Ingibjörg Björnsdóttir fæddist í Krossholti í Kolbeinsstaðahreppi 10. desember 1930. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 5. apríl 2025.

Foreldrar hennar voru hjónin Björn Benediktsson, f. 16. maí 1886, d. 30. janúar 1966, og Ingibjörg Ólafsdóttir, f. 25. maí 1895, d. 6. júní 1983. Þau eignuðust þrjár dætur. Systur hennar voru Valgerður, f. 15. mars 1929, d. 18. mars 2019, og Kristín, f. 15. september 1935, d. 12. nóvember 2023. Eiginmaður Valgerðar var Eiríkur Brynjólfsson, f. 24. janúar 1930, d. 10. júní 2024. Börn þeirra eru Lilja, Björn, Brynjólfur, Anna, Örn, Ingi, Sigrún og Birgir. Eiginmaður Kristínar var Hallbjörn V. Sigurðsson, f. 23. janúar 1931, d. 20. október 2010. Börn þeirra eru Ingibjörg, Sigurður, Svandís og Elínborg.

Inga ólst upp í Krossholti og tók þátt í bústörfum þar frá unga aldri. Hún naut hefðbundinnar skólagöngu þess tíma í heimabyggð og stundaði nám í húsmæðraskólanum á Varmalandi veturinn 1951-1952. Eftir að Inga settist að í Reykjavík starfaði hún meðal annars við sauma á saumastofunum Vinnufatagerðinni, Exeter og Solido. Um tíma vann hún á matsölustað en lauk starfsævinni við þrif á Borgarspítalanum. Hún var afar handlagin og hafði mikla ánægju af hvers kyns hannyrðum og saumum og þegar Handprjónasamband Íslands var stofnað gerðist Inga stofnfélagi. Inga var alla tíð sjálfstæð og bjó í sjálfstæðri búsetu fram á síðustu mánuði.

Útför hennar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 10. apríl 2025, klukkan 11.

Það var alltaf tilhlökkunarefni fyrir okkur fjölskylduna í Krossholti þegar von var á Ingu móðursystur í heimsókn. Hún var með okkur öll jól meðan amma lifði og oftast kom hún eina ferð vestur á hverju sumri. Þar átti hún líka sitt herbergi sem var kallað Ingu herbergi. Það var sérstaklega vel tekið til í bænum áður en frænka kom, borið á húsgögn og speglar pússaðir því hún vildi hafa fínt og snyrtilegt í kringum sig. Í minningum barna er alltaf sól á sumrin. Inga frænka var afar góð við okkur systkinin. Með henni fór ég í fyrsta sinn í leikhús þá sjö ára og hún greiddi mér þegar ég fermdist. Á sumrin kom hún stundum með tjaldið sitt og tjaldaði fyrir utan húsið og fyrir okkur sem fórum aldrei í tjaldútilegur var þetta skemmtileg tilbreyting að leika sér í tjaldi.

Frænka var mikill sóldýrkandi. Hún tók þátt í bústörfunum með okkur en á sólríkum dögum lá hún í sólbaði í skjóli bak við hlöðu. Enn í dag minnir lykt af sólarolíu mig á hana. Hún fór snemma að fara til sólarlanda á sumrin, einkum til Mallorca, og hafði af þessum ferðum mikið yndi. Henni þótti reyndar gaman að öllum ferðalögum og ferðaðist oft með vinkonum sínum um landið með tjald og prímus.

Inga frænka var af þeirri kynslóð sem varð ekki aðnjótandi mikillar menntunar umfram það sem skyldan bauð en hún fór í húsmæðraskólann á Varmalandi og hafði af því bæði gaman og gagn. Hún hafði reyndar alla tíð ánægju af hvers kyns handverki enda bar heimili hennar þess merki. Ófáar flíkurnar saumaði hún á sjálfa sig og ættingjana og valdi efni og snið af smekkvísi. Hennar ævistarf var líka lengst af við saumaskap þó síðustu starfsárin ynni hún við þrif. Hún var ákaflega sjálfstæð og sjálfbjarga kona sem vildi ekki vera upp á aðra komin, fór allra sinna ferða með strætó og leigubílum, en var þakklát ef henni var gerður greiði.

Þegar mér sígur svefn á brá

síðastur alls í heimi,

möttulinn þinn mjúka þá,

móðir, breiddu mig ofan á,

svo sofi ég vært og ekkert illt mig dreymi.

(Einar Ól. Sveinsson)

Við í fjölskyldu Ingu eigum henni ótalmargt að þakka. Væntumþykju, gjafmildi og trygglyndi í okkar garð. Að leiðarlokum bið ég henni blessunar og kveð hana með söknuði.

Ingibjörg Hallbjörnsdóttir.

Ég kynntist Ingibjörgu fljótlega eftir að ég kynntist Önnu og fjölskyldunni hennar 1985. Inga, eins og hún var alltaf kölluð, var afar glæsileg kona með suðrænt útlit, minnti mig á spænska senjórítu, já dálítil skvísa. Hún var alltaf smart. Hún var dugleg að ferðast og kunni vel við sig á suðrænum slóðum. Við fórum nokkrar ferðir saman, m.a. um sveitina hennar á Snæfellsnesi.

Á síðustu árum byrjaði heilsan að bresta, kom hún til okkar í Þingvað og var hjá okkur í nokkra daga í nokkurs konar hvíldarinnlögn eftir lærbrot. Ingu fannst þetta dálítið óþægilegt, að vera að koma svona inn á heimilið okkar, en reyndar var hún afar sátt við matinn og hún hrósaði mér mikið, alveg sama hvort það var soðinn fiskur eða steik í matinn: „Það er eins og ég sé á fínasta hóteli!“

Við kveðjum í dag glæsilega konu og sendi ég öllum ástvinum Ingu mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Páll Pálsson.