Sigurður Karlsson fæddist á Gunnlaugsstöðum á Völlum 4. maí 1947. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum 30. mars 2025.
Sigurður var sonur bændahjónanna Önnu Bjargar Sigurðardóttur, f. 11. nóvember 1920, d. 13. febrúar 2003, og Karls Nikulássonar, f. 17. september 1908, d. 16. október 1982. Systkini Sigurðar eru Guðrún, f. 1944, gift Trausta Gunnarssyni, d. 2008, Pálína, f. 1945, gift Jóni Gunnlaugssyni, Valgerður, f. 1949, gift Einari Jónssyni, Gunnlaugur, f. 1955, d. 1976, og Finnur, f. 1956, d. 2004, giftur Rannveigu Árnadóttur.
Árið 1971 kvæntist Sigurður Maríu Kristínu Pétursdóttur, f. 1. desember 1950. Þau eignuðust tvo syni. 1) Þröstur, f. 26. maí 1971. Börn Þrastar eru Maríanna, f. 14. ágúst 1996, Katrín Rós, f. 25. júní 2000, Úlfar Ingi, f. 2. desember 2004, og Óskar Máni, f. 20. desember 2012. 2) Aðalbjörn, f. 18. maí 1972, giftur Sigríði Ingólfsdóttur, f. 29. janúar 1973. Börn Aðalbjörns eru Ingi Þór Ómarsson, f. 18. nóvember 1997, og Magdalena Ósk, f. 5. júní 2012.
Sigurður ólst upp á Gunnlaugsstöðum og sinnti bústörfum með foreldrum sínum. Fyrstu árin eftir að hann hóf sambúð með Maríu bjuggu þau á bænum en árið 1979 fluttu þau til Egilsstaða þar sem þau höfðu byggt sér hús að Ártröð 4. Þar bjuggu þau lengst af, eða þar til í fyrra þegar þau fluttu í Hamragerði 7.
Sigurður vann ýmis verka- og verslunarstörf um ævina, svo sem í byggingavöruverslun Kaupfélags Héraðsbúa, í Shell-skálanum á Egilsstöðum, í kjötvinnslu KHB og í sundlaug Egilsstaða. Hann var mikill útivistarmaður og flestir sem þekktu hann sjá hann örugglega fyrir sér á einni af sínum fjölmörgu göngum um Egilsstaði og nágrenni. Hann stundaði skotveiðar frá unga aldri, var áhugamaður um skógrækt og sinnti viðhaldi á garði og húsi í frítíma og eftir að veikindi hömluðu virkni á vinnumarkaði.
Útför Sigurðar fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 10. apríl 2025, klukkan 14.
Elsku pabbi kvaddi þennan heim sunnudagskvöldið 30. mars. Hjá honum var mamma sem stóð við hlið hans eins og klettur í erfiðum veikindum allt þar til yfir lauk. Parkinson er erfiður húsbóndi sem pabbi fékkst við af meira æðruleysi en flestum er gefið. Þegar við bættist krabbi í lok síðasta árs tókst hann áfram á við veikindi sín án þess að kvarta. Stærsta áhyggjuefni okkar var að hann bað helst aldrei um hjálp, sama hvað gekk á.
Við bræður þekkjum ekki annað en að geta alltaf leitað til pabba með hvaða verkefni sem var. Nú þegar hann er farinn streyma minningarnar fram. Þær eru auðvitað óteljandi. Um rjúpnaveiðar á Aurunum og Hallormsstaðarhálsi. Um gæsaveiði í Vallanesi og víðar á Héraði. Við vorum ekki gamlir þegar við vorum farnir að fylgja honum á veiðar þar sem hann kenndi okkur að bera virðingu fyrir bráðinni, náttúrunni, öðrum veiðimönnum og hver öðrum. Um ferðalögin um landið þar sem pabbi gat nefnt nánast allar hæðir og hóla, öll fjöll, vatnsföll og ekki síst allar kirkjur sem keyrt var fram hjá. Um spjall og spil við eldhúsborðið á Ártröð 4 á Egilsstöðum þar sem allir voru velkomnir og oft var setið lengi. Í húsinu sem hann og mamma byggðu og komu sér upp heimili. Um bústörf og skógrækt á Gunnlaugsstöðum þar sem pabbi fæddist og bjó sín uppvaxtarár en sinnti líka áfram með ömmu löngu eftir að hann fluttist í þéttbýlið á Egilsstöðum. Um stuðning á erfiðum tímum og hlátur þegar vel gekk. Um ást og umhyggju. Um besta pabba sem hægt er að hugsa sér sem gaf svo mikið af sér en þurfti sjálfur ekki mikið. Ef hann komst út að veiða, út að ganga, út í garð eða út í skóg þá var hann sáttur. En við sjáum hann líka fyrir okkur heima á Ártröðinni að leggja kapal eða að lesa. Í stofunni að leika við barnabörnin eða úti að hlúa að garðinum sem hann sinnti af svo mikilli natni og varði óteljandi klukkustundum í.
Það var ekki fyrr en við bræður urðum stálpaðir sem við áttuðum okkur á að það hafði ekki alltaf verið mikið til. Það kom okkur í opna skjöldu því aldrei skorti okkur nokkurn hlut. Þessi þögla, óbilandi hlýja sem var alltaf til staðar meira en vó upp að mögulega hefði verið hægt að bæta við efnislegum gæðum. Þessi staðfasta vissa um að við værum öruggir og að pabbi myndi passa upp á okkur. Pabbi var traustur og hlýr. Nú er hann farinn og ekkert getur fyllt það risastóra skarð sem hann skilur eftir sig. Takk fyrir pabbi. Við elskum þig til himna og til baka.
Öllum sem önnuðust pabba í veikindum hans síðustu árin, m.a. í heimahjúkrun Egilsstaða, á Landspítala, Fjórðungssjúkrahúsinu á Norðfirði eða á hjúkrunarheimilinu Dyngju, færum við innilegar þakkir fyrir alla þeirra aðstoð, umönnun, alúð og hlýju.
Þröstur Pétur Sigurðsson og Aðalbjörn Sigurðsson.