyrluútköllum hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum áratug og til samanburðar má nefna að árið 2016 voru útköllin 253, að því er fram kemur á heimasíðu Landhelgisgæslunnar.
Hafa reynst sérlega vel
„Það er afar ánægjulegt að nýr leigusamningur fyrir björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar sé orðinn að veruleika,“ sagði Ásgeir Erlendsson þegar leitað var viðbragða stofnunarinnar við tíðindunum.
„Leitar- og björgunarþyrlurnar TF-EIR, TF-GNA og TF-GRO hafa reynst sérlega vel við krefjandi aðstæður á hafsvæðinu umhverfis Ísland á undanförnum árum og munu áfram verða í flugflota Landhelgisgæslunnar næstu sjö árin hið minnsta.“