Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Íbúar í Þingeyjarsveit og Norðurþingi fengu í gær kynningu á uppfærðu hættumati ef eldgos kæmi af stað jökulhlaupi frá Vatnajökli til norðurs.
„Nýlega var lokið við uppfærslu á útreikningum sem gerðir voru árið 2014 á framgangi jökulhlaupa niður Skjálfandafljót og niður Jökulsá á fjöllum. Segja má að áður hafi verkefnið verið unnið svolítið hratt árið 2014, í kringum Holuhraunsgosið. Þegar gangurinn var að ganga út undir Brúarjöklinum á þeim tíma voru talsverðar áhyggjur af gosi undir jökli sem myndi leiða til jökulhlaups,“ segir Bergur Einarsson, fagstjóri vatnarannsókna hjá Veðurstofu Íslands.
Eins og kom fram hjá Hermanni Karlssyni, lögreglumanni og fulltrúa Almannavarna á Norðurlandi, hér í blaðinu 4. apríl snúast íbúafundirnir ekki sérstaklega um jarðhræringarnar í Bárðarbungu í janúar. „Eftir að hafa fengið betri tíma til að fara yfir þetta var ánægjulegt að sjá að hættumatið sem verið hefur í gildi frá 2014 hefur ekki breyst að ráði,“ segir Bergur.
Viðbragðsáætlun vegna mögulegs jökulhlaups var gerð árið 2021. Litlar breytingar eru gerðar varðandi rýmingarsvæðin. „Vegna óróans sem verið hefur í Bárðarbungu er fólk hugsi yfir stöðunni, sem skiljanlegt er. Nú erum við að kynna útreikninga okkar varðandi mögulegt jökulhlaup og almannafulltrúi lögreglunnar á Norðurlandi kynnir uppfærslu á viðbragðsáætluninni. Þótt ekki sé hægt að spá fyrir um hvar eða hvenær gos geti orðið erum við aðeins vissari á rýmingarsvæðum eftir þessa útreikninga ef gos yrði undir jökli.“
Flóð myndi ná Þjóðvegi 1 við Goðafoss um 11 til 14 klukkustundum eftir upphaf við jökuljaðar í þeim dæmum sem skoðuð voru og er þá miðað við upptök undir jökli í norðanverðri Bárðarbungu. Í skýrslunni er farið yfir niðurstöður hermana á jökulhlaupum frá Vatnajökli til norðurs. Jökulhlaup af völdum eldgosa undir norðanverðum jöklinum hafa komið í Jökulsá á Fjöllum og voru vatnavextir í Skjálfandafljóti árið 1902 sennilega af völdum eldvirkni.
Skynsamlegt að skoða allt
„Settar eru fram niðurstöður líkanreikninga á útbreiðslu, rennslishegðun og tjónmætti jökulhlaupa sem upptök ættu undir jökli í norðanverðri Bárðarbungu og bærust þaðan um farveg Skjálfandafljóts og nálæg svæði, allt til sjávar í Skjálfanda. Rennsli frá upptökum í þremur sviðsmyndum sem kannaðar voru, er 10.200 m3/s, 14.000 m3/s og 19.300 m3/s. Öll hlaupin næðu efstu byggð í Bárðardal eftir 7–9 klst og þar væri rennslishámarki náð 1–3 klst síðar. Þjóðvegi 1 við Goðafoss væri náð 11–14 klst eftir upphaf við jökuljaðar og hámarki væri náð kringum 1–3 klst síðar. Frá Goðafossi tæki það hlaupin svo 6–7 klst til viðbótar að ná til sjávar þannig að í öllum tilvikum væru mestu hamfarirnar yfirstaðnar á innan við sólarhring og hlaupin að mestu hjöðnuð þegar 2 sólarhringar væru liðnir frá því rennsli undan jökli hófst,“ segir í skýrslunni.
Bergur tekur skýrt fram að ekki sé ástæða til að draga upp dökka mynd af stöðunni á þessum tímapunkti, heldur sé einfaldlega skynsamlegt að búa sig undir allar mögulegar útgáfur þegar náttúruhamfarir eru annars vegar.
„Almennt séð eigum við að vera vakandi fyrir jökulhlaupum því þau geta verið til raunverulegra vandræða. Í þessum útreikningum felast ekki stórtíðindi heldur má segja að vinnan sem áður var unnin hafi verið fínpússuð. En það er virði í því að hugsa einnig um, og búa til, verstu sviðsmyndirnar þótt litlar líkur séu á því að þær verði að veruleika. Um leið erum við að kynna fyrir íbúum hvernig vöktun Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar gengur fyrir sig þegar hlaup gæti verið yfirvofandi.“