Blíðviðrið Það hafa gefist mörg tækifæri í vetur til að njóta útiverunnar. Hér má sjá konu í göngutúr á síðasta degi veðurstofuvetrarins hinn 31. mars.
Blíðviðrið Það hafa gefist mörg tækifæri í vetur til að njóta útiverunnar. Hér má sjá konu í göngutúr á síðasta degi veðurstofuvetrarins hinn 31. mars. — Morgunblaðið/Eggert
Tíðarfar vetrarins 2024 til 2025 var nokkuð hagstætt. Svona er þetta orðað í nýbirtu tíðarfarsyfirliti Veðurstofu Íslands fyrir mánuðina desember til mars, að báðum meðtöldum. Þessa fjóra mánuði telur Veðurstofan til vetrarins þótt sumardagurinn fyrsti sé ekki fyrr en 24

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Tíðarfar vetrarins 2024 til 2025 var nokkuð hagstætt.

Svona er þetta orðað í nýbirtu tíðarfarsyfirliti Veðurstofu Íslands fyrir mánuðina desember til mars, að báðum meðtöldum.

Þessa fjóra mánuði telur Veðurstofan til vetrarins þótt sumardagurinn fyrsti sé ekki fyrr en 24. apríl. Er þetta kallað veðurstofuveturinn.

Hitafar var þó nokkuð tvískipt í vetur, segir Veðurstofan. Desember og janúar voru kaldir, en febrúar og mars voru hlýir og snjóléttir. Veturinn í heild var tiltölulega hægviðrasamur og tíð góð.

Töluvert var þó um illviðri í febrúar. Mikið sunnanhvassviðri gekk yfir landið dagana 5. og 6. febrúar, sem bætist í hóp verstu óveðra síðustu ára.

Hiti yfir meðallagi

Meðalhiti í Reykjavík í vetur var 1,3 stig sem er 0,5 stigum yfir meðallagi sömu mánaða áranna 1991 til 2020. Telst veturinn í 21. til 22. sæti yfir hlýjustu vetur frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík 1871.

Á Akureyri var meðalhiti vetrarins -0,4 stig, sem er 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri var veturinn í 34. til 35. sæti yfir hlýjustu vetur frá upphafi samfelldra mælinga á Akureyri 1881.

Veturinn var tiltölulega úrkomusamur í Reykjavík. Heildarúrkoma vetrarins þar var 443,0 millimetrar (mm) sem er 25% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Á Akureyri mældist heildarúrkoma í vetrarmánuðunum fjórum 209,5 mm, sem er 90% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Desember var sérlega þurr á Akureyri en úrkoma var um eða yfir meðallagi í öðrum mánuðum.

Í Reykjavík voru alhvítir dagar vetrarins 40, sem er sjö færri en að meðaltali 1991 til 2020. Á Akureyri voru 60 alhvítir dagar, sem er 13 færri en að meðaltali 1991 til 2020. Snjóhula var um og yfir meðallagi í desember og janúar, en febrúar og mars voru snjóléttir.

Í Reykjavík mældust sólskinsstundir vetrarins 186, sem er 21 stund undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar í vetrarmánuðunum fjórum 157,2, sem er 38,6 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Veðurstofan hefur jafnframt birt tíðarfarsyfirlit fyrir nýliðinn marsmánuð.

Mars var hlýr og hægviðrasamur um allt land. Úrkomulítið var norðaustanlands en úrkomusamara á vestanverðu landinu. Nokkuð sólríkt var bæði í Reykjavík og á Akureyri.

Meðalhiti í Reykjavík mældist 3,1 stig í mars. Það er 1,9 stigum yfir meðallagi marsmánaða árin 1991 til 2020, en 1,7 stigum yfir meðallagi undanfarins áratugar.

Mælist mars í 19. sæti í röð samfelldra 155 mælinga.

Á Akureyri mældist meðalhitinn í mars 2,0 stig sem er 2,0 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,8 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Mælist hann í 16. sæti í röð 145 mælinga.

Mánuðurinn var óvenjulega hægviðrasamur. Vindhraði á landsvísu var um 1,2 m/s minni en að jafnaði árin 1991 til 2020.

Á mörgum sjálfvirkum stöðvum, sem hafa mælt í rúmlega 20 ár, var meðalvindhraði marsmánaðar sá minnsti frá upphafi mælinga þar.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson