Stórkostlegt Þórunn skreytti hátíðarborðið í fallegum litum þar sem mintugrænt, brúnt, svart og hvítt var í forgrunni. Síðan hengdi hún hænsnanet í ljósin til þess að geta framkallað þessa „Avatar-ævintýra“-stemningu og notaði til að hengja blóm, greinar, borða og egg í.
Stórkostlegt Þórunn skreytti hátíðarborðið í fallegum litum þar sem mintugrænt, brúnt, svart og hvítt var í forgrunni. Síðan hengdi hún hænsnanet í ljósin til þess að geta framkallað þessa „Avatar-ævintýra“-stemningu og notaði til að hengja blóm, greinar, borða og egg í.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórunn er listrænn stjórnandi hjá Icewear og starfar líka sem stílisti. Hún er þekkt fyrir að vera með ákveðið þema eftir því hvert tilefnið er. Hefðin sem Þórunn heldur í er fyrst og fremst að fjölskyldan geri eitthvað saman

Sjöfn Þórðardóttir

sjofn@mbl.is

Þórunn er listrænn stjórnandi hjá Icewear og starfar líka sem stílisti. Hún er þekkt fyrir að vera með ákveðið þema eftir því hvert tilefnið er.

Hefðin sem Þórunn heldur í er fyrst og fremst að fjölskyldan geri eitthvað saman.

„Við fjölskyldan borðum ávallt saman um páskana. Síðastliðin ár höfum við alltaf farið upp í sumarbústað og eldað góðan mat og verið að njóta saman. Ég elska þessi frí og þetta er í raun okkar hefð, að vera saman og borða góðan mat.“

Skreytir með mintugrænu, brúnu, hvítu og svörtu

Þórunn hefur mikið dálæti á því að skreyta og þegar kemur að því er hún ávallt með þema þegar kemur að litavali og jafnvel efnisvali líka.

„Ég nota oftast það sem ég á bæði heima og uppi í sumarbústað en ég kaupi nánast alltaf eitthvað nýtt fyrir páskana. Í sumarbústaðnum í ár er ég með svört páskakerti sem ég set borða á og einnig set ég páskagreinar í vasa, með ljósum og kopareggjum sem ég hengi skraut á. Heima er ég með blandaða liti, bæði hvít og græn páskakerti og greinar með alls konar jarðtónaeggjum sem ég hengi á greinarnar. Mér finnst fallegt að blanda saman mintugrænu, brúnu, hvítu og svörtu eins og borðið er í ár. Ég geri síðan aðeins öðruvísi uppi í sumarbústað, þá er ég með meira svart, jarðlitað, kopar og brúna tóna,“ segir hún.

Þórunni finnst alls ekki þurfa að skipta um þema á hverju ári þó að hún eigi það til að gera það.

„Mér finnst að hver og einn eigi að gera það sem viðkomandi finnst fallegt. Ég nota mitt páskaskraut ár eftir ár, blanda því saman við eitthvað nýtt og skipti um dúk á hátíðarborði sem og kertastjaka og aðra fylgihluti. Ég skreyti kertin gjarnan með borða og blómum eða greinum. Eflaust á ég aðeins of mikið af páskaskrauti, en ég er dugleg að nota það og gef það sem ég er hætt að nota,“ segir Þórunn með bros á vör.

Fá að velja eggið sjálf

Fjölskylda Þórunnar ætlar ekki að fara út fyrir landsteinana um páska og stefnir beint í sveitina til að njóta. „Við ætlum að vera í sveitinni í kósíheitum, fara í pottana, borða góðan mat og njóta samverunnar.“

Þegar kemur að páskaeggjaáti segir Þórunn minna vera af því. „Ég hef aldrei verið mikil áhugamanneskja þegar kemur að páskaeggjum, en finnst alveg gott að fá einn til tvo bita hjá krökkunum. En mér finnst Nóakropp-eggið gott og svo kom Prettyboitjokko-páskaeggið mér á óvart. Þessi yngsta er hrifin af ljósu súkkulaði og hin eldri eru ekkert sérlega hrifin af páskaeggjum en ömmu- og afabörnin fá sitt eigið egg sem þau velja sjálf.“

Þórunn segist ekki hafa haldið upp á málshætti úr páskaeggjum, hvorki í æsku né á fullorðinsárum, enda enginn aðdáandi páskaeggja. „Það er enginn sérstakur málsháttur sem ég man eftir að hafa fengið, ég fékk ávallt að velja mér eitthvað annað en páskaegg á páskunum sem krakki. Þá valdi ég fremur að fá nýja peysu, buxur eða aðra flík sem mig langaði í,“ segir Þórunn sposk á svip.

