Kjartan Magnússon
Árið 2013 samþykkti borgarstjórn aðalskipulag sem kvað á um markvisst niðurrif á Reykjavíkurflugvelli. Skipulagið fól í sér fækkun flugbrauta og að flugstarfsemin yrði lögð niður með öllu árið 2024.
Skipulagið mætti harðri andstöðu almennings og metfjölda undirskrifta var safnað fyrir óbreyttri starfsemi flugvallarins. Reykjavíkurborg var knúin til að setja málið í sáttaferli, sem fól í sér áframhaldandi starfsemi vallarins á meðan leitað væri að nýjum stað sem gæti leyst Reykjavíkurflugvöll af hólmi.
Ljóst er að Samfylkingin og aðrir vinstriflokkar í borgarstjórn eru afar ósátt við að þeim skuli ekki enn hafa tekist að leggja Reykjavíkurflugvöll niður í heilu lagi. Þau kjósa því að þrengja að flugvellinum í skrefum í von um að gera rekstur hans smám saman erfiðari og að á endanum neyðist flugmálayfirvöld til að loka honum.
Lokun flugbrautar
Nýleg lokun austur-vestur flugbrautar Reykjavíkurflugvallar er bein afleiðing þessarar þrengingarstefnu. Brautinni var lokað fyrir almennri flugumferð í sex vikur, frá 8. febrúar til 25. marz sl., þar sem hæð trjágróðurs í Öskjuhlíð var talin ógna flugöryggi. Á áðurnefndu tímabili var brautin lokuð fyrir sjúkraflugi í þrjár vikur.
Samgönguyfirvöld töldu lokun brautarinnar óhjákvæmilega, þar sem Reykjavíkurborg hefði ekki staðið við skýra samninga um að trjágróðri í Öskjuhlíð skyldi haldið í skefjum í þágu flugöryggis.
Slíkt mál ætti auðvitað ekki að vera pólitískt heldur tæknilegt. Málið er þó rammpólitískt, þar sem vinstriflokkarnir vilja flugvöllinn feigan. Það skýrir hvers vegna Reykjavíkurborg hundsaði skýr samningsákvæði um trjáfellingu í þágu flugöryggis.
Uppbygging ógnar flugöryggi
Á kjörtímabilinu hafa vinstri meirihlutar í borgarstjórn unnið að skipulagi vegna uppbyggingar í „Nýja Skerjafirði“. Ljóst er að slík byggð myndi þrengja að starfsemi Reykjavíkurflugvallar og skerða notagildi hans frá því sem nú er. Isavia hefur ítrekað lýst yfir áhyggjum af áhrifum viðbótarbyggðar í Skerjafirði á flugöryggi og þjónustugetu flugvallarins.
Óafgreidd öryggismál
Sumarið 2023 sendi Isavia þrjú erindi til Reykjavíkurborgar með ósk um smávægilegar breytingar á skipulagi í því skyni að auka öryggi á Reykjavíkurflugvelli.
Eitt erindið varðar breytingu á deiliskipulagi vegna nýrra aðflugsljósa við vesturenda flugvallarins. Um er að ræða mikilvægt öryggismál vegna aðflugs að vellinum.
Annað erindið snýst um færslu á eldsneytisgeymum á flugvallarsvæðinu. Nú eru sumir þeirra staðsettir á óheppilegum stað með tilliti til flugöryggis og mengunarmála. Um langt skeið hefur verið áformað að flytja geymana til í því skyni að auka öryggi og draga úr akstri yfir flugbrautir. Um mikilvægt öryggismál er að ræða.
Þriðja erindið varðar beiðni um uppsetningu á myndavélamastri fyrir fjarturn á flugvellinum. Um er að ræða mikilvægt öryggis- og rekstrarmál vegna umferðarstjórnunar á og við völlinn. Unnt er að gera umhverfislistaverk úr mastrinu eins og gert hefur verið í sambærilegum tilvikum erlendis.
Um tuttugu mánuðum eftir að erindin voru send bárust loks
álit umsagnir frá borginni varðandi tvö málin þar sem kveðið er á um að vinna þurfi deiliskipulagstillögu um þau áður en lengra sé haldið.
Óhæfilegur dráttur
Ekkert erindanna hefur enn hlotið afgreiðslu og skýr svör hafa ekki fengist um hvort viðkomandi framkvæmdir verði leyfðar. Óhæfilegur dráttur hefur því orðið á meðferð málanna hjá borginni. Er ámælisvert að sjálfsagðar endurbætur í öryggisskyni hljóti ekki greiðlega meðferð í borgarkerfinu heldur verði töfum og skeytingarleysi að bráð.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til að áðurnefnd mál verði lögð fyrir umhverfis- og skipulagsráð borgarinnar sem fyrst til umfjöllunar og afgreiðslu. Óviðunandi er að slík öryggismál Reykjavíkurflugvallar hrakhraufist um borgarkerfið árum saman án niðurstöðu.
Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.