Baksvið
Þóroddur Bjarnason
tobj@mbl.is
Umhverfismál, sjálfbærni og kolefnisútblástur voru áberandi þemu á Kenshiki-ráðstefnu Toyota í Evrópu í Brussel í Belgíu á dögunum. Þangað voru mættir 350 blaðamenn til að hlýða á helstu fyrirætlanir Toyota á þessu ári og í næstu framtíð, ásamt því að skoða nýja bíla sem væntanlegir eru á markaðinn, eins og hinn snaggaralega rafbíl Urban Cruiser og hugmyndabílinn Toyota FT-ME.
Einnig lagði fyrirtækið áherslu á stefnu sína Hreyfanleiki fyrir alla (e. Mobility for All) og boðaði nýjungar henni tengdar á bílasýningunni Japan Mobility Show næsta haust.
Í máli forsvarsmanna Toyota á ráðstefnunni kom fram að kolefnisútblástur væri helsti óvinurinn. Því hefði verið sett sú stefna að Toyota yrði kolefnishlutlaust í Evrópu árið 2035.
Fjallað var einnig um vetni sem orkugjafa og sagt að Evrópa hygðist byggja vetnisstöðvar með 200 km millibili á hraðbrautum álfunnar fyrir 2030.
Hlusta á þarfir
Áberandi var í máli forsvarsmanna fyrirtækisins hve þung áhersla var lögð á að hlusta vel á þarfir viðskiptavina á sama tíma og fyrirtækið er, eins og önnur fyrirtæki sem selja bíla í Evrópu, háð ítarlegum reglum ESB um kolefnisútblástur. Þar gengur álfan lengra en aðrir.
Til gamans má geta þess að hjá Toyota vinna 350 þúsund manns um allan heim. Fyrirtækið rekur 22 rannsóknar- og þróunarsetur og 69 verksmiðjur. Rúmlega 1,2 milljón Toyota-ökutæki seldust í Evrópu á síðasta ári, sem er met, og fyrirtækið er með 7% markaðshlutdeild í álfunni. Þá var félagið annað söluhæsta bílafyrirtækið í Evrópu í nýskráðum bílum fjórða árið í röð.
Það má segja að fyrirtækið hlusti vel á viðskiptavini þegar kemur að vélartegundum, því Toyota býður eitthvað fyrir alla, tengiltvinnbíla, tvinnbíla og rafbíla auk hinna hefðbundnu jarðefnaeldsneytisbíla, og gjarnan þrjár stærðir véla í hverjum flokki.
Sala rafbílsins bZ4X, fyrsta hreina rafbílsins frá Toyota, hefur gengið vel í Evrópu eins og kom fram á ráðstefnunni og þá sérstaklega í rafbílalandinu Noregi, þar sem bíllinn er orðinn sá söluhæsti af sinni gerð. Þá var hann fjórði vinsælasti rafbíllinn í Evrópu árið 2024.
Meiri kraftur
Á sýningunni var ný og uppfærð útgáfa bílsins kynnt. Þar lofar Toyota meiri krafti, hraðari hleðslu og meira togi. Þá hefur hann verið endurhannaður að innan og skjárinn í miðjunni stækkaður. „Þetta er bíll fyrir kolefnishlutlausan lífsstíll,“ sagði í kynningu, en bíllinn er væntanlegur á markaðinn næsta haust.
Einnig fengu blaðamenn að kynnast nýrri útfærslu hins vinsæla CHR, CHR+, sem framleiddur er eingöngu fyrir Evrópumarkað. Hann verður rafdrifinn með allt að 600 km drægni og 340 hestöfl undir húddinu, sem skilar honum á 5,2 sekúndum í eitthundrað kílómetra hraða á klukkustund.
Einnig verður áfram hægt að fá bílinn sem tvinn- og tengiltvinnbíl.
Í máli sérfræðinga Toyota kom fram að þróun CHR+ nyti góðs af uppgötvunum í tengslum við bZ4X.
Von er á nýjum CHR+ á næsta ári.
Fyrrnefndur Urban Cruiser var einnig kynntur formlega til sögunar og sagði Toyota frá því með stolti að nú yrði fyrirtækið með þrjá hreina rafbíla í Evrópu. „Við erum að standa við það sem við lofuðum.“
Urban Cruiser verður með allt að 400 km drægni og tvær stærðir af rafhlöðum verða í boði.
„Það er mikil eftirspurn eftir nákvæmlega svona bíl,“ sagði sérfræðingur Toyota um bílinn, sem kemur á markaðinn með haustinu.
Þrír nýir frá Lexus
Einnig boðaði Toyota á sýningunni þrjá nýja Lexus-rafbíla sem kæmu á markaðinn á næstu 12 mánuðum. Þetta lúxusvörumerki Toyota gekk vel í Evrópu í fyrra þegar 88 þúsund bifreiðar seldust, sem er 20% aukning. Markaðshlutdeild er 2,5% í Evrópu. 90% seldra bíla voru annaðhvort í tvinn- eða tengiltvinnútgáfu. 851 þúsund Lexus-bílar seldust á síðasta ári samtals um allan heim.
Nýr Lexus-hugmyndabíll var afhjúpaður á sýningunni. Hann er sportlegur með nýstárlegt ferkantað fiðrildastýri (e. butterfly), sex gíra og 400 hestöfl. Hann á að vera hljóðlátari og þægilegri og titringur minni. Útlit verður nútímalegra og nýir litir voru kynntir til sögunnar. Dimmanlegt útsýnisglerþak verður einnig í boði.
Eitt af því sem vakti hvað mesta athygli var Toyota FT-ME hugmyndabíllinn, lítill rafdrifinn ör-borgarbíll, 2,5 metrar á lengd, sem meðal annars á að markaðssetja sem annan bíl á heimilið, hentugan fyrir unglinga, sendla, lögregluna o.fl. „Hann hefur allt sem þú elskar við Toyota en í smækkaðri samanþjappaðri útgáfu,“ sagði fulltrúi Toyota á kynningu og opnaði glæru sem sýndi hvernig hægt er að losa sætið úr bílnum til að nota hann til flutninga. Þá er hægt að fjarstýra honum í appi og samhæfa við símann. Enn fremur er hægt að hlaða hann með því að tengja við aðra rafbíla. Þá býr hann yfir sólarrafhlöðu sem getur bætt 20-30 km inn á geyminn.
Hámarkshraði verður 45 km á klukkustund og drægni 100 km.
„Nú er rétti tíminn til að setja svona bíla á göturnar. Borgirnar eru tilbúnar.“
Mjög sveigjanlegt
Blaðamaður settist niður með Matt Harrison, yfirmanni Toyota í Evrópu, og spurði hann m.a. að því hvernig Toyota tryggði samkeppnishæfni sína með síaukinni áherslu ESB á orkuskipti.
Harrison sagði að Toyota gæti verið mjög sveigjanlegt og mætt þörfum ólíkra markaða. „Það er ekki það sama sem hentar öllum,“ sagði Harrison. „Við reynum að sérsníða framboðið eftir löndum.“
Spurður að því hvernig Toyota náði að auka markaðshlutdeild sína í Evrópu úr 5% upp í 7% árið 2024 sagði Harrison að þar hefðu ólíkar vélar komið að góðum notum. „Við vorum vel í sveit sett þegar trú neytenda á dísilolíu byrjaði að þverra. Við áttum tvinnbíla í mörgum útgáfum og gátum lagað okkur að breyttu landslagi mjög hratt. Bílarnir sem hannaðir eru sérstaklega fyrir Evrópu hafa notið mikillar velgengni, eins og C-HR.“
Spurður að því af hverju Toyota gangi betur í Evrópu en öðrum japönskum bílafyrirtækjum eins og Suzuki og Mazda segir Morrison að þessir samkeppnisaðilar framleiði ekki bíla í Evrópu eins og Toyota, og félögin séu minni. „Evrópa er kröfuharður markaður og þú verður að vera sveigjanlegur og með fókus á það hverju neytendur kalla eftir. Það er erfiðara ef þú ert ekki með verksmiðjur í álfunni.“