Umsagnarferli Kjötvinnslan var stöðvuð á meðan húsið var klárað.
Umsagnarferli Kjötvinnslan var stöðvuð á meðan húsið var klárað. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þrettán umsagnir hafa borist um fyrirhugaða kjötvinnslu við Álfabakka 2, sem er til kynningar í Skipulagsgátt. Kjötvinnsla af þessari stærðargráðu er tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Þrettán umsagnir hafa borist um fyrirhugaða kjötvinnslu við Álfabakka 2, sem er til kynningar í Skipulagsgátt. Kjötvinnsla af þessari stærðargráðu er tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Umsagnarfrestur er til 15. apríl.

Í umsögn Matvælastofnunar kemur fram að stofnunin hafi ekki ástæðu til að ætla að umrædd staðsetning hafi í för með sér sérstaka hættu á mengun matvæla og telur hún sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum.

Íbúar gera athugasemdir

Aðrar umsagnir í gáttinni eru frá einstaklingum sem andmæla framkvæmdinni og snúa fyrst og fremst að umfangi byggingarinnar og fyrirhugaðrar starfsemi þar. Umsagnaraðilar hafa áhyggjur að lyktarmengun og umferð þungaflutninga í íbúðargötu við íþróttasvæði. Gerðar eru athugasemdir um hvernig staðið var að kynningu. Bent er á að svæðið sé skipulagt sem verslunar- og þjónustusvæði og umfang og starfsemi þessarar byggingar eigi heima á atvinnusvæði.

Miklar deilur hafa staðið um byggingu vöruhússins, sem stendur þétt upp við íbúðablokk Búseta við Árskóga 7. Á meðan kæran var til vinnslu hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ákvað byggingarfulltrúinn í Reykjavík að fella byggingarleyfið fyrir kjötvinnsluna úr gildi, sem varð til þess að úrskurðarnefndin vísaði málinu frá. Síðan hefur tíminn verið nýttur til að klára húsið.

Höf.: Óskar Bergsson