„Við segjum eiginlega ekki töluna. Ekki af því að menn eru feimnir við að vera orðnir gamlir heldur vegna þess að fólk bara trúir þessu ekki,“ segir Einar Bárðarson umboðsmaður Skítamórals í samtali við Kristínu Sif Björgvinsdóttur í Dagmálum í dag.
Hljómsveitin Skítamórall var stofnuð árið 1989 og hefur verið starfandi allar götur síðan. Þrátt fyrir að hljómsveitin hafi komið mismikið fram undanfarin ár hafa meðlimir hennar engu gleymt, að sögn Einars.
„Ég fór á fjórar hljómsveitaræfingar með þeim núna í febrúar og mars og það var eiginlega bara fyndið því þeir hafa varla æft frá því að þeir voru 14 ára,“ segir Einar og telur hljómsveitina síður en svo hafa misst þéttleikann.
Að sögn Einars miðar undirbúningnum vel og er við miklu að búast af Skítamóral í Háskólabíói og Hofi á Akureyri um næstu helgi.