Fengu ný náttföt á páskunum

„Ég man eftir að við systkinin fengum ávallt ný náttföt og það var alltaf tekin mynd af okkur með páskaeggin okkar þegar við vorum litlir krakkar með eggin í náttfötunum. En ég hef aldrei verið sérstök áhugamanneskja þegar kemur að páskaeggjum, ég fékk mér kannski einn til tvo bita en mér fannst nammið betra sem var inni í egginu heldur en súkkulaðið sjálft. Ég hef reyndar aldrei verið nammigrís og þess vegna vildi ég frekar flíkur í páskagjöf.“

Þó að Þórunn sé ekki hrifin af páskaeggjum fá hinir að njóta þeirra og yngsta dóttirin bíður ávallt spennt eftir því að sjá hvernig egg hún fær. Hún þarf þó að hafa fyrir því að sjá hvernig það lítur út.

„Við höfum falið eggin sem þessi yngsta fær, bæði hér heima og uppi í sumarbústað. Það er sérstaklega gaman að fela eggin uppi í bústað þar sem við höfum farið út og falið þau þar. Það er svo gaman að fylgjast með leitinni,“ segir Þórunn og brosir.

Hráskinku-carpaccio með geitaosti

Þegar að páskamáltíðinni kemur er Þórunn iðin við að skipta um matseðil og hún er búin að setja saman seðilinn fyrir næstu páskahátíð.

„Ég ætla að bjóða upp á hráskinku-carpaccio með geitaosti, pekanhnetum, tómötum og hunangi í forrétt. Síðan verður risotto með nautakjöti og gráðosti í aðalrétt og einn minn allrauppáhalds í eftirrétt en það er epladesert. Síðan munum við líka grilla um páskana og bjóða upp á sælkerakræsingar sem enginn stenst.“

Ég er mjög hrifin af carpaccio en langaði að gera mína útfærslu af því. Ég er líka mjög hrifin af geitaosti og elska pekanhnetur, þannig að í þessum forrétti er allt mitt uppáhalds. Þessi forréttur er guðdómlegur, en auðvitað eru ekki allir sem fíla geitaost, en þá er líka bara hægt að skipta honum út og hafa burrata- eða parmesanost,“ segir Þórunn með bros á vör.

Hún gefur hér lesendum Morgunblaðsins uppskriftina að forréttinum og góðar hugmyndir að því hvernig hægt er galdra fram dýrðlega páskaköku á skömmum tíma.

Saltkaramellukaka í páskabúningi

„Oftast baka ég mínar kökur sjálf en stundum hef ég keypt tilbúnar kökur án skreytinga og skreytt þær sjálf. Mér finnst svo gaman að skreyta kökur. Mig langaði svo að hafa eina háa hvíta köku á borðinu og skreyta með ferskum blómum, páskagreinum til að hengja lítil egg á.

Þessi tveggja hæða saltkaramellukaka sem ég er með hér er frá 17 sortum. Það er frábært að geta stundum fengið stílhreina köku og skreytt að eigin vali. Svo fannst mér eitthvað skemmtilegt við það að setja kerti á hana líka, það þarf ekkert endilega að vera afmæli,“ segir Þórunn um kökugerðina.

Hráskinku-carpaccio
að hætti Þórunnar

2 pakkar hráskinka

1 box kirsuberjatómatar

1 stk. kínahvítlaukur

1 búnt fersk basilíka

salt og pipar eftir smekk

2-3 msk. ólífuolía

½ pakki pekanhnetur

1 stk. geitaostur að eigin vali

hunang eftir smekk

brioche-brauð frá Sandholt

Raðið hráskinku á bakka eða disk sem þið viljið bera réttinn fram á. Skerið tómatana í tvennt og setjið í skál ásamt hvítlauk, smá basilíku og ólífuolíu og kryddið til með salti og pipar. Blandið síðan vel saman. Dreifið blöndunni yfir hráskinkuna, ásamt geitaosti og pekanhnetum. Dreifið síðan smá hunangi yfir í lokin. Skerið brauðið í þykkar sneiðar og grillið þær á pönnu með smá ólífuolíu á. Berið fram og njótið.

Höf.: Sjöfn Þórðardóttir