Donald Trump forseti Bandaríkjanna kynnti í gær 90 daga hlé á aðgerðum gegn tugum landa sem áttu að sæta háum tollum. Kína er þar þó undanskilið og hefur Trump ákveðið að leggja 125 prósenta toll á innfluttar vörur frá landinu

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Donald Trump forseti Bandaríkjanna kynnti í gær 90 daga hlé á aðgerðum gegn tugum landa sem áttu að sæta háum tollum. Kína er þar þó undanskilið og hefur Trump ákveðið að leggja 125 prósenta toll á innfluttar vörur frá landinu. Tíu prósenta grunnlína verður á tollum fyrir önnur ríki á tímabilinu.

„Byggt á virðingarskortinum sem Kína hefur sýnt heimsmarkaðnum hækka ég hér með tollana sem Bandaríkin innheimta af Kína í 125% og tekur það gildi um leið,“ skrifaði Trump á Truth Social.

Kínverska fjármálaráðuneytið tilkynnti í gær að þarlend stjórnvöld myndu setja 84% toll á allan innflutning frá Bandaríkjunum frá og með deginum í dag. Aðgerðir Kínverja voru svar við tollum Bandaríkjastjórnar, sem áður en Trump hækkaði þá upp í 125% áttu að vera 104%.

Sagði ráðuneytið í tilkynningu sinni að tollar Bandaríkjastjórnar væru að skaða viðskiptakerfi heimsins, en Kínverjar sendu í gær kvörtun til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO vegna tollanna.

Evrópusambandið tilkynnti svo í gær gagnaðgerðir sínar gegn tollum Bandaríkjastjórnar á stál- og álinnflutning, sem settir voru á í síðasta mánuði. Munu aðgerðir ESB ganga í gildi 15. apríl, en þær beinast að bandarískum vörum sem metnar eru á rúmlega 20 milljarða bandaríkjadala.

Sagði framkvæmdastjórn ESB í tilkynningu sinni í gær að hægt yrði að draga aðgerðirnar til baka um leið og Bandaríkin samþykktu sanngjarna lausn á tolladeilunni. ESB á enn eftir að svara 20% tollinum sem Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti 2. apríl síðastliðinn.

Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Scott Bessent, varaði í gær ríki Evrópu sem og önnur við því að auka viðskiptasamband sitt við Kínverja. Líkti hann því við að „skera á sinn eigin háls“, þar sem Kínverjar væru sekir um að offramleiða vörur og selja þær á undirverði á aðra markaði.

Bessent tjáði sig einnig um þá ákvörðun Kínverja að hækka sína tolla upp í 84% og gerði lítið úr, þar sem útflutningur Kínverja til Bandaríkjanna væri fimm sinnum meiri en útflutningur Bandaríkjamanna til Kína. „Þannig að þeir geta hækkað sína tolla, en hverjum er ekki sama?“ spurði Bessent.

Trump Bandaríkjaforseti sagði á hátíðarkvöldverði með samflokksmönnum sínum í fyrrakvöld að ríki heims biðu nú í röðum eftir því að semja við Bandaríkin um „betra samkomulag“, en Japan og Suður-Kórea hafa þar verið sérstaklega nefnd. Þá sagði Trump við sama tilefni að Bandaríkin ætluðu sér að hækka tolla á lyfjafyrirtæki innan skamms. Féllu hlutabréf í helstu lyfjafyrirtækjum heims í gær.

Tap á mörkuðum í Evrópu

Markaðir brugðust misvel við vendingum gærdagsins, þar sem Nikkei-vísitalan í Japan féll um nærri 4%, á sama tíma og vísitölurnar í Sjanghæ og Hong Kong enduðu ögn hærri en við lok viðskipta daginn á undan. Allir helstu markaðir Evrópu féllu hins vegar í gær, og var tap markaðanna í Lundúnum, París og Frankfurt í kringum 3%.

Hlutabréfavísitölur ruku upp í Bandaríkjunum í kjölfar stefnubreytingar Trumps en yfir daginn höfðu tölur rokkað mikið upp og niður fram eftir deginum.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson