Lykilmaður Ásgeir Sigurgeirsson var með mark og stoðsendingu.
Lykilmaður Ásgeir Sigurgeirsson var með mark og stoðsendingu. — Ljósmynd/Þórir Tryggvason
Ásgeir Sigurgeirsson, sóknarmaður bikarmeistara KA, var besti leikmaðurinn í fyrstu umferð Bestu deildar karla í fótbolta að mati Morgunblaðsins. Ásgeir lék mjög vel, skoraði fyrra mark Akureyrarliðsins og lagði upp það seinna þegar það gerði…

Ásgeir Sigurgeirsson, sóknarmaður bikarmeistara KA, var besti leikmaðurinn í fyrstu umferð Bestu deildar karla í fótbolta að mati Morgunblaðsins.

Ásgeir lék mjög vel, skoraði fyrra mark Akureyrarliðsins og lagði upp það seinna þegar það gerði jafntefli, 2:2, við KR í fjörugum leik á KA-vellinum á sunnudaginn. Hann fékk tvö M fyrir frammistöðu sína í leiknum.

Spilaði fyrst 14 ára

Ásgeir er 28 ára gamall Húsvíkingur sem leikur nú sitt tíunda keppnistímabil með KA. Hann byrjaði að spila með meistaraflokki Völsungs aðeins 14 ára gamall árið 2011 og lék með liðinu í þrjú ár, tvö í 2. deild og svo eitt ár í 1. deild, en var síðan í röðum norska félagsins Stabæk í tvö ár, 2014 og 2015, og spilaði þar með unglingaliði.

KA var í 1. deild á fyrsta tímabili Ásgeirs með liðinu og hann skoraði átta mörk, 19 ára gamall, þegar það vann deildina árið 2016 og hefur leikið í úrvalsdeildinni frá þeim tíma.

Í dag er Ásgeir orðinn næstleikjahæsti leikmaðurinn í sögu KA í efstu deild með 167 leiki og sá þriðji markahæsti með 42 mörk en markið gegn KR var hans fimmtugasta fyrir Akureyrarliðið í deildakeppninni.

KA, Breiðablik og Víkingur eiga tvo leikmenn hvert lið í úrvalsliði fyrstu umferðar í Bestu deildinni á nýju keppnistímabili, eins og sjá má hér fyrir ofan. Alls eiga átta af tólf liðum deildarinnar fulltrúa í liðinu.