Elfa Sonja Guðmundsdóttir frá Króki í Grafningi fæddist 28. mars 1945 í Reykjavík. Hún lést á Landspítalanum 30. mars 2025.

Elfa var dóttir hjónanna Guðmundar Jóhannessonar, f. 1897, d. 1996, bónda að Króki í Grafningi, og Guðrúnar Sæmundsdóttur húsfreyju, f. 1904, d. 1987. Elfa var næstyngst átta systkina. Elstur Egill, f. 1921, látinn, Guðrún Mjöll, f. 1923, látin, Áslaug Fjóla, f. 1926, látin, Jóhannes Þórólfur, f. 1931, Sæunn, f. 1933, Jóhanna, f. 1936, Erlingur Þór, f. 1947, látinn.

Elfa giftist eftirlifandi eiginmanni sínum Gylfa Guðjónssyni, f. 2.5.1944, frá Hallstöðum í Ísafjarðardjúpi, 23. september 1967 og eignuðust þau þrjá syni. 1) Heimir, f. 23.2.1967. Börn hans og Aðalheiðar Þorsteinsdóttur eru a) Elfar Andri, í sambúð með Mary Ann Divinagracia og eiga þau eitt barn, b) Snæbjörn Allan í sambúð með Hildi Björk Thoroddsen. c) Hrannar Bjarki, í sambandi með Laurent Trottier. 2) Ólafur, f. 19.12. 1969, giftur Ernu M. Arnarsdóttur, f. 3.6. 1975. Dætur: a) Svanhildur Ýr, í sambúð með Niklas Brusen og eiga þau þrjú börn, b) Arna María, í sambúð með Pablo Garcia og eiga þau tvö börn, c) Ásta Sonja, í sambúð með Ismail Cheniya, og d) Elfa Margrét, í sambandi með Ísaki Tuma. 3) Engilbert, f. 18.1.1973.

Elfa ólst upp í Króki í Grafningi og gekk í Ljósafossskóla. Hún flutti 14 ára með foreldrum sínum til Reykjavíkur. Þegar Elfa var 19 ára ákvað hún að fara til Bandaríkjanna í eitt ár að svala ævintýraþörfinni. Fljótlega eftir heimkomu kynntust Elfa og Gylfi og hófu búskap árið 1966, fyrstu árin á Laugavegi og í Kópavogi en fluttust síðan í Mosfellssveitina árið 1973, ólu drengina þar upp og bjuggu þar allar götur síðan, nú síðast á Hlaðhömrum í Mosfellsbæ.

Elfa starfaði að mestu við þjónustustörf í gegnum árin. Eitt af hennar fyrstu störfum var á fæðingarheimilinu í Reykjavík. Hún setti sitt mark á félagslíf Mosfellinga og sá um félagsheimilið Hlégarð í áraraðir. Síðar á ævinni vann hún á veitingahúsinu Lóuhreiðri, þó nokkur ár starfaði hún á Hótel Eddu í Flókalundi, og síðasta tug starfsævinnar á Læknasetrinu.

Útför fer fram frá Langholtskirkju í dag, 10. apríl 2025, klukkan 13.

Elsku mamma, það hefur verið dálítið verkefni fyrir okkur að meðtaka að þú sért farin, svo óvænt, og þú svo full af krafti, gleði, og kletturinn í lífi svo margra.

Það er óhætt að segja að það voru forréttindi að fá að alast upp sem sonur hennar Elfu. Við bræðurnir upplifðum mikið frelsi en samt svo mikið öryggi. Stóriteigurinn var ein allsherjar umferðarmiðstöð þar sem allir voru velkomnir. Við tókum kjallarann mjög snemma yfir og vorum í raun með eigin íbúð frá barnaskólaaldri. Það kom best í ljós þegar aðrir foreldrar í hverfinu voru búnir að fá nóg af því að hafa krakkaskara inni hjá sér, þá var alltaf hægt að fara í kjallarann í Stórateig, og mamma takmarkaði aldrei fjöldann, ekki hægt að skilja út undan. Það breyttist ekkert þegar við komumst á unglingsárin eða stofnuðum fjölskyldur, alltaf var Stóriteigur til staðar til skemmri eða lengri tíma fyrir svo marga. Þrátt fyrir frelsið upplifðum við festu, aldrei að missa úr skóla, nema ef það voru skyldustörf í sveitinni, vinna var dyggð, og kvöldmatur var skylda. Það gat gerst að við kæmum ósáttir heim að kenna einhverjum um ófarir okkar, þá hlustaði hún af athygli en átti til að spyrja „og hvað gerðir þú?“, sem fékk mann til að skilja betur bæði sjónarmiðin og læra að vinna með samkennd. Aldrei að baktala fólk. Vináttan og traustið sem mamma sýndi okkur var ómetanlegt veganesti út í lífið. Þegar við komumst á fullorðinsár og stofnuðum fjölskyldur þá tók við nýr kafli þar sem barnabörnin spiluðu lykilhlutverk í hennar lífi. Hún naut þess að ferðast og fór óteljandi ferðir um allan heim með pabba og ferðafélögunum. Það var okkar lán að ferðalög og fjölskylda voru hennar yndi og nutum við heldur betur góðs af óteljandi heimsóknum hennar til Hollands og Kaliforníu til að passa upp á stelpurnar okkar. Hún var einstakur uppalandi sem náði langt út fyrir raðir okkar bræðra.

Mamma var yndisleg manneskja, ekki bara sem mamma, þriðja stoðin á heimili okkar Ernu og stelpnanna í gegnum árin, vinur okkar allra, heldur sem minn traustasti bandamaður í glímu við lífið og tilveruna. Við munum ylja okkur við ljúfar minningar um manneskju sem var einstök fyrirmynd í alla staði. Við kveðjum þig með óendanlegu þakklæti í hjarta og munum passa hvert upp á annað elsku mamma, alveg eins og þú vildir hafa það.

Þinn vinur,

Ólafur (Óli).

Nú er fallinn stofninn sterki,

styrk mér gaf í dagsins verki.

Ungan ólst upp angann heima,

alúð veitt af blíðri ást.

Áfram leiddi höndin hlýja,

höndin sem að aldrei brást.

Varst það þú sem viljann stæltir,

viskuorð þín fögur mæltir.

Heiðarleiki hæstur talinn,

hollráð veitt af sannri ást.

Áfram leiddi höndin hlýja,

höndin sem að aldrei brást.

Blessun veittir börnum mínum,

blíðu sýndir þeim sem þínum.

Af öllu hjarta þökkum þér,

þína hreinu, skæru ást.

Áfram leiddi höndin hlýja,

höndin sem að aldrei brást

Nú slær ei lengur hjartað heitt,

heimsins mynd er orðin breytt.

Nú er horfin sjónum sýnin,

sú er áður veitti ást.

Nú er kalin höndin hlýja,

höndin sem að aldrei brást.

(Arnar Einarsson)

Elsku yndislega, blíða og brosmilda tengdamamma og vinkona, takk fyrir allt. Ég veit að það verður tekið vel á móti þér í sumarlandinu.

Þangað til næst.

Ástarkveðja,

Erna.

Elsku amma mín og besta vinkona, ég vil ekki trúa því að þú sért bara farin frá okkur. Þú skilur eftir stórt skarð í mínu lífi, en minningarnar eru endalausar og munu lifa að eilífu. Ég ætla að fá að skrifa nokkur orð frá mér og systrum mínum.

Það er ekki hægt að setja 80 ár í nokkur orð. Við systur vorum svo heppnar að fá sögur frá þér um þínar upplifanir. Þú elskaðir að lesa ævisögur, en ekki má gleyma að þín ævisaga er mögnuð!

Stelpa úr sveit sem fór á heimavist, var myrkfælin, rík af systkinum sem fífluðust með henni, ævintýragjörn, hugrökk og alltaf til í að prófa eitthvað nýtt.

Að fara til Bandaríkjanna á vit ævintýranna, aðeins 19 ára gömul með litla sem enga enskukunnáttu, er ekki eitthvað sem allir fengu að gera á þessum tíma eða hefðu þorað að gera. En þú varst mögnuð! Og sögurnar úr þeirri ferð eru fróðlegar og skemmtilegar.

Við systur erum svo heppnar og þakklátar fyrir að hafa átt þig að. Við elskuðum að koma heim úr skólanum og allt húsið ilmaði af bakstri eftir elsku bestu ömmu. Okkur fannst gaman að stússa með þér uppi í bústað, og við skulum passa að halda honum á lífi fyrir þig.

Þú skutlaðir og sóttir okkur á æfingar og leyfðir okkur að spila hvaða tónlist sem er. Þú sýndir okkur alltaf áhuga og skilning í öllum tímabilum lífsins – frá ungbarnaskeiðinu til tímabilsins þegar ég varð mamma. Þú hefur alltaf stutt okkur.

Þú settir líf þitt í bið til þess að koma og passa okkur systur, hvar sem er í heiminum og hvenær sem er. Við erum svo þakklátar að foreldrar okkar þurftu að vera svona mikið í burtu, því það gaf okkur meiri tíma með þér.

Við eigum sérstaklega góðar minningar af okkur í Kaliforníu. Þar sem þú komst og eyddir miklum tíma með okkur – skoðaðir blómagarða, fórst í „roadtrip“ til San Diego, morgunstundir með þér fyrir skóla, rúntar niður á strönd (þar sem systur mínar létu þig óvart keyra inn á hraðbraut), göngutúrar um hverfið, Starbucks-ferðir til að fá okkur karamellukaffi, og best voru kósýkvöldin þar sem þú sast og prjónaðir og hlustaðir á fíflalætin í okkur.

Ég gæti haldið endalaust áfram að tala um hversu frábær, yndisleg, hugrökk og falleg þú varst.

Takk fyrir að passa upp á okkur öll þessi ár.

Við skulum taka við af þér og passa upp á alla. Við munum geyma minningarnar í hjarta okkar og hugsa hlýtt til þín.

Arna María,
Ásta Sonja og
Elfa Margrét.

Í dag kveðjum við Elfu ömmu – konu sem var hluti af lífi okkar alveg frá upphafi.

Hún átti hlut í fyrstu minningum okkar með bros á vör og óendanlega þolinmæði. Hún skammaði okkur aldrei þótt við ættum það stundum skilið. Hún var alla tíð staðalímynd „ömmu“. Hún var eins og aukaforeldri, sérstaklega á fyrstu árunum. Hún hlustaði án þess að dæma, en það var alltaf stutt í hláturinn. Á síðustu dögum höfum við sameinað hlýjar minningar um Elfu ömmu.

Við áttum óteljandi ferðir með ömmu austur í bústað, oft með foreldrum eða frændfólki – en oftast með ömmu.

Ég minnist ferðanna upp í bústað með frænku í aftursætinu þar sem við lékum rússíbanaleik á leiðinni og veltumst til í beygjunum, til að amma yrði ekki vör við fíflaganginn þögðum við og flissuðum alla leið, á leiðarenda sagði amma: „Þið hér? Ég var búin að gleyma ykkur,“ þó að hún vissi alveg hvað við vorum að bralla.

Við tíndum ber í sultu, ræktuðum kartöflur og gróðursettum tré á túninu sem seinna varð Krakkaskógur – leiksvæði okkar í sól, en í rigningu teiknuðum við myndir fyrir ömmu.

Eitt skipti fór ég með henni upp í Krók að sækja áburð á beðin. Ég hélt ég gæti hlaupið alla leið. Amma hló og leyfði mér að prófa meðan hún keyrði hægt við hliðina á mér þar til ég varð þreyttur og settist inn í bíl.

Þó að við byggjum mörg ár erlendis var aldrei langt í heimsókn – sérstaklega um jólin. Amma eldaði humarsúpu á aðfangadag og hangikjöt annan í jólum. Yfir hátíðirnar átum við lakkrístoppana hennar alla daga.

Ég man eftir að koma einn til Íslands sem barn. Hún leyfði mér að horfa á teiknimyndir og borða ís allan daginn – og þegar ísinn kláraðist fór hún út í búð að kaupa meira.

Hún fylgdist með og útvegaði búninga úr eigin fataskáp fyrir óskipulagt jólaleikrit mitt með tveimur frænkum í tröppunum í Stórateig.

Þegar ég var að leika við frænku heima hjá ömmu tók hún sérpantanir og brunaði út í ísbúð svo leikurinn truflaðist ekki.

Okkar kennari og handverkskona. Hún kenndi mér að elda bleikju – og gerði það best allra. Hún kenndi mér líka að velja og elda hrossakjöt á réttan hátt.

Hún prjónaði og saumaði fyrir okkur, en ekki aðeins föt á okkur – heldur líka á dúkkurnar og bangsana mína. Á seinni árum kenndi hún mér að stytta buxur sjálfur.

Þegar vinur minn erlendis vildi kaupa lopapeysu neitaði hún að leyfa slík kaup – heldur prjónaði hún sjálf peysu á þennan ókunnuga Ungverja.

Í einni Kaliforníuferð deildi ég óvænt herbergi með henni. Hún reyndi að bjóðast til að sofa á gólfinu svo ég fengi rúmið. Alltaf vildi hún okkur það besta, jafnvel á eigin kostnað.

Og alltaf, þegar eitthvað tókst: „Sko! Þú fórst létt með þetta.“ Og þegar eitthvað klikkaði: „Það gengur bara betur næst.“

Við áttum það dýrmætasta sem barn getur átt – Elfu ömmu.

Við verðum alla tíð þakklátir fyrir hlýjuna, húmorinn, matinn og þolinmæðina.

Takk fyrir að hlusta með hjartanu og aldrei dæma með orðum. Þín verður saknað, og við höldum minningunum vakandi – með brosi og blíðu, í anda Elfu ömmu.

Með ást og þakklæti, frá ömmustrákunum þínum.

Elfar Andri,
Snæbjörn Allan og
Hrannar Bjarki.

Elfa Sonja Guðmundsdóttir er horfin okkur og skilur eftir sig hlýjar minningar og kærleika. Hún fæddist í Króki í Grafningi þann 28. mars 1945, dóttir hjónanna Guðmundar Jóhannessonar og Guðrúnar Sæmundsdóttur, bændanna í Króki. Elfa ólst upp í þessum fallega sveitakjarna, umlukin náttúrufegurð og fjölskyldu, sem myndaði grunninn að þeim hjartahlýja persónuleika sem einkenndi hana alla tíð.

Elfa giftist Gylfa Guðjónssyni og saman áttu þau synina Heimi, Ólaf og Engilbert. Þau hjónin bjuggu lengst af í Mosfellsbæ, þar sem drengirnir ólust upp. En rætur Elfu í Krókslandi voru sterkar, og saman byggðu þau sumarhús á heimaslóðum hennar. Þar áttu þau sínar dýrmætustu stundir, umkringd fjölskyldu og vinum. Bústaðurinn þeirra varð staður gleði og samveru, þar sem ættarmót, grillveislur og ótal góðar stundir áttu sér stað. Allir sem heimsóttu þau í sumarhúsið vissu að þar beið þeirra hlýlegt viðmót, hlátur gleði og skemmtilegar samræður.

Elfa var einstök kona, hjartahlý og gestrisin með meiru. Hún tók öllum opnum örmum og hafði einstaka hæfileika til að láta alla finna sig velkomna. Hún var vinamörg og naut þess að eiga góða stund með fjölskyldu og vinum. Það er sárt að þurfa að kveðja hana og söknuðurinn er mikill. Það verður skrýtið að geta ekki lengur stoppað hjá henni í bústaðnum, sest niður og spjallað í hlýlegri nærveru hennar.

Minningin um Elfu Sonju lifir áfram í hjörtum okkar allra sem nutum góðs af nærveru hennar. Hún skilur eftir sig spor sem aldrei mást út – spor kærleika, hlýju og góðvildar. Við þökkum henni samfylgdina og kveðjum hana með söknuði og djúpri virðingu. Guð geymi þig, elsku Elfa frænka.

Kæra fjölskylda, okkar dýpstu samúðarkveðjur til ykkar.

Kolbrún Friðriksdóttir, Erling Ó. Sigurðsson.

Í dag kveðjum við ástkæra frænku og vinkonu, Elfu Sonju. Elfa var yngsta systir mömmu og skildu 22 ár þær að.

Mín fyrsta minning af Elfu er þegar hún fór til BNA, þá um tvítugt. Í Ljósheimum var slegið upp kveðjuveislu því á þeim tíma var ekki sjálfgefið að fara til útlanda. Öll fjölskyldan mætti og var síðan tekin mynd sem er enn til af systkinum, mökum og börnum.

Árið leið og Elfa kom heim reynslunni ríkari. Hún dvaldi hjá ættingjum í BNA þetta ár og hefur hún sagt mér frá dvölinni og öllum þeim ævintýrum sem hún upplifði og þar á meðal fór hún „Route 66“.

Minnisstæðastir eru háhæluðu skórnir sem hún kom með heim, og ég, þá átta ára skottutrippi, nýtti mér tækifærið að plampa um á þeim þegar hún sá ekki til. Svo má ekki gleyma inniskónum sem voru með lágum hæl og skreyttir fjörðum. Þetta átti við mig, að fá að höndla þessa gersemi.

Árin liðu og inn í líf hennar kom Gylfi, glæsilegur maður sem átti ættir að rekja til Vestfjarða, sem varð lífsförunautur hennar og eignuðust þau þrjá drengi, Heimi, Ólaf og Engilbert.

Elfa sagði mér eitt sinn að hana hefði alltaf langað að eignast tvíbura þegar hún var krakki en það runnið af henni þegar hún tók að sér að passa okkur frænkurnar sex stykki – elstu tvær á þriðja ári, tvær á öðru ári og yngstu á fyrsta ári – í nokkra klukkutíma! Það var nú engin logmolla hjá Elfu með þrjá hressa gaura. Hún sagði mér að það þýddi ekki að hafa punt og annað stofustáss, og var það uppi í skáp og tekið niður þegar drengirnir hennar náðu réttum aldri til að geta notið þess. Stóð stundum ekki steinn yfir steini þegar þeir höfðu tekið rassíu í bolta og öðrum leik.

Elfa var alltaf stór partur af tilveru minni og styrktust bönd okkar enn betur er ég tók yfir gamla sumarbústaðinn mömmu minnar. Þau systkinin voru svo lánsöm að fá spildu að gjöf úr landi afa og ömmu svo að í dag eiga mörg systkini hennar og afkomendur sumarhús á sama stað og mikill samgangur. Alltaf ættarmót!

Það var notalegt að geta skotist í kaffibolla hvor til annarrar og spjallað saman á fallegum sumardögum, stundum fylgdi líkjör með kaffinu. Tilveran verður ekki söm í dalnum án þín elsku Elfa og þín verður ávalt saknað.

Þú varst elskuð af öllum sem þekktu þig. Góð, hjartahlý, frábær móðir sem drengir þína bera gott vitni um. Elskuð amma og langamma.

Magga og Egill í Króki voru þér mikið þakklát fyrir kærleiksríka aðstoð sem þú veittir þeim á erfiðum tíma. Elfa frænka þín hefur ávallt verið þér þakklát fyrir það og stolt af því að bera nafnið þitt.

Kæri Gylfi, Heimir, Ólafur, Engilbert, barnabörn og langömmubörn, minning um yndislega konu mun fylgja okkur um ókomna tíð.

Ég lít í anda liðna tíð,

er leynt í hjarta geymi.

Sú ljúfa minning; létt og hljótt

hún læðist til mín dag og nótt,

svo aldrei, aldrei gleymi.

(Halla Eyjólfsdóttir)

Guðrún Björk, Helgi og fjölskylda.

Látin er fyrir aldur fram kær sveitungi, Elfa Guðmundsdóttir ættuð frá Króki í Grafningi. Þar ólst Elfa upp fram á unglingsaldur í glaðværum systkinahóp við ástríki foreldra sinna og síðan hér í borginni. Eftir nám fór Elfa að starfa við hin ýmsu störf við umönnun og fleira, síðan við veitingastörf í Hlégarði samhliða því að sinna myndarlegu heimili þeirra hjóna og fleiru.

Góð samskipti voru ávallt á milli Króks- og Nesjavallafjölskyldnanna, enda systkinahópurinn á báðum bæjum á svipuðum aldri og áhugamálin svipuð til leiks og starfa.

Elfa var ávallt glaðvær í viðmóti og alltaf gaman að hitta hana og eiginmann hennar Gylfa Guðjónsson, glaðvær og samrýmd hjón sem bjuggu mestan sinn búskap í Mosfellssveit/dal þar sem þau undu hag sínum afar vel með góðum grönnum. Þau byggðu sér sumarhús í landi Króks við bakka Ölfusvatnsár og nutu þess að dvelja þar löngum stundum við útiveru og fjölbreyttan fuglasöng í skógi og heiði sem og við veiði í Þingvallavatni með fjölskyldu sinni og vinum.

Elfa var dugleg að ferðast á sínum yngri árum og dvaldi um tíma í Bandaríkjunum. Síðar komu til tíðar ferðir þeirra hjóna til Kanaríeyja með vinum og kunningjum og voru þau nýkomin úr einni slíkri ferð þegar Elfa veiktist skyndilega.

Elfa var mikið náttúrubarn eins og fyrr er getið, naut þess að horfa á fegurð Þingvallasvæðisins á fallegum vor- og sumardögum sem og á litskrúðugum haustdögum þegar svæðið var nánast baðað í allri litaflórunni. Vetrardagar áttu einnig sinn sess á svæðinu þótt stundum gnauðaði þá hressilega til fjalla og heiða og snjó kyngdi stundum niður. Allur Þingvallapakkinn stundum í boði til veðurs og gæða þegar verið var þar á ferð, eins og Elfa sagði, bara með misjafnri áferð til að njóta.

Um lífshlaup Elfu væri hægt að skrifa langa minningargrein, en þessar fátæklegu línur verða að nægja að sinni.

Megi Guð vernda Elfu og minningu hennar, foreldra og systkini sem fallin eru frá, með þökk fyrir góðar samverustundir.

Við fjallavötnin fagurblá

er friður, tign og ró.

Í flötinn mæna fjöllin há

með fannir, klappir, skóg.

Þar líða álftir langt í geim

með ljúfum söngva klið,

og lindir ótal ljóða glatt

í ljósrar næturfrið.

(Hulda)

Með virðingu og þökk kveðjum við Elvu Guðmundsdóttur og vottum eiginmanni hennar, börnum, afkomendum og vinum innilega samúð okkar.

Fyrir hönd fjölskyldunnar frá Nesjavöllum,

Ómar G. Jónsson.