Flokkur er – fólkið hvarf fyrir lítið

Það kemur óneitanlega á óvart hversu snemma og fljótt sitjandi þriggja flokka stjórn er að missa fótanna. Það sem ýtir undir þá þróun er vafalaust einkum það hversu ömurlega lítið hefur reynst að marka það sem forystumenn hennar sögðu um hvernig sú stjórn ætlaði sér að standa að verkum.

Í þeim efnum skipti vissulega mestu um það, að hinir tveir ráðandi oddvitar ríkisstjórnarinnar töldu það meginatriði og í raun forsendu tilveru ríkisstjórnarinnar að áður en til hennar yrði stofnað væri óhjákvæmilegt að tryggja að hvað eina, stórt og smátt, hefði rækilega verið sorfið burt af hverju einu sem forðum fylgdi í stefnuskrá „þriðja flokksins“. „Flokkur“ mátti svo sem standa þar áfram en „fólkið“ yrði aðeins nafnið eitt, áður en leiðtogarnir tveir, sem ríkisstjórninni ráða, teldu að óhætt væri að hafa þann flokk sem fylgihlut í ríkisstjórninni. Leiðtogarnir tveir gætu einir metið hvaða flokkar þættu stjórntækir og hverjir ekki.

Sú meðferð formannanna tveggja var auðvitað töluvert ósvífin enda blasti við að þegar því verki væri lokið yrði ekkert eftir nema „flokkurinn“ en „fólkið“ væri í raun algjörlega horfið úr allri yfirskrift. Er óneitanlega dapurlegt að þetta þætti frágangssök áður en leiðtogarnir tveir væru orðnir rólegir og þyrftu ekki að velta svo óþægilegu nesti eins flokksins. En staðreyndin sem blasti við almenningi var að „Flokkur“ stóð enn til málamynda í yfirskriftinni en „fólksins“ var í raun gjörsamlega horfið.

Margt bendir nú óneitanlega til þess að kjósendur flokksins hefðu horft til þessarar atburðarásar í undrun og sumir furðu lostnir. Ekki er þó óhugsandi að í þessum efnum muni gilda hin þekkta yfirlýsing „að skamma stund verði hönd höggi fegin“.

Hvað sem því líður urðu tveir ráðherrar ríkisstjórnarinnar allshugar fegnir, forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann, og sú síðarnefnda með fjölda ráðuneyta, sem töldu sér nú óhætt að leggjast í ferðalög, en einmitt þá töldu „tæplega 20 þingmenn“ sér óhætt að fylgja fordæmi ráðherranna tveggja. Um leið var minnt á það í fjölmiðlum að þegar íslenskir ráðherrar mæta til Úkraínu hafa þeir með sér fúlgur fjár og það hafi lengi verið vitað og viðurkennt að lítt eða illa sé skráð hvernig þeir fjármunir séu nýttir. Þeir slengja því á borð valdamanna þar eystra og það þótt sáralítil umræða sé í þinginu um hvaða vit sé í slíkum gjörningi.

Á dögunum tók núverandi forseti Bandaríkjanna það fram opinberlega að svimandi upphæðir í dollurum talið hefðu verið fluttar til Úkraínu af fyrirrennaranum, Joe Biden, og þær lítt eða illa skráðar þar í landi og lítt vitað hverjir héldu utan um hvernig þeir fjármunir yrðu nýttir. Tók forsetinn fram að þau Evrópulönd sem dældu peningum þangað austur hefðu þó haft vit á því að taka veð fyrir sínum fjármunum, þótt lítið væri vitað hvort að því væri gagn. Undirstrika má að núverandi valdhafar hér eru ekki einir um gáleysislega umgengni við slíka fjármuni enda er þingumræða sáralítil um slíka gerninga. Er fyrrverandi ríkisstjórn því ekki saklaus í slíkum efnum.