Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Ísland lék fyrri leik sinn við Ísrael í umspili um sæti á heimsmeistaramóti kvenna í handbolta á Ásvöllum í gær en leiknum var ekki lokið þegar blaðið fór í prentun. Seinni leikurinn fer fram í kvöld.
Mikið hefur verið rætt og ritað um einvígið, þar sem Ísland er að mæta Ísrael. Engir áhorfendur voru í gær og verða ekki í kvöld en Handknattleikssamband Íslands tók ákvörðun þess efnis eftir tilmæli ríkislögreglustjóra.
Eins og kollegi minn ritaði á þessum vettvangi fyrr í vikunni, þá hlýtur að vera góð og gild ástæða fyrir þeirri ákvörðun. Ástandið er mjög viðkvæmt og eru margir ósáttir við komu landsliðs frá Ísrael hingað til lands.
Þá hafa einhverjir hvatt íslensku leikmennina til að neita að mæta Ísrael og sýna þannig afstöðu sína þegar kemur að atburðunum á Gasa, sem fjallað er betur um á öðrum síðum í þessu blaði.
Að mínu mati væri það af og frá að mæta ekki til leiks. Skilaboðin sem slíkt myndi senda væru eflaust sterk en sú ákvörðun yrði afar dýrkeypt. Aðeins Ísrael myndi standa uppi sem sigurvegari að lokum.
Ísrael yrði dæmdur sigur í einvíginu, fengi sæti á lokamóti HM 2025 á kostnað Íslands, HSÍ fengi háa sekt og Ísland yrði útilokað frá næstu stórmótum í alþjóðlegum handknattleik.
Það er ósanngjarnt að búast við að leikmenn, leikmenn sem hafa lagt líf og sál í íþróttina frá barnæsku, fórni draumnum að spila á stórmóti næstu árin. Það er líka ósanngjarnt að Ísrael af öllum þjóðum fengi gefins sæti á HM á kostnað Íslands.
Besta lausnin er að Ísland vinni einvígið með sannfærandi hætti og sendi þannig skýr skilaboð.