Í ríkiseigu Eftirlit Byggðastofnunar með fyrirtækinu er umdeilt.
Í ríkiseigu Eftirlit Byggðastofnunar með fyrirtækinu er umdeilt. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála felldi 31. mars síðastliðinn úr gildi ákvörðun Byggðastofnunar varðandi afslætti Íslandspósts af reglubundnum viðskiptum með magnpóst, enda hefði ekki verið sýnt nægilega fram á að þeir samræmdust lögum

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála felldi 31. mars síðastliðinn úr gildi ákvörðun Byggðastofnunar varðandi afslætti Íslandspósts af reglubundnum viðskiptum með magnpóst, enda hefði ekki verið sýnt nægilega fram á að þeir samræmdust lögum. Magnpóstur er áritaður bréfapóstur.

Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Íslandspóts, segir afslættina gilda þar til annað verði ákveðið.

„Okkar mat er að afsláttartafla bréfa stendur óbreytt hjá okkur þar til ný ákvörðun tekur gildi hjá Byggðastofnun og munum við lúta þeirri ákvörðun þegar hún liggur fyrir,“ sagði hún.

„Fyrir rúmu ári lögðum við niður verðskrá magnpósts og 12. ágúst í fyrra tók gildi nýtt fyrirkomulag á útreikningum á afsláttum magnpósts, þ.e. pósts sem er sendur í miklu magni. Það voru engar breytingar á prósentum [á afslætti] heldur að í staðinn fyrir að reikna afslættina út miðað við magn sem kemur í hvert sinn fórum við að reikna út afslættina miðað við uppsafnað magn sem kemur yfir mánuðinn,“ segir Þórhildur Ólöf.

Ekki lengur hagræði

Athygli vekur að árið 2020 felldi Pósturinn niður samsvarandi afslætti af reglubundnum viðskiptum með magnpóst, þá að eigin frumkvæði. Í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar frá þeim tíma (16/2020) er að finna ítarlegan rökstuðning Póstsins fyrir því að ekki sé lengur hagræði af slíkum viðskiptum í dreifikerfi fyrirtækisins, enda væru þær forsendur sem lágu viðbótarafslættinum til grundvallar ekki við lýði. Sagði þar meðal annars:

„Er það mat Póstsins að metnaðarfullar umbætur í verkferlum, upplýsingatæknilausnir og viðskiptaskilmálar magnpósts virki samanlagt það vel að í dag séu ekki fyrir hendi þau skilyrði sem ellegar kynnu að valda því að aðilar sem stunda reglubundin viðskipti með magnpóst skapi meira samráð eða betri yfirsýn en þeir sem ekki eru í reglubundnum viðskiptum vegna magnpósts.“

Fékk samkeppni

Árið 2024 tók Íslandspóstur hins vegar aftur upp magnafslætti af reglubundnum viðskiptum, í kjölfar þess að fyrirtækið fékk samkeppni frá Póstdreifingu um slíkan útburð, þrátt fyrir að hafa áður sagt að ekki væru áðurnefnd skilyrði fyrir slíkum afslætti. Þeir afslættir voru bornir undir Byggðastofnun, sem samþykkti erindið án þess að sinna rannsóknarskyldum sínum sem skyldi, að mati úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, og hóf Pósturinn í kjölfarið að bjóða hið nýja afsláttafyrirkomulag

Þá ákvörðun kærðu markaðsaðilar haustið 2024 með þeim rökum að markaðsráðandi aðili þyrfti að geta sýnt fram á hagræn rök fyrir afsláttum, ella gætu þeir talist ólögmætir. Meðal sjónarmiða kærenda var að eitt meginhlutverk Byggðastofnunar væri að stuðla að samkeppni. Þá var bent á að mótsögn væri í rökstuðningi Íslandspósts fyrir hækkuninni. Árið 2020 hefði Pósturinn talið hverfandi hagræði fylgja magnpósti en svo talið fylgja honum aukið hagræði í erindinu til Byggðastofnunar árið 2024. Jafnframt var leitað til Samkeppniseftirlitsins vegna málsins.

Bauð afslætti á ný

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála felldi sem áður segir ákvörðun Byggðastofnunar úr gildi með úrskurði sínum 31. mars.

Úrskurður nefndarinnar er ítarlegur, alls 29 blaðsíður, og í 195 liðum. Liðir 172 til 174 bregða birtu á hvernig úrskurðarnefndin telur afslætti Íslandspósts árið 2024 hafa verið útfærða.

„Áhrif þeirra breytinga sem eru til umfjöllunar í máli þessu hljóta hins vegar, eðli málsins samkvæmt, að verða þau að ÍSP mun veita afslætti í ríkara mæli en áður þar sem lágmarksfjöldi til að njóta afsláttar hefur verið lækkaður umtalsvert og tímabil til útreiknings afslátta verið fært frá stakri afhendingu yfir í heilan mánuð hverju sinni. Kostnaður ÍSP af magnpósti mun þar af leiðandi óhjákvæmilega aukast vegna aukins umfangs afslátta frá fyrri skilmálum magnafslátta,“ segir í lið 172 á blaðsíðu 26.

Af þessu má ráða að Íslandspóstur hafi útvíkkað skilyrðin til að njóta þessa afsláttar þegar hann var kynntur á ný árið 2024. Fyrir vikið myndi kostnaður Póstsins af þessum afslætti aukast.

Bréfunum fór fækkandi

Í næsta lið, lið 173 á blaðsíðu 26, er svo fjallað um mat Byggðastofnunar á kostnaði Íslandspósts af því að veita þennan afslátt.

„Í forsendum BST er, þrátt fyrir framangreint, ekki vikið að þýðingu raunkostnaðar við að veita þjónustu innan alþjónustu, sbr. 3. mgr. 17. gr. laga nr. 98/2018, fyrir niðurstöðu málsins. Þá er ekki vikið að því [að] hvaða marki niðurstaða hinnar kærðu ákvörðunar geti talist í samræmi við hverfandi hagræði af móttöku magnpósts í ljósi fækkunar bréfpósta, í samræmi við rökstuðning ÍSP með tilkynningu um breytingar, dags. 28. júní 2024. Þannig verður ekki séð að BST hafi leitast eftir því að afla upplýsinga við meðferð málsins með það að markmiði að upplýsa hugsanlegt misræmi um þau kostnaðarsjónarmið sem ákvörðunin byggði á,“ segir þar orðrétt. Bendir umsögnin til þess að úrskurðarnefndin telji Byggðastofnun ekki hafa metið kostnað Póstsins af afslættinum til fulls og stofnunin þannig vanrækt rannsóknarskyldur sínar. Þannig farið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga, rannsóknarreglunni, sem segir að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.

Lagahliðinni líka ábótavant

Því næst er vikið að því í lið 174 hvernig Byggðastofnun lagði mat á títtnefndan afslátt út frá lögum um póstþjónustu.

„Að mati nefndarinnar verður ekki ráðið af niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar að BST hafi aflað þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar voru til að beita þeim málefnalegu sjónarmiðum sem hin kærða ákvörðun átti að byggja á, með hliðsjón af lagagrundvelli málsins, sbr. 17. og 18. gr. laga nr. 98/2019. Þannig var rannsókn hinnar kærðu ákvörðunar haldin þeim annmarka að tiltekin lögbundin sjónarmið, s.s. samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 98/2019, sbr. 2. mgr. 18. gr. laganna, voru ekki tekin til sérstakrar skoðunar eða rannsóknar af hálfu BST þrátt fyrir að slíkt hefði verið til þess fallið að tryggja að málið yrði upplýst með fullnægjandi hætti,“ sagði í lið 174 í úrskurðinum.

Taki mið af raunkostnaði

Til upprifjunar segir í 3. mgr. 17. gr. póstlaganna að gjaldskrár fyrir alþjónustu, þar á meðal gjaldskrár vegna erlendra póstsendinga, skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Gjaldskrár skulu vera auðskiljanlegar og gæta skal jafnræðis og tryggja gagnsæi.

Hins vegar segir í 2. mgr. 18. gr. laganna að breytingar á gjaldskrá fyrir magnpóst, þ.m.t. breytingar á verði og skilmálum, skuli tilkynna með að lágmarki 30 daga fyrirvara. Alþjónustuveitandi skal fyrir sömu tímamörk senda Byggðastofnun fullnægjandi rökstuðning fyrir breytingum sem gerðar eru.

Af úrskurðinum má ætla að úrskurðarnefndin telji Byggðastofnun ekki hafa skoðað títtnefndan afslátt Íslandspósts fyrir magnpóst árið 2024 sérstaklega í ljósi þessara lagagreina. Fyrrnefnda lagagreinin, sú sem kveður á um að gjaldskrár fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði, hefur verið töluvert til umræðu. Þá í samhengi við fullyrðingar Félags atvinnurekenda og fleiri aðila um að Pósturinn hafi undirverðlagt þjónustu með því að láta gjaldskrár ekki endurspegla raunkostnað við að veita þjónustuna.

Höf.: Baldur Arnarson