Sigríður Jónsdóttir fæddist 7. október 1954 á Hvolsvelli. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Selfossi, 22. mars 2025.
Sigríður var dóttir hjónanna Jóns Bjarnasonar, f. 5.11. 1923, d. 11.2. 2001, og Maríu Guðmundsdóttur, f. 15.9. 1931, d.22.7. 1981. Sigríður ólst upp í Dufþaksholti í stórum systkinahópi en systkini hennar eru Pálína Björk, f. 1952, Þórunn, f. 1955, Guðmundur, f. 1958, Guðrún, f. 1963, Bjarndís, f. 1964, og Bjarni Haukur, f. 1977.
Árið 1980 giftist Sigríður Páli Böðvari Valgeirssyni, f. 22.11. 1949. Börn þeirra eru Valgeir Matthías, f. 23.5. 1982, Maríanna, f. 17.1. 1983, Rakel, f. 16.12. 1987, og Rebekka, f. 16.12.1987.
Unnusti Maríönnu er Guðmundur Ingi Hjartarson, f. 29.6. 1968. Börn Maríönnu eru Viðja Ágústsdóttir, f. 5.8. 2001, Gabríel Ágústsson, f. 18.9. 2005, Ketill Guðlaugur Ágústsson, f. 10.12. 2006 og Noel Liberg, f. 9.12. 2008. Börn Guðmundar Inga eru Óttar Orri, f. 19.5. 2001, Jenný, f. 15.2. 2003, og Sigmar Orri, f. 27.2. 2010. Unnusti Rakelar er Jón Gunnar Bernburg, f. 17.7. 1973. Dætur þeirra eru Hrafntinna, f. 11.3. 2020, og Móeiður, f. 11.3. 2020. Sonur Rakelar er Mikael Aron Sverrisson, f. 29.4.2007, og synir Jóns Gunnars eru Jóel Bernburg, f. 28.10. 2001, og Atli Bernburg, f. 14.3. 2006. Eiginmaður Rebekku er Matthías Ásgeirsson, f. 30.4. 1980. Synir þeirra eru Kári Hrafn, f. 3.12. 2018, og Orri Páll, f. 22.12. 2023. Dóttir Rebekku er Sigríður Ísey Viktorsdóttir, f. 22.5. 2011, og dóttir Matthíasar er Embla Örk, f. 25.2. 2010.
Sigríður var sjúkraliði og starfaði lengst af við umönnun á Ljósheimum og Fossheimum á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Hún unni starfi sínu innilega og eignaðist dýrmæta vini í samstarfsfólki sínu. Henni var umhugað um velferð fjölskyldu sinnar sem hún umvafði alla tíð gleði og ást.
Útförin fer fram frá Selfosskirkju í dag, 10. apríl 2025, klukkan 15.
Elsku mamma kvaddi þennan heim allt of snemma. Fyrir okkur, sem elskuðum hana svo heitt, er sorgin yfirþyrmandi. Mamma var alltaf svo hlý og yfirveguð, með ró sem smitaði út frá sér. Hún var manneskja sem allir vildu hafa í kringum sig, umhyggjusöm, skemmtileg og hrókur alls fagnaðar. Það var eitthvað sérstakt við nærveru hennar, hún skapaði öryggi og gleði, alltaf með bros á vör og opið hjarta. Fyrirmyndin okkar. Við vorum ekki einungis mæðgur, við vorum bestu vinkonur, samband okkar var djúpt og sterkt. Það var alltaf svo gott að koma í mömmuhús því hún var einfaldlega best, alltaf til í allt og „nei“ var ekki til í hennar orðaforða.
Mamma var líka svo heppin að fá að ganga lífið með sínum eina sanna, yndislegum eiginmanni, pabba okkar, sem hún elskaði af öllu hjarta. Þau voru hjón í 45 ár og samband þeirra lýsti af kærleika, vináttu og lífsgleði. Gleði yfir því að vera saman. Þau voru sterk liðsheild í gegnum allt, súrt og sætt. Nú syrgir elsku pabbi besta vin sinn og sálufélaga.
Mamma kunni svo vel að njóta lífsins. Hún elskaði kósíkvöld, góðan mat, leikhúsferðir og samveru með vinum. Hún elskaði líka að ferðast, hún fékk aldrei nóg af því að detta í verslunarferð með stelpunum sínum, hlæja, njóta og lifa eða spóka sig um á ströndinni, þar sem hún blómstraði í ljósinu og hlýjunni. En það sem hún elskaði heitar en nokkuð annað voru barnabörnin. Hjarta hennar sló með þeim, faðmurinn alltaf opinn. Hún var stríðin og glettin, leyfði þeim að smakka fyrsta grautinn, setti ís og súkkulaði á snudduna þeirra. Hún var viðstödd þegar flest þeirra fæddust, stóð styrk við hlið okkar, og þeirra fyrstu daga og átti svo stóran þátt í að leiða þau inn í lífið með nærgætni, hlátri og umhyggju.
Elsku mamma. Við fengum að hafa þig í allt of stuttan tíma, sérstaklega yngstu börnin, en við lofum að segja þeim allt um bestu ömmu í heimi og varðveita minningu þína um ókomna tíð.
Hvíldu í friði, elsku besta mamma okkar. Við söknum þín svo sárt. Það er erfitt að ímynda sér lífið án þín, en í sorginni finnum við huggun í því hvað við vorum heppnar að fá að eiga þig að. Við pössum upp á pabba. Elskum þig, ofurheitt.
Undir himinbláum boga,
elsku mamma þar ert þú
og þú lítur okkur yfir
í kærleika og trú.
En minning þín hún lifir
í hjörtum okkar hér
því hamingjuna áttum við með þér.
Þökkum kærleika og elsku,
þökkum virðingu og trú,
þökkum allt sem af þér gafstu,
okkar elsku áttir þú.
Að eiga þig sem móður
var lánið okkar hér
og gaman var að eiga stund með þér.
Nú ferðast þú um loftin blá
í fylgd með englaher
og losnað hafa lífsins höft
og sálin leikur sér.
Og þegar bjart er úti
og sólin blessuð skín
þá birtast kærar minningar,
elsku mamma mín.
(Guðrún Sigurbjörnsdóttir)
Þínar
Rakel og Rebekka.
Það eru sum augnablik sem breyta öllu lífinu. Ég hef átt nokkur slík augnablik með elskulegri móður minni og eitt þeirra var þegar hún kvaddi þessa jarðvist. Ég og faðir minn, Páll Valgeirsson, sátum hjá henni, héldum um hendur hennar og fundum síðasta hjartsláttinn. Hjarta hennar var yfirfullt af auðmýkt og hlýju. Falleg, yfirveguð, óhrædd og friðsæl horfði hún í síðasta sinn í augu föður míns sem var alltaf ástin í lífi hennar. Þessari fallegu stundu verður ekki lýst á riti en hana mun ég varðveita í hjarta mínu að eilífu.
Fallega sveitastelpan frá Dufþaksholti í Rangárvallasýslu, dóttir Jóns Bjarnasonar og Maríu Guðmundsdóttur, var einstök, hlý, góð og vildi öllum vel. Henni var gjarnan líkt við Maríu móður sína sem lést langt fyrir aldur fram. Ég veit að amma og afi faðma litlu stelpuna sína að sér í himnaríki núna og það gefur mér hlýju.
Móðir mín helgaði líf sitt því að hjálpa og hjúkra þeim veiku á spítalanum fyrir norðan á Blönduósi og svo seinna á Selfossi. Þar eignaðist hún líka sínar allra bestu vinkonur sem fylgdu henni svo síðasta spölinn. Mamma var ljósberi sem óttaðist ekki að deyja. Síðustu mánuðir lífs hennar einkenndust af flóknum veikindum sem hún barðist við af mikilli reisn og æðruleysi fram að síðustu stundu. Hún hélt alltaf í vonina, trúði á lífið og ljósið, hennar styrkur var okkar kraftur í lokin, ljósið sem lýsti okkar leið.
Lífið gaf henni sjötíu ár í gjöf og eignaðist hún einn son, þrjár dætur og barnabörn sem voru hennar stolt og gleði. Hún sagði mér margoft hvað hún væri þakklát og ánægð með lífið. Hún var líka þakklát fyrir að geta kvatt okkur öll í síðasta sinn og að ekkert væri ósagt. Öll ástin sem við fundum fyrir, þessi styrkur svo áþreifanlegur. Það er óraunverulegt að skrifa þessi orð og vildi ég óska að mamma væri enn á lífi að dúlla sér á Spáni í sólbaði meðan pabbi spilar golf eins og planið var. Ég er þakklát fyrir hlýjuna sem hún skilur eftir sig, í hjarta mínu – og í hjörtum allra sem hana þekktu.
Minningarnar lifa í ástinni sem hún gaf okkur og mun ég heiðra og halda nafni hennar á lofti um ókomna tíð. Ég vildi óska að það væri hægt að hringja til himnaríkis, þá gæti ég sagt henni hvað ég elska hana ofurheitt og hversu mikið ég sakna þess að heyra röddina hennar.
Takk fyrir allt, elsku hjartað mitt.
Þín dóttir,
Maríanna.
Elsku móðir mín Sigríður Jónsdóttir er látin. Hún lést í faðmi eiginmanns síns til hátt í fimmtíu ára og barna á Heilbrigðisstofnun Suðurlands laugardaginn 22. mars 2025.
Mamma var yndisleg kona. Hún var svo ljúf og góð við okkur öll í fjölskyldunni. Aldrei heyrði maður mömmu kvarta um eitt eða neitt. Hún var sjúkraliði og sinnti starfi sínu alla tíð af alúð og umhyggju. Hún vildi alltaf að öllum liði vel.
Meðal fyrstu minninga minna um mömmu eru frá því við vorum á Blönduósi. Þar bjuggum við fjölskyldan fram til 1993. Mamma vann á Héraðshælinu á Blönduósi á þessum tíma en pabbi var sjómaður og vann hjá Skagstrendingi á Skagaströnd.
Pabbi var því oft langdvölum á sjó og á meðan sinnti mamma okkur vel og eftir bestu getu. Lífið var ekki alltaf auðvelt á Blönduósi hjá mömmu. Hún þurfti jú að sjá um heimilið og okkur lítil ásamt því að vinna. Þetta gat verið mikið púsluspil að finna pössun og fleira í þeim dúr fyrir okkur.
Mamma átti stóran systkinahóp. Hún var fædd 1954 á Hvolsvelli í Rangárvallasýslu. Faðir hennar var bóndi á bænum Dufþaksholti rétt fyrir austan Hvolsvöll.
Þar ólst hún upp ásamt foreldrum sínum og systkinum. Mamma var alla tíð virk í félagslífi og sinnti því með miklum sóma. Hún átti marga vini og vinkonur bæði á Blönduósi og Selfossi. Hún var því aldrei mjög einmana í þeim skilningi.
Minningar um mömmu eru sterkar. Hún fór með okkur börnin sín í leikhús og svo var farið í leiðangur að fossum t.d. í Rangárvallasýslu, á fjölskyldumót í Galtalæk og fleiri staði. Það var líka gaman að fara í tjaldútilegur og gerðum við svolítið af því.
Mamma tók einu sinni þátt í keppni í pönnukökubakstri á landsmóti íþróttafélaga og vann þar til verðlauna. Hún gerði mjög góðar pönnukökur og vann því.
Fjölskyldan óx og systur mínar þær Mæja, Rakel og Rebekka stækkuðu fjölskylduna allsvakalega. Mamma var því mjög mikið með börnum þeirra og passaði þau fyrir þær ásamt pabba auðvitað mjög mikið. Stór fjölskylda og því urðu jólaboðin stór líka. Þetta voru skemmtilegir tímar. Yndislegar samverustundir með fjölskyldunni.
Aldrei skorti okkur neitt. Mamma sá alltaf um að við værum vel tilhöfð og ættum falleg og fín föt. Það var því alltaf nóg að bíta og brenna hjá mömmu sem eldaði alltaf svo ljómandi góðan og ljúffengan mat.
Mamma reyndi fyrir sér í golfíþróttinni en staldraði þó ekki mjög lengi við þar en hún rak þó í tvö sumur veitingasölu á golfvellinum á Selfossi. Það var oft mikill asi á Svarfhólsvelli á sumrin en alltaf var mamma með nýbakað brauð og bakkelsi á borðum. Hún reiddi fram mat og gerði allt svo fallega og vel.
Kannski er hægt að lýsa mömmu með þessum lokaorðum: Mamma gerði allt fyrir mig sem ég vildi. Hún hjálpaði mér og ól mig upp eins vel og hún gat. Mamma var minn klettur í lífinu ásamt auðvitað föður mínum. Mamma gerði líf okkar allra fallegra og betra.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson)
Valgeir (Valli).
Elsku amma mín. Það er svo óraunverulegt að þú sért farin frá okkur. Það var svo gaman að koma í dekur til þín á Selfoss, fara i heita pottinn, spila og vaka fram eftir til að spjalla við þig. Það verður svo erfitt að koma til Selfoss og vita að ég sé ekki að koma i ömmudekur. Það eru ótal minningar sem ég á með þér en þær sem eru eftirminnilegastar eru þegar við fórum saman í utanlandsferðir til Danmerkur og í sólina á Tenerife. Við eigum það sameiginlegt að elska sólina. Þú varst líka dugleg að bjóða mér með í sumarbústað og ég mun sakna þeirra ferða með þér. Ég sakna þín svo ótrúlega mikið og elska þig meira en allt og ég veit að þú verður alltaf hjá okkur.
Þín,
Sigríður Ísey.
Það er afskaplega þungbært að setjast niður og minnast Sigríðar systur minnar, eða Lillu eins og við í okkar fjölskyldu kölluðum hana, sem lést eftir erfið veikindi, allt of fljótt. Hún sem hafði svo margt og mikið að lifa fyrir. Henni var ætíð umhugað um velferð annarra og fjölskyldan í fyrsta sæti.
Hugurinn reikar til æskuáranna þar sem aðeins þrettán mánuðir eru á milli okkar. Oftar en ekki skreið ég upp í til hennar á nóttunni þegar ég vaknaði og var hrædd í myrkrinu eða hafði dreymt illa. Eins eru mér minnisstæðar gönguferðirnar í skólann, sem var á Stórólfshvoli í þá daga, en við þurftum að ganga um það bil þrjá kílómetra í hvaða veðri sem var.
Lilla systir sýndi ung að árum dug og þor. Hjálpsemi var henni eðlislæg, og var henni einkum umhugað um móður okkar, og var boðin og búin að hjálpa til í sveitinni þegar tækifæri gafst. Lilla fór í sjúkraliðanám og starfaði að mestu leyti á þeim vettvangi sína starfsævi og í því starfi komu eiginleikar hennar, alúð og umhyggja, berlega í ljós.
Það er sárt til þess að hugsa að hún fái ekki að njóta samvista með sínu nánasta fólki, eiginmanni, börnum, tengdabörnum og barnabörnum, sem voru henni svo kær og hún var svo stolt af. Lilla var afar blátt áfram manneskja með mikið jafnaðargeð og hafði mjög góða nærveru. Fjölskyldan sér á eftir einstaklega góðri og sterkri manneskju sem alltaf var til staðar fyrir sitt fólk.
Síðasta samverustund með stórfjölskyldunni var 70 ára afmælið hennar. Það var haldið sólríkan haustdag síðastliðinn október, einstaklega falleg og góð stund með þeim öllum. Síðasta samtalið sem ég átti við hana var eftir brúðkaup dóttur hennar þar sem hún lýsti fyrir mér hversu góð og falleg samveran með sínu fólki var og hún var þakklát og glöð að hafa getað tekið þátt og verið með.
Hún fékk of stóran skammt af veikindum í gegnum lífið en alltaf stóð hún þau af sér með mikilli þrautseigju og kom til baka en þegar þar að kom tók hún örlögum sínum af æðruleysi. Með kærri þökk fyrir samfylgdina í gegnum tíðina en við systkinin höfum borið gæfu til að vera samheldin og er það þakkarvert.
Með mikilli sorg í hjarta kveð ég þig systir góð og er viss um að okkar fólk tekur vel á móti þér. Innilegustu samúðarkveðjur frá okkur fjölskyldunni.
Þórunn Jónsdóttir.
Elsku Lilla, dásamlega systir mín.
Þú varst næstelst okkar systkina, níu árum eldri en ég. Við náðum alltaf svo vel saman og enn betur eftir að þú fluttir á Selfoss. Það er erfitt að hugsa til þess að maður eigi aldrei aftur eftir að stoppa í kaffi hjá þér þegar maður á leið á Selfoss. En núna ertu flogin í sumarlandið til mömmu og pabba sem hafa tekið þér opnum örmum. Þú varst alltaf svo blíð og góð, þú varst eins og mamma mín eftir að mamma okkar lést langt fyrir aldur fram. Það var svo gott að leita til þín með allt milli himins og jarðar, til dæmis þegar halda átti veislu var alltaf byrjað á að hringja í þig til að fá góð ráð um hvað þyrfti mikið magn og hvernig best væri að gera hlutina.
Utanlandsferðirnar eru minnisstæðar með þér elsku systir, í sólinni á Mallorca og Danmerkurferðirnar. Það var mikið fjör og mikið hlegið. Það var alltaf svo mikið fjör í kringum þig og þú tókst þig aldrei of alvarlega. Þessar ferðir voru reglulega rifjaðar upp og alltaf hlógum við jafn mikið. Við áttum það sameiginlegt að eiga fegurðardrottningarnar á Suðurlandi 2007 og 2011 og vorum við rígmontnar af þeim.
Það var dásamlegt að sjá hversu vel var hugsað um þig á HSU síðustu mánuðina og sjá hversu glöð þú varst að fá að vera á Selfossi þar sem þér leið alltaf best. Við áttum góðar stundir þar í lokin en þú sýndir mikið æðruleysi og vildir að við hefðum gaman. Það er gott að hugsa til þess að þér líði vel núna elskan mín.
Elsku systir, þú hugsaðir vel um fólkið þitt, börnin og fallegu barnabörnin þín. Ég sagði við þig áður en þú kvaddir að ég myndi líta eftir þeim og ég veit að þú gerir það líka. Elsku Palli, Valli, Mæja, Rakel, Rebekka, tengdasynir og barnabörn, innilegustu samúðarkveðjur til ykkar.
Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Elsku systir, takk fyrir allt sem þú kenndir mér og gafst með nærveru þinni. Minning þín er ljós í lífi okkar.
Guðrún Jónsdóttir (Didda).
Sigríður Jónsdóttir, mágkona mín, er látin eftir erfið veikindi. Hún fór allt of fljótt. Sigríður varð sjötíu ára. Það finnst okkur ekki hár aldur í dag. Á milli okkar voru örfáir dagar, ég fæddur undir lok september, hún í byrjun október. Bæði '54-árgangur.
Sérlega minnisstætt er sjötugsafmæli Sigríðar einn sólríkan dag síðastliðið haust. Þar var hún umkringd börnum og barnabörnum, og þau hjónin geisluðu af gleði og stolti. Hún var svo þakklát fyrir lífið og daginn og augnablikin. Það var góður dagur. Að fá að fagna með sínu fólki. Þau voru einstaklega samrýnd, þau hjónin, Páll Valgeirsson og Sigríður, og sjaldan langt á milli þeirra. Þau gengu í gegnum heiminn, hönd í hönd. Þau voru hvort öðru styrkur og stoð.
Þær systur, Þórunn konan mín og Sigríður, voru líka nánar. Mjög nánar. Þær áttu sína æskudaga og minningar heiman úr sveitinni og hittust oft síðar í barnauppeldinu, enda börn okkar á svipuðu reki. Þegar þær voru hvor á sínum stað á landinu töluðu þær saman í síma, deildu gleði og áhyggjum og ræddu heima og geima. Sigríður var alltaf yfirveguð og tók því sem að höndum bar afslöppuð og æðrulaus.
Sigríður starfaði sem sjúkraliði og þau Sigríður og Páll voru um hríð búsett úti á landi, fyrst á Blönduósi og síðar á Selfossi. Margs er að minnast úr heimsóknum okkar til þeirra norður á Blönduós. Við dvöldum þar stundum í nokkra daga og nutum gestrisni þeirra. Þaðan eigum við góðar minningar. Gengið var um fjörur og bærinn skoðaður. Enn sitja þessir dagar fallegir í huganum, Húnaflóinn heiðblár og tær, og börnin okkar lítil að leika sér. Eins var dásamlegt að heimsækja þau á Selfoss, góður matur á borðum og umræður um margvísleg mál. Það er erfitt að ímynda sér heiminn án Sigríðar. Hún var þessi fasta stærð í lífi svo margra, mikið afl og sameinaði margt fólk.
Sigríður var mjög þakklát fyrir sitt fólk, og fyrir utan Þórunni konu mína eru þrjár aðrar systur og tveir bræður. Sigríður hafði góða lund, mikið jafnaðargeð, og gat sagt skemmtilega frá og verið hnyttin. Hún var hlý manneskja og hafði góða áru yfir sér, góða nærveru sem allir nutu í hennar umhverfi. Hún kom eins fram við alla, gerði engan greinarmun á fólki. Í henni var ekki til neitt sem heitir yfirlæti.
Ég finn vel söknuð þeirra sem eiga um sárt að binda, og votta allri fjölskyldunni mína innilegustu samúð. Sigríðar er sárt saknað.
Einar Már Guðmundsson.