Haraldur Henrysson, fv. hæstaréttardómari og forseti Slysavarnafélags Íslands, lést á Hrafnistu að Sléttuvegi þann 4. apríl síðastliðinn, 87 ára að aldri. Haraldur fæddist 17. febrúar 1938 í Reykjavík og ólst þar upp

Haraldur Henrysson, fv. hæstaréttardómari og forseti Slysavarnafélags Íslands, lést á Hrafnistu að Sléttuvegi þann 4. apríl síðastliðinn, 87 ára að aldri.

Haraldur fæddist 17. febrúar 1938 í Reykjavík og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Henry Alexander Hálfdánsson skrifstofustjóri og Sigríður Guðrún Þorsteinsdóttir húsmóðir.

Haraldur lauk stúdentsprófi frá MR 1958 og lögfræðiprófi frá HÍ 1964. Hann starfaði sem fulltrúi hjá bæjarfógetunum í Keflavík og Kópavogi frá 1964-1973, var sakadómari við Sakadóm Reykjavíkur til 1988 og hæstaréttardómari frá 1988-2003, þar af forseti Hæstaréttar 1996-1997.

Haraldur átti sæti í stjórn Slysavarnafélags Íslands (SVFÍ), síðar Landsbjargar, árin 1973-1990, eftir að hafa verið í stjórn slysavarnadeildarinnar Ingólfs í Reykjavík 1967-1973. Hann var síðan forseti SVFÍ frá 1982-1990. Hann var gerður að heiðursfélaga Slysavarnafélagsins árið 1990.

Haraldur sinnti ýmsum öðrum störfum tengdum félags- og áhugamálum sínum. Átti sæti á Alþingi sem varaþingmaður frá 1969-1971 og var í framkvæmdastjórn Samtaka frjálslyndra og vinstri manna. Hann var í sendinefnd Íslands á fundum hafbotnsnefndar Sameinuðu þjóðanna í Genf og New York 1971-1973 og í sendinefnd Hafréttarráðs SÞ 1973 og 1976. Haraldur átti sæti í bankaráði Útvegsbankans og umferðarráði og var formaður rannsóknarnefndar sjóslysa um tíu ára skeið, 1973-1983. Hann átti jafnframt sæti í ýmsum nefndum og ráðum tengdum öryggismálum sjómanna.

Haraldur var formaður Dómarafélags Reykjavík um skeið og síðar formaður Dómarafélags Íslands. Hann var sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1997.

Eftirlifandi eiginkona Haraldar er Elísabet Kristinsdóttir matarfræðingur, f. 1942. Sonur þeirra
er Ásgeir Kristinn, f. 1981, maki Íris Bjarnadóttir. Barnabörnin eru tvö.