Guðmundur Einarsson fæddist í Reykholti Borgarfirði 25. júní 1943. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 1. apríl 2025.

Foreldrar hans voru Einar Ingimar Guðnason, prófastur og kennari í Reykholti, f. 19. júlí 1903 á Óspaksstöðum Hrútafirði, d. 14. janúar 1976, og Steinunn Anna Bjarnadóttir, enskukennari og námsbókahöfundur í Reykholti, f. 11. júlí 1897 í Reykjavík, d. 9. desember 1991.

Guðmundur var yngstur fimm systkina. Þau voru Bjarni, f. 14. apríl 1934, d. 24. mars 2004, Kristín, f. 3. september 1936, d. 22. mars 1937, Kristín Guðný, f. 9. mars 1938, d. 13. ágúst 1938, Steinunn Anna, f. 15. júní 1939.

Guðmundur kvæntist 1. febrúar 1969 Dóru Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingi, f. 14. júlí 1943. Foreldrar hennar voru Sigurður Jónsson f. 2. maí 1893, d. 18. febrúar 1959, og Þuríður Helgadóttir f. 26. mars 1905, d. 16. febrúar 1987.

Börn Guðmundar og Dóru eru: 1) Sigurður Einar, flugstjóri, f. 23. júní 1969, börn Sigurðar og konu hans Söru Elísu Þórðardóttur (þau skildu) eru Þórður Harry, f. 2. október 2000, Daníella Björk, f. 21. október 2008, Dóra Elísabet Ísabella, f. 30. apríl 2011, Ísól Athena, f. 24. júlí 2013, 2) Anna, lyfjafræðingur, f. 23. október 1971, maki Mark Andrew Twomey, f. 27. apríl 1970, börn þeirra eru Patrick Guðmundur, f. 30. júní 2007, Emma Margaret, f. 11. febrúar 2015, og 3) Margrét Rúna, hjúkrunarfræðingur, f. 19. ágúst 1976, maki Sigfús Ólafsson, f. 20. maí 1974, börn þeirra eru Kristín Dóra, f. 27. júní 2005, Guðmundur Óskar, f. 26. október 2007, Ólafur Þór, f. 19. maí 2011.

Guðmundur ólst upp í Reykholti í Borgarfirði. Hann gekk í Barnaskólann á Kleppjárnsreykjum, Reykholtsskóla og varð stúdent frá MR 1962. Hann varð viðskiptafræðingur frá HÍ 1968. Hann vann hjá Efnahagsstofnun/Framkvæmdastofnun og sinnti sem aukastarfi kennslu og reikningshaldi í Hótel- og veitingaskólanum. Hann var deildarstjóri launadeildar í fjármálaráðuneytinu 1974-1976. Hann var forstjóri Skipaútgerðar ríkisins 1976-1992. Guðmundur starfaði síðan sjálfstætt þar til hann varð forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 1994-2008. Hann vann fyrir heilbrigðis- og velferðarráðuneytið 2007-2011. Hann sat í bæjarstjórn Seltjarnarness, varabæjarfulltrúi 1974-1978 og bæjarfulltrúi 1978-1990. Hann var greinahöfundur fyrir ritið Quarterly Economic Review 1972-1984. Hann starfaði í ýmsum norrænum nefndum um samgöngumál, var formaður stjórnar Heilsugæslunnar á Seltjarnarnesi 1990-1994, og var í samstarfsnefnd um málefni aldraðra 2013-2016. Guðmundur kom að ýmsum félagsmálum. Sat í stjórn Neytendasamtakanna 1972-1976, þar af formaður í tvö ár. Hann sat í miðstjórn og ýmsum öðrum nefndum á vegum Framsóknarflokksins frá 1970. Var félagi í Rótarýklúbbi Seltjarnarness og þ.a. forseti klúbbsins 1995-1996. Hann var einnig í Oddfellowreglunni frá 1984. Hann var í sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju frá 1990, formaður 1994-2022 og varaformaður til dauðadags.

Útför Guðmundar fer fram frá Seltjarnarneskirkju í dag, 10. apríl 2025, klukkan 13. Streymt verður frá útför:
www.mbl.is/andlat

Pabbi okkar er látinn. Hann var einstakur maður og ekki hægt að hugsa sér betri föður og afa. Hann fæddist og ólst upp á prestssetrinu í Reykholti í Borgarfirði og þótti okkur systkinunum einstaklega gaman að heyra hann segja sögur frá æskuárum sínum. Í Reykholti var gestkvæmt og þjóðhöfðingjar, ráðherrar og önnur fyrirmenni sóttu þangað. En pabbi hafði mest gaman af að segja okkur sögur um dýrin og æskuárin í Reykholti. Sögurnar voru líflegar og skemmtilegar og við lifðum okkur mikið inn í þau ævintýri. Leikrænn lestur hans á ævintýrum í bókum fyrir svefninn var svo skemmtilegur og stundum átakamikill enda hágrétum við yfir lestri hans á sögunni af svaninum sem söng sinn síðasta söng áður en hann dó.

Við gátum ætíð leitað til pabba sem hafði ráð við einu og öllu. Það var einstaklega gott að heyra í honum í sambandi við tölvur og tæknimál. Hann var hagleiksmaður og gat aðstoðað við heimilisviðgerðir í stóru sem smáu. Foreldrar okkar byggðu hús sitt við Víkurströnd og er það órækur minnisvarði um hve laghentur maður pabbi var. Á áttræðisaldri skaust hann upp um öll loft, upp á þak og hékk í stigum við að setja upp seríur og gera við. Hann var bíladellukall og naut sín undir stýri í erindum fyrir ástvini sína.

Hann samdi vísur um okkur og barnabörnin, byggði með okkur lego, kenndi okkur stærðfræði af þolinmæði og natni, sendi útdrátt úr fréttum þegar við ferðuðumst til útlanda. Faðir okkar var fróðleiksmaður og setti sig vel inn í málin. Það var alltaf kveikt á fréttatímunum og spennan magnaðist við hverja klukkustund þegar fréttatíminn nálgaðist.

Pabbi var séntilmaður fram í fingurgóma, var vel til hafður, iðulega í skyrtu og með bindi, í fínum buxum og í jakka. Ungur að árum naut hann þess að ferðast um heiminn og hafði komið til margra landa, meðal annars Taílands, Japan og Líbanon. Frá þessum ferðalögum þótti honum gaman að segja og samdi meðal annars ljóðabálk um Líbanon og merka og sorglega sögu þess lands. Spennandi sögur um framandi lönd kveiktu vafalítið ferðaáhuga hjá okkur.

Hann var forystumaður og valdist til vandasamra verkefna í þágu samfélagsins. Kirkjustarfið á Seltjarnarnesi átti um áratugi sérstakan stað í hjarta hans.

Foreldrar okkar voru mjög náin og stóðu þéttingsfast saman í veikindum pabba. Þar naut faðir okkar ástar, alúðar og fagmennsku móður okkar hjúkrunarfræðingsins. Hann ljómaði ætíð þegar mamma kom til hans á sjúkrastofuna. Að sama skapi ljómaði hann af stolti þegar hann talaði um okkur börn sín og barnabörnin.

Faðir okkar barðist hetjulega við krabbameinið. Tíma hvers manns er að lokum naumt skammtað en við gátum öll heimsótt hann á sjúkrabeðinn og kvatt hann og fyrir það erum við þakklát. Blessuð sé minning elsku pabba.

Sigurður Einar, Anna og Margrét Rúna.

Guðmundur Einarsson fæddist á dögum seinni heimsstyrjaldarinnar rétt áður en stofnað var til lýðveldis á Þingvöllum. Sigríður Jóhannesdóttir amma mín á Gunnarsstöðum hélt á Guðmundi í fangi sínu áður en hún eignaðist móður mína Kristínu Sigfúsdóttur þar sem hún starfaði um stuttan tíma á prestssetrinu í Reykholti. Séra Einar Ingimar Guðnason kenndi síðar móður minni íslensku á Varmalandi. Með Guðmundi kveð ég ekki einungis elskulegan tengdaföður og vin heldur kveður tíminn að vissu leyti.

Frá fyrstu kynnum var mér tekið vel á Víkurströnd af Guðmundi og tengdamóður minni Dóru Sigurðardóttur. Ég kom inn í samfélagið á Nesinu, vinstrisinnaður, róttækur Norðlendingur sem var ákveðinn í að festa mér Margréti Rúnu. Frá upphafi gat ég reitt mig á Guðmund í ákafamiklum samræðum um íslenskt samfélag, sögu þess og menningu en einnig um allt sem laut að alþjóðamálum. Ég var í námi í sagnfræði og Guðmundur gaf sig allan í rökræður um málefni er lutu að námi mínu.

Síðan færðust árin yfir, við Margrét hófum búskap og eignuðumst börnin okkar þrjú. Í umgengni við barnabörnin og uppeldi þeirra naut Guðmundur sín. Þar braust fram natnin, atlætið og listrænt eðli hans. Hann tók myndir af barnabörnum sínum og myndbönd en samdi einnig til þeirra vísur og ljóð. Hann sagði þeim sögur af uppvaxtarárunum í Reykholti og dýrunum í sveitinni. Guðmundur var sannur mannvinur og vakandi yfir velferð samferðafólks síns.

Guðmundur var forystu- og samfélagsmaður af klassískri gerð. Ég sagði gjarnan um Guðmund að hann tryði á Guð, Framsóknarflokkinn og Ford-bifreiðar. Hann var þegn sinnar kirkju en umfram allt í þjónustu samfélagsins. Guðmundur var forstjóri Skipaútgerðar ríkisins, sat í bæjarstjórn á Seltjarnarnesi, starfaði sem forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og áfram mætti telja. Áratugum saman naut hann sín í starfi í þágu sóknarnefndar Seltjarnarneskirkju. Hann var vakinn og sofinn yfir velferð sóknarinnar og safnaðarstarfsins til hinsta dags.

Guðmundur var selskapsmaður og naut þess að hafa fjölskylduna hjá sér. Stórfjölskyldan fagnaði gjarnan áramótum á Víkurströnd. Við Guðmundur áttum til að sitja lengi fram eftir fyrstu nótt ársins og rökræða. Eina nýársnóttina nefnir Guðmundur við mig hvort ég gæti ekki tekið að mér ritningarlestur í messunni daginn eftir. Mér var sannur heiður að bregðast vel við bón hans. Guðmundur kvartaði aldrei, bar sig vel, bað ekki um mikið og sagði aldrei styggðaryrði um nokkurn mann. Traustastur var Guðmundur eiginkonu sinni. Þau áttu gæfuríkt og farsælt hjónaband og byggðu sitt heimili bókstaflega frá grunni í sveita síns andlits eins og þá tíðkaðist og treystu þannig stoðir stórfjölskyldu okkar.

Guðmundur tengdafaðir minn lifði góðu og innihaldsríku lífi og verður sárt saknað. Blessuð sé minning þessa mæta manns.

Sigfús Ólafsson.

Afi okkar Guðmundur Einarsson var einstaklega ljúfur og góður við okkur barnabörnin. Hann var sannkallaður barnakarl. Löngum stundum sat hann með okkur í hægindastólnum á Víkurströnd, ruggandi fram og til baka og syngjandi um leið. Kveðin var stemma sem hófst á orðunum: Við skulum róa sjóinn á, síðan fylgdi sniðug þula sem innihélt nöfnin okkar. Sagan af Búkollu var flutt með tilþrifum og hver persóna fékk sína rödd og hæst lét auðvitað Búkolla sem baulaði hástöfum. Sögurnar af Pönnukökukónginum voru sagðar undir svefninn. Hann sat með börnin fyrir framan tölvuna og skoðaði myndir og myndbönd af barnahópnum. Einnig átti hann mikið safn gamalla mynda úr sveitinni sem við skoðuðum og um leið sagðar sögur af dýrunum. Á afmælum fengum við heimatilbúin kort og ætíð fylgdi vísa með.

Afi kenndi okkur mannganginn, spilaði við okkur, lék við okkur í sandkassanum, hoppaði með okkur á trampólíni og fleira sniðugt. Hann tók barnabörnin með í sunnudagaskólann í kirkjuna sína úti á Seltjarnarnesi og bauð okkur á jólaböll Oddfellow. Hann naut þess að hafa okkur með í félagsstarfi sínu. Á sumrin hélt afi veislur með ömmu og grillaði fyrir okkur. Eftir sundferðir beið ætíð góðgæti hjá ömmu og afa, ís, kókómjólk eða ein með öllu ef við vorum glorsoltin. Síðan lagaði afi frábærar samlokur á samlokugrillinu sínu.

Alltaf var tími til að skutlast með okkur, ferja til og frá Keflavíkurflugvelli seint um kvöld eða snemma um morgun. Eina skiptið sem talið er að afi Guðmundur hafi mögulega brotið umferðarlög var þegar eitt barnabarnið var við það að missa af flugi. Afi ók á æfingar og leiki, keyrði okkur í skólann og var alltaf til staðar. Hann batt bindishnúta fyrir strákana á jólunum en lét ömmu sjá um að greiða stúlkunum. Afi var mikill jólakarl og enn svakalegri með áramótafjörið sitt. Hann studdi björgunarsveitina Albert myndarlega ár hvert. Árið var iðulega kvatt með miklu fjöri og sprengingum á Víkurströnd.

Við munum sakna afa Guðmundar sárt og erum þakklát fyrir allt sem hann gerði fyrir okkur og allt sem hann gaf af sér.

Þórður Harry,
Kristín Dóra,
Patrick Guðmundur,
Guðmundur Óskar,
Daníella Björk,
Dóra Elísabet,
Ólafur Þór,
Ísól og Emma.

Móðurbróðir minn, Guðmundur Einarsson, var gæfumaður í lífinu. Hann átti vel gerð og glæsileg börn og hjónaband hans einkenndist af gagnkvæmri umhyggju og algerri samstöðu. Þau Dóra máttu hvorugt af öðru sjá.

Þegar horft er yfir starfsævi hans sést hversu farsæll hann var og hversu ríka hæfileika hann hafði sem stjórnandi og yfirmaður og jafnframt samstarfsmaður allra en ekki bara sumra. Sem forstjóri Skipaútgerðar ríkisins setti hann fram, kornungur maður, nýja sýn um það hvernig strandsiglingar gætu nýst íslensku samfélagi og stórmerkilegt er að nú, þegar hann er allur, er í íslensku samfélagi kallað verulega eftir strandsiglingum. Nú er sérþekkingar hans og reynslu sárt saknað. Niðurlagning Skipaútgerðarinnar árið 1990 var rammpólitísk aðgerð sem var ætlað að sýna hina nýju frjálshyggjustefnu í verki.

Guðmundur varð þekktur að því sem forstjóri, þegar kjaradeilur geisuðu, að hann tengdist vinaböndum þeim sem stóðu uppi í hárinu á honum. Frá þessu sagði m.a. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir sem þekktu hlýju hans af eigin reynslu þegar hann sá verkfallsvörðum fyrir þægilegri aðstöðu.

Ég leitaði oft til frænda míns eftir góðum ráðum og leiðbeiningum þegar ég stóð sjálf í stormi. Leynivopn hans var ró og yfirvegun sem skilaði honum miklum árangri í að leysa hnúta.

Í tíð Guðmundar sem forstjóri heilsugæslunnar voru gerðar snjallar umbætur. Sérstaklega fannst mér vel heppnað að setja upp beinan aðgang að hjúkrunarfræðingi sem mat þörfina á læknisþjónustu en með þessu jókst skilvirkni þjónustunnar verulega og létti á bráðamóttöku.

Þegar ég fór að starfa á kirkjuþingi varð ég þess áskynja að frændi minn naut mikils álits vegna þekkingar sinnar, og prestssonurinn úr Reykholti hafði orð á sér fyrir það að vita allt sem vita þurfti um málefni kirkjunnar.

Mér er það minnisstætt að sem unglingur að hafa nánast sprungið af stolti af frænda mínum. Þá hafði komið til deilna sem vöktu þjóðarathygli og snerist um kirkjustarfið á Seltjarnarnesi. Sótt var að ungum presti og sóknarnefndarmaðurinn Guðmundur fór í sjónvarpsviðtal, horfði beint í myndavélina og sagði: Prestar eru ekki guðir, heldur menn. Þannig tókst honum að lægja öldur missættis með heilbrigða skynsemi að vopni.

„Þá kemur hann mér í hug, er ég heyri góðs manns getið; hann reyndi ég svo að öllum hlutum.“

Kristrún Heimisdóttir.

Sumir skilja aðeins eftir sig góðar minningar. Mínar fyrstu eru af nýútskrifuðum viðskiptafræðingi sem sat þolinmóður við að reyna að koma nægilegri bókfærsluþekkingu inn í höfuð óstýriláts unglingspilts svo hann kæmist í gegnum prófin í 3. bekk Menntaskólans í Reykjavík. Þá kynntist ég fyrst nokkrum kostum Guðmundar; rökhyggju, hvatningu, ákveðni, þolinmæði og vináttu. Guðmundi tókst þetta ætlunarverk sitt eins og flest annað í lífinu. Hann var gæfumaður í einkalífi, giftist Dóru Sigurðardóttur sem var systir Margrétar stjúpmóður minnar og þau eignuðust þrjú börn og barnabörnin eru níu. Fjölskylda þeirra systra, Möggu og Dóru og systur þeirra Svölu, hafði lag á að laða tengdasynina í heimahagana á Seltjarnarnesi. Þar átti Guðmundur eftir að þjóna samfélaginu af ósérhlífni og tryggð. Hann var einn helsti forystumaður Framsóknarflokksins á Seltjarnarnesi, sat lengi í bæjarstjórninni, var stjórnarformaður Heilsugæslunnar, lét sér mjög annt um hag kirkjunnar og var formaður sóknarnefndar um langa hríð. Ekki að undra að sonur prófasts léti sig málefni kirkjunnar miklu varða. Guðmundur ólst upp á menningar- og menntaheimili í Reykholti í Borgarfirði. Móðir hans var Anna Bjarnadóttir enskukennari, sem samdi námsefni sem kennt var í öllum skólum landsins, og faðir hans Einar Guðnason, prestur og prófastur, sem gifti okkur hjónin. Anna og Einar bjuggu síðustu árin á Seltjarnarnesi.

Guðmundur var víðsýnn og fróður, mikill áhugamaður um bíla, flugvélar, skip og tölvur. Það mátti alltaf sækja þekkingu, upplýsingar og ráð til hans um nýjustu þróun. Guðmundur vann með námi hjá Flugfélagi Íslands og þar hefur hann líklega fengið áhugann á flugi sem hann skilaði til sonar síns sem er flugstjóri hjá Icelandair. Áhuginn á farartækjum hefur efalítið ráðið einhverju um að Guðmundur varð forstjóri Skipaútgerðar ríkisins þar sem hann hafði forystu um endurnýjun skipaflotans og nútímavæðingu alls rekstrar. Skipaáhuganum deildi hann með mági sínum Ágústi Jónssyni, sem var skipstjóri hjá Eimskip. Stórfjölskylda Dóru, börn Sigurðar Jónssonar, skólastjóra og oddvita, og Þuríðar Helgadóttur handavinnukennara, er samheldin og fjölskylduböndin sterk og náin. Á þeim vettvangi sátum við Guðmundur og fleiri löngum og ræddum landsins gagn og nauðsynjar, eins og í öðru var Guðmundur hæglátur, fágaður og rökviss í málflutningi sínum.

Ég þakka Guðmundi fyrir samræðurnar, hollu ráðin, lærdóminn, vináttuna og traustið. Með honum er genginn mikill heiðursmaður og einstaklega góður drengur. Nú hefur eitthvað brostið og stórt skarð er höggvið í fjölskylduna og vinahópinn en minningin lifir.

Dóru, Sigga, Önnu, Möggu Rúnu og fjölskyldum og barnabörnum votta ég innilega samúð.

Bogi Ágústsson.

Guðmundur Einarsson, félagi í Rótarýklúbbi Seltjarnarness til áratuga, er fallinn frá. Guðmundur lést á Landspítalanum 1. apríl síðastliðinn, á 82. aldursári. Við í Rótarýklúbbi Seltjarnarness kveðjum nú traustan félaga, sem gegndi áratugalöngu hlutverki í starfi klúbbsins.

Guðmundur gekk í klúbbinn árið 1976 og vantaði því aðeins eitt ár á að hafa verið félagi í hálfa öld. Segja má að Guðmundur hafi tekið Rótarýhugsjónina í arf úr foreldrahúsum, þar sem faðir hans var Rótarýfélagi. Guðmundur var virkur þátttakandi í starfi klúbbsins alla tíð og var forseti starfsárið 1995-96. Klúbburinn sæmdi hann Paul Harris-orðu Rótarýhreyfingarinnar árið 2005.

Guðmundur var fæddur í Reykholti í Borgarfirði og ólst þar upp á menningarheimili. Líf hans einkenndist af ábyrgð, þjónustu og framsýni – og sú sýn fylgdi honum jafnt í starfi sem stjórnandi og embættismaður, sem og í þeim fjölmörgu félagsstörfum sem hann sinnti af alúð og einurð. Hann var viðskiptafræðingur að mennt og á ferli sínum gegndi hann margvíslegum stjórnunarstörfum, m.a. sem forstjóri Skipaútgerðar ríkisins og síðar forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Guðmundur lét sig einnig varða málefni samfélagsins í víðu samhengi – hann sat í bæjarstjórn Seltjarnarness um árabil og átti sæti í fjölmörgum nefndum og ráðum.

Félagsmálin áttu hug hans, og í gegnum störf í Neytendasamtökunum, Framsóknarflokknum, Oddfellowreglunni, sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju og Rótarýklúbbnum má sjá skýra mynd af manni sem var tilbúinn að leggja sitt af mörkum til að efla samfélagið og styðja við velferð annarra. Hann tók þátt af einlægni, hafði góða nærveru og lagði metnað í hvert það hlutverk sem hann tók að sér.

Við félagar í Rótarýklúbbi Seltjarnarness minnumst Guðmundar með virðingu og þakklæti. Hann var hlýlegur, fróður og vandvirkur félagi – heilsteyptur maður sem lét verkin tala. Við sendum eiginkonu hans Dóru, börnum þeirra og barnabörnum innilegar samúðarkveðjur og kveðjum góðan og traustan félaga með söknuði.

Hilmar Thors,
forseti Rótarýklúbbs Seltjarnarness.

Guðmundur var heiðursmaður. Kynni okkar hófust þegar ég tók að mér starf héraðslæknisins í Reykjavík síðsumars árið 1996 og urðu þau mjög náin eftir að ég var ráðinn forstjóri lækninga hjá Heilsugæslunni í Reykjavík, seinna höfuðborgarsvæðisins, þar sem Guðmundur hafði verið forstjóri frá 1994. Skjótt kom í ljós að við Guðmundur deildum svipaðri sýn á hlutverk og framtíð heilsugæslunnar og þá okkur greindi á var frekar um bitamun en fjár að ræða. Guðmundur fylgdi sjónarmiðum sínum eftir af festu og gegnheilli kurteisi í samskiptum sínum við yfirvöld heilbrigðismála og aðra þá sem við var að kljást hverju sinni. Hann er einn af örfáum einstaklingum sem ég hef kynnst með rætur utan heilbrigðisþjónustunnar sem hafði raunsæja sýn á um hvað var að véla. Guðmundur var einstaklega vel lesinn í því sem hann tók þátt í að ræða og gerði skýran greinarmun á skoðun og þekkingu, sem er sjaldgæfur eiginleiki. Hann átti sér háðskan málshátt, sem hann brúkaði einkum þegar honum fannst nóg um flækjur í ákvarðanatöku og framgangi mála: „Warum es einfach machen wenn man es kompliziert machen kann.“ (Því að hafa hlutina einfalda ef maður getur flækt þá.)

Guðmundur var trúmaður í dýpstu merkingu þess orðs, það fylgdi áru hans en hann hafði ekki hátt um það dagsdaglega. Einnig var hann Framsóknarmaður og vanvirti hvorki flokk sinn né flokkssystkini þótt þau ættu það skilið nema þegar honum var gersamlega ofboðið, sem var ekki oft. Eitt sinni er honum mislíkaði herfileg ákvörðun eins ráðherra flokks síns og hafði verið spurður í fámennum hópi hvernig á þessari furðulegu ákvörðun stæði sagði Guðmundur og stafaði orðið „þetta er það sem kallað er „H-E-I-M-S-K-A“. Lengra gekk hann ekki en gerði það á minnisstæðari hátt en mælt orðið hefði náð. Til þess að forðast misskilning skal tekið fram að þetta var ekki heilbrigðisráðherra, sem átti í hlut.

Guðmundur á mikinn heiður af því að koma á fót stöðu kennslustjóra í heimilislækningum og það án þess að hafa fyrir því sérstaka fjárveitingu. Sýndi þetta frumkvæði hans yfirvöldum fram á hvort tveggja í senn, nauðsyn þess að kenna heimilislækningar hérlendis og jafnframt að það væri vel hægt. Markaði þessi ákvörðun upphaf að blómlegri námsskipan í greininni. Þetta var góður tími.

Ég kveð Guðmund með virðingu og votta Dóru, börnum og fjölskyldum þeirra samúð mína.

Lúðvík Ólafsson.

Kveðja frá sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju

Guðmundur Einarsson var fyrst kallaður til starfa í sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju árið 1990. Hann tók við formennsku í sóknarnefndinni á viðkvæmum tíma í safnaðarstarfinu, árið 1994. Guðmundur starfaði í sóknarnefndinni óslitið í 35 ár, síðustu árin sem varaformaður eftir að veikindi tóku sig upp er nú hafa lagt þennan góða og trausta mann að velli. Það er orðin býsna löng vegferð, þar sem Guðmundur hefur gefið tíma sinn og krafta í ólaunuðu sjálfboðastarfi, í veraldlegum skilningi. Ég veit þó fyrir víst að Guðmundur naut þess að starfa á vettvangi kirkjunnar og launin sem hann hlaut munu hvorki mölur né ryð fá eytt.

Guðmundi var umhugað um kirkjuna og hafði lag á að fá öflugt fólk til liðs við sóknarnefndina. Sjálfur var hann vakinn og sofinn yfir öllu safnaðarstarfinu og alltaf tilbúinn að vinna þau verk sem vinna þurfti, með léttri lund. Þótt allt væri sjálfboðavinna var ábyrgðin mikil. Þekking Guðmundar og reynsla af fjármálum og rekstri nýttist okkur vel í kirkjunni. Ársskýrslur Seltjarnarneskirkju eru umtalaðar innan þjóðkirkjunnar fyrir vandaða gerð; fagmennsku, greinargóðar upplýsingar og myndefni úr safnaðarstarfinu.

Guðmundur var einstaklega geðprúður maður og lausnamiðaður í störfum sínum. Hann var raungóður og vann margvísleg verkefni í kirkjunni, var t.d. lengi tæknistjóri hennar. Áberandi var hversu fús Guðmundur var til verka, hógvær og hlýr í viðmóti. Nærvera hans var notaleg og góð. Hann var einnig mannasættir og við í sóknarnefndinni eigum honum mikið að þakka fyrir þann samhug og eindrægni sem ríkt hefur í sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju allan þann tíma sem hans hefur notið við í nefndinni, eða til þessa dags. Guðmundur kom á sinn síðasta sóknarnefndarfund 11. febrúar sl. Hann var þá farinn að kröftum en andinn óbugaður og sterkur. Við kvöddumst með kossi á vanga og faðmlagi. Við sem vorum á þessum fundi erum þakklát fyrir þessa stund.

Á persónulegum nótum langar mig að geta þess að við Guðmundur kynntumst fyrst árið 2000, eftir að hann varð forstjóri Heilsugæslunnar í Reykjavík. Ég var þá framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækis sem vann ýmiss konar upplýsingar úr rafrænum heilsufarsgögnum. Þá kynntist ég því vel hve framsýnn, fróður og vel að sér um upplýsingatækni Guðmundur var. Hann hafði sterka tæknitaug sem ég tengdi vel við. Hann var einstaklega vel að sér um tölvur og tækni – og einnig bíla. Með okkur tókust strax góð kynni sem þróuðust yfir í trausta vináttu sem aldrei bar skugga á. Aðrir munu eflaust verða til að minnast Guðmundar fyrir árangur í ýmsum ábyrgðarstörfum, bæði í atvinnulífi og stjórnmálum.

Nú skilur leiðir að sinni. „Ég fer burt að búa yður stað,“ sagði Jesús við vini sína, „svo að þér séuð einnig þar sem ég er.“ Þessi orð eru bæði styrkur og huggun er við í sóknarnefnd kveðjum vin okkar Guðmund með söknuði og þökkum honum samfylgdina. Ég bið kærleiksríkan Guð að umvefja Dóru og fjölskylduna, blessa þau og styrkja.

Fyrir hönd sóknarnefndar Seltjarnarneskirkju,

Svana Helen Björnsdóttir, formaður.

Við kveðjum nú Guðmund Einarsson, heiðursmann og máttarstólpa Framsóknarflokksins. Guðmundur var um árabil formaður Framsóknarfélags Seltjarnarness og sat í bæjarstjórn 1978-1990 og hafði áður verið varabæjarfulltrúi 1974-1978. Guðmundur starfaði ötullega innan stjórnar kjördæmissambandsins í Suðvesturkjördæmi (KFSV), þar sem hann lét til sín taka af ábyrgð, elju og festu. Guðmundur var Framsóknarflokknum gríðarlega mikilvægur og var ávallt kallaður til þegar mikið stóð til og honum falin ábyrgðarstörf í okkar þágu.

Guðmundur var í framboði á lista Framsóknar fyrir síðustu alþingiskosningar, skipaði 16. sæti á framboðslistanum. Í samtölum mínum við hann í aðdraganda kosninganna fann ég hversu umhugað honum var um framgang framboðsins. Það var leitun að öðrum eins öðlingi og prúðmenni, en hann gat líka verið fastur fyrir þegar tilefni var til – sannur hugsjónamaður með sterkan karakter og hlýtt hjarta. Með fráfalli Guðmundar missum við í Framsókn félaga sem hafði djúpar rætur í grasrótinni, mann sem bar flokkinn áfram með hugsjón, heiðarleika og virðingu fyrir samferðafólki sínu.

Ég sendi fjölskyldu og ástvinum innilegustu samúðarkveðjur með þakklæti fyrir hlutdeild þeirra í því mikilvæga starfi sem Guðmundur sinnti fyrir Framsóknarflokkinn.

Birkir Jón Jónsson, formaður KFSV.

Fallinn er frá Guðmundur Einarsson, góður og kær vinur. Leiðir okkar Guðmundar lágu saman í lok níunda áratugar síðustu aldar í aðdraganda bæjarstjórnarkosninga á Seltjarnarnesi. Þá hafði Guðmundur verið farsæll bæjarfulltrúi fyrir Framsóknarflokkinn á Seltjarnarnesi í 12 ár. Félagshyggjuöflin, mið- og vinstriöflin, sameinuðu krafta sína og buðu fram sameiginlega listann Nýtt afl, árið 1990. Samkomulag var um að sitjandi fulltrúar létu sæti sín eftir nýjum frambjóðendum sem öttu kappi í prófkjöri. Þannig féll það í minn hlut að taka sæti í bæjarstjórn, sem oddviti nýja listans. Í baráttu þessari fékk ég dyggan stuðning frá Guðmundi, óskoruðum leiðtoga framsóknarmanna á Seltjarnarnesi. Hann studdi kynslóðaskiptin, treysti ungri konu til verka. Á þessum tíma hófst náið og gott samstarf okkar Guðmundar sem aldrei bar skugga á – samstarf sem stóð yfir í nær fjóra áratugi og fólst í stuðningi við starf framsóknarmanna á Seltjarnarnesi, í Reykjaneskjördæmi og síðar Suðvesturkjördæmi. Allan þennan tíma var Guðmundur lykilmaður í starfi flokksins og betri liðsmann hefði ekki verið hægt að finna. Hann var formaður Framsóknarfélags Seltjarnarness til fjölda ára og starfaði lengi í stjórn kjördæmissambandsins. Þar fóru hann og Elín þáverandi formaður sambandsins iðulega fremst í flokki við að sjá til þess að hámarksárangur næðist þótt flokksstarfið reyndist stundum róstusamt eins og gengur og gerist.

Guðmundur var einstaklega traustur maður, úrræðagóður og lipur í mannlegum samskiptum. Hann sýndi fólki stuðning, skilning og mildi. Sökum þessara góðu mannkosta valdist hann til forystu víða, svo sem í sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju þar sem hann sat í 35 ár, þar af sem formaður í 28 ár. Undir forystu hans var horft fram á veginn og kirkjustarfið efldist.

Guðmundur var öflugur rótarýmaður. Á þeim vettvangi lágu leiðir okkar einnig saman. Hann var einn þeirra sem unnu ötullega að því að Rótarýklúbbur Seltjarnarness yrði opnaður fyrir konum og þær boðnar velkomnar til starfa. Um aldamótin fékk ég boð frá honum um að ganga fyrst kvenna til liðs við klúbbinn ef félagar samþykktu, sem ég þáði. Störfuðum við saman í þeim góða félagsskap í 25 ár.

Ekki fór framhjá neinum að Guðmundur var mikill fjölskyldumaður. Hann var stoltur af Dóru sinni, börnunum og barnabörnum. Dóra og Guðmundur voru samhent og glæsileg hjón sem var gaman að hitta og heimsækja. Fjölmargir fundir fóru fram á heimili þeirra hjóna á Víkurströndinni. Þá var alltaf áhugavert að heyra hver sýn Guðmundar og Dóru væri á málin.

Nú við leiðarlok vil ég þakka Guðmundi fyrir góða vináttu og stuðning í áratugi. Ég minnist hans með mikilli virðingu og hlýju. Ég sendi Dóru, Sigurði, Önnu, Margréti og fjölskyldum þeirra og öðrum ástvinum mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu Guðmundar.

Siv Friðleifsdóttir